föstudagur, 18. febrúar 2011

Pólitísk rétthugsun og undirskriftasöfnun

Ekki rekur mig minni til þess að undirskriftasöfnun hafi verið jafn mikið á milli tanna á fólki eins og sú sem fram fór vegna Icesave frumvarpsins. Allskonar fólk hefur skyndilega mikinn áhuga á tæknilegum atriðum og frávikum sem alltaf hafa verið til staðar þegar undirskiftum er safnað á hvaða hátt sem það hefur verið gert.

það er eins með þetta mál og mörg önnur að margir hafa enga prinsippskoðun á hlutunum heldur taka afstöðu með eða á móti út frá því hvort hlutirnir henta skoðun viðkomandi frá einu máli til annars.

Fólk er afar hrifið af málskotsréttinum sé hann notaður til að stöðva fjölmiðlalög en alls ekki sé hann notaður til að stöðva Icesave. Ég gæti haldið áfram.....

Sumir þeirra sem gargað hafa hæst um lýðræði og málskotsrétt hamast nú seint og snemma á undirskriftasöfnun þeirra sem vilja að þjóðin kjósi um Icesave. Meira að segja fólk sem alla jafna hefur haft þá skoðun að tilltölulega lítill hópur þjóðarinnar eigi að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um alla skapaða hluti.

Pólitísk rétthugsun í sinni dapurlegustu mynd

Röggi

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, orð í tíma töluð

Mibbó

Nafnlaus sagði...

Rétt er það - og helstu stuðningsmenn undirskriftasafnanna og þjóðaratkvæðagreiðslna eru þeir sem fyrir býsna fáum árum máttu ekki heyra á hvorugt minnst. Í þessu eins og mörgu öðru halda menn sig ekki við nein princíp heldur haga seglum eftir vindi.

Flosi

Nafnlaus sagði...

Hárrétt hjá þér Röggi ... en hinn hópurinn (á móti Icesave) er alveg nákvæmlega eins. Amk ekki betri.

Þetta er bara íslensk rökræða, þe menn halda því á lofti sem hentar hverju sinni, þó þeir hafi sagt akkúrat öfugt daginn áður.

Elfa Jóns

Lason sagði...

Tveir efstu menn á lista undirskriftasöfnunar http://orkuaudlindir.is/ eru Andrés Önd og Bart Simpson. Samt hefur enginn sagt orð um trúverðugleika þeirrar söfnunar. Það er merkilegt.

Nafnlaus sagði...

Mjög rétt.

Pólitísk rétthugsun en ekki síður pólitísk hentistefna.

Fólk sem svona hugsar grefur undan lýðræðinu.

Nafnlaus sagði...

Elfa Jóns er dapurlegasta dæmið um pólitíska rétthugsun. Henni er fyrirmunað að skilja að þjóðin skiptist ekki í tvo hópa. Heimurinn er ekki svarthvítur.

Nafnlaus sagði...

Ég er á því að skynsamlegast sé að samþykkt Alþingis um Icesave fari í þjóðaratkvæði. Það breytir ekki því almenna viðhorfi mínu að ef undirskriftasafnanir af þessu tagi eigi að hafa áhrif á ákvarðanir forseta landsins þurfi að gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra. Þessi umrædda undirskriftasöfnun er marklítil vegna storvægilegra galla sem eru á framkvæmd hennar.

Nafnlaus sagði...

Ef ég er dapurlegasta dæmið um pólitíska rétthugsun, þá er ég hún nú ekki stór vandamál :)

Ég hef aldrei skilið þessa liðaskiptingu í íslenskri umræðu og sem minnst viljað taka þátt í henni.

Ég hef heldur aldrei skilið hvernig Icesave-málið getur skipst eftir pólitískum línum, þetta er fullkomlega ópólitískt mál.

Snýst bara um hvaða leið er heppilegust út úr klípunni sem við erum í.

Mér er alveg sama hvaða leið er valin, bara að hún sé sú hagkvæmasta fyrir Ísland.

Hversu mörg ykkar geta tekið undir það?

Elfa Jóns

Ómar sagði...

Það er svo sem rétt að afstaða manna til undirskriftasafnana fer gjarnan eftir efni þeirra. Nánar um það á eftir. Mér finnst hins vegar full ástæða til að ræða synjunarvald forseta, því þar erum við komin út fyrir dægurþrasið, eða ættum að vera það.

Sérstaklega finnst mér áhyggjuvert þegar ÓRG lýsir því yfir hvað eftir annað, að í lýðræðisríki eigi þjóðin að hafa síðasta orðið. Það er útaf fyrir sig ekki slæm skoðun. Hún er hins vegar í andstöðu við íslenska stjórnskipun sem byggir á þingræði, þ.e. að Alþingi hafi síðasta orðið. Stjórnarskráin á ekki að vera svo sveigjanleg að einn maður geti breytt stjórnskipuninni bara sisona.

Um undirskriftasafnanir og hversu marktækar þær eru þarf bara eitt að segja. Þær eru tæki til að ná fram pólitískum markmiðum og sjálfsagt að beita pólitískum brögðum ef menn eru andstæðrar skoðunnar.

Nafnlaus sagði...

Best var þegar Kastljós fékk einhvern rásandi og blásandi "bloggara" í símaviðtal í gær. Sá hinn sami og hafði dásámað orkuauðlinda undirskriftalistann, en þá var það frábær hugmynd. En það var svosem ágætis afhjúpun.

Nafnlaus sagði...

Ástæðan er einföld: Þetta er fyrsta "leynilega undirskriftasöfnunin" sem fram hefur farið.

S. Holm sagði...

Röggi, Þetta er liklega besta sem ég hef lesið varðandi þessa undirskriftasöfnun! Því fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur, því betra. Hyskið á þinginu hugsar bara um eigin hagsmuni, pólitíska og fjárhagslega