Það er auðvitað í mikið ráðist að ætla sér að reyna að lesa í orð og hegðun Samfylkingarinnar þessi misserin. Flokkurinn er kengfastur í gildru sem hann gékk glaðbeittur í þegar samstarfið við VG var innsiglað. Smátt og smátt hefur það svo runnið upp fyrir Samfylkingunni að með VG er ekki hægt að starfa af öllum ástæðum mögulegum.
Lengi lét Samfylkingin eins og ekkert væri enda var sigurinn fólginn í því einu að komast að kjötkötlunum og taka þetta með vinstri. Þann "sigur" þarf nú að endurskilgreina þrátt fyrir að forystumenn flokksins tali stórt hvar sem þeir komast í tæri við sviðsljós. Öllum er ljóst að Samfylkingin engist af pólitískum kvölum í samstarfinu.
Jóhanna Sigurðardóttir heldur áfram kaldastríðstali sem allir eru löngu hættir að stunda eða taka nokkurt mark á. Hún er umborin af því að annað er ekki í stöðunni en orð hennar vega sífellt minna. Hún slær um sig með skammaryrðum eins og frjálshyggju en hún hefur þó margsýnt að hún veit ekkert hvað frjálshyggja snýst um. Eina frjálshyggjan sem hún skilur til fullnustu er sú ríkisfrjálshyggja sem nú dynur á okkur þar sem ráðherrar eiga allt og alla til ráðstöfunar eftir hentugleika.
Samfylkingin hefur eitt mál á sinni stefnuskrá en er að öðru leiti ekki með stórar áhyggjur. Aðild að ESB knýr flokkinn og allt gott um það að segja ef skiptimyntin væri ekki að leyfa VG að slátra hagkerfi okkar á meðan.
Nýjustu æfingar flokksins eru að tala um stofnun flokks utan um ESB aðildina. Í og með pólitísk reykbomba en líka neyðaróp flokks sem þarf svo mikið að losna frá VG. Samfylkingunni er svo mikið í mun að sverja sig frá þeirri ríkisstjórn sem hún situr í að allt er leyfilegt.
Leiðtogar flokksins slá um sig með orðum eins og frjálshyggjusukk og forréttindahópar eða hálaunfólk og telja sig fara fremst í baráttunni gegn slíkri óárann. Þessi ríkisstjórn vill gera okkur öll að láglaunafólki og stjórrnmálamenn að forréttindahópum með bitlinga að smekk. Og svo er fabúlerað um að vandinn sé ekki þeim að kenna eins og það lini þjáningar þeirra sem eru að verða fyrir barðinu á "lausnunum".
Vissulega verðum við að læra af fortíðinni en við getum ekki sífellt skotið okkur á bak við hana þegar okkur tekst ekki að leysa verkefni í nútíð og framtíð. Og pólitískar morfísæfingar eins og þær sem Jóhanna stundar í hvert mál eru í besta falli barnalegar.
Það mun enginn skera Samfylkinguna úr snörunni sem hún hefur um hálsinn í samstarfinu við VG. Næstu kosningar munu og eiga að snúast um efnahagsmál og þar verða engar þægilegar útgönguleiðir fyrir Samfylkinguna.
Röggi
mánudagur, 30. maí 2011
Og Jóhanna talar...
ritaði Röggi kl 09:01 1 comments
föstudagur, 27. maí 2011
Landlæknir fellur á prófinu
Ég horfði á landlækni tala um læknadópsvandann í kastljósi í kvöld. Landlæknir virkaði ráðvilltur maður að tala um eitthvað sem hann skilur hvorki upp né niður í. Þunglamalegur embættismaður og greinilega góðhjartaður og velviljaður en fattar hvorki vandann né leiðina að lausnum.
Allir vita að alvarleg misnotkun á sér stað með hryllilegum afleiðingum og jafn augljóst er að til þess að hægt sé að misnota læknadóp þarf óvandaða lækna til. Þetta skilur hvert barn og orðhengilsháttur í þeirri umræðu hrein móðgun.
Þess vegna er dapurlegt að horfa á landlækni tala út og suður um að hann vilji ekki trúa því að til séu óheiðarlegir læknar af því að þeim var ekki beinlínis kennt að vera það. Landlæknir lagði mikla áherslu á það sem vel er gert og nauðsyn þess að það megi ekki gerast að þeir sem þurfa lyf fái þau ekki. Um þetta gerir auðvitað enginn ágreining...
...en við hljótum að gera þá lágmarkskröfu að embættismaður eins og landlæknir fáist til að draga höfuðið upp úr sandinum og tala við okkur um þennan vanda á íslensku og án undanbragða.
Það á að vera glæpur að misnota réttindi sín eins og einhverjir gera og það er fáránlegt að hlusta á landlækni læðast í kringum vandmálið og þessa lækna eins og þeir séu viðkvæm blóm sem ekki má snerta.
Ef ekki verður tekið af myndaskap á þessu núna er augljóst að sá sem gegnir embætti landlæknis veldur ekki verkinu og eða embættið sjálft er ónýtt í prinsippinu.
Röggi
ritaði Röggi kl 00:10 6 comments
fimmtudagur, 26. maí 2011
Steingrímur og Icesave.....
Steingrímur J Sigfússon hefur enn einu sinni snúist til varnar afstöðu sinni í Icesave málinu. Fyrir okkur "venjulega" fólkið er auðvitað engin varnarstaða til fyrir Steingrím í því máli og að líkindum hefur hann loks séð það sjálfur og reynir því að snúa vonlausri vörn í einhversskonar sókn.
Og vörn hins samviskubitna Steingríms fellst helst í því að tala illa um baráttu þeirra sem björguðu okkur frá hörmungar samningi þeirra kumpána Steingríms og Svavars Gestssonar. Þar sér félagi Steingrímur sín helstu mistök hafa verið að standa ekki fastar á sínu og vera of eftirgefanlegur. Og á sama tíma reynir hann með mögnuðum hætti að eigna sér stöðu málsins í dag.....
Steingrímur bendir á að hann hafi ekki búið vandamálið til og telur sig þá væntanlega í góðum rétti til að klúðra lausninni fullkomlega. Svona tal heldur auðvitað hvorki vatni né vindum og er ekki boðlegt vilji menn taka vitrænan þátt í umræðum.
Hér sjáum við þrautreyndan stjórnmálamann reyna að bulla sig út úr vonlausri stöðu með taktískum hætti. Þáttur Steingríms J í Iceasave klúðrinu er með þeim hætti að enginn PR maður getur hannað pólitískan sigur í þeirri sögu.
Þar blasa staðreyndir við og við getum þakkað öllum öðrum en félaga Steingrím fyrir hvernig virðist vera að rætast úr.
Röggi
ritaði Röggi kl 12:30 3 comments
fimmtudagur, 19. maí 2011
Ónýt kvótaumræða í boði forsætisráðherra
Það vantar ekki að stóryrði falla dag hvern um kvótamálefnið. Alþingi reynir að fjalla um málið en þar á bæ kann varla nokkur maður að stunda rökræður. Málfutningur þeirra sem ekki eru tilbúinir að gleypa frumvörp Jóns Bjaransonar hrá er afgreiddur með séríslenskum skætingi. Forsætisráðherra telur eins og margir stjórnmálamenn af hennar kynslóð nægilegt andsvar að kalla fólkið sem gagnrýnir nöfnum.
Málefnaleg gagnrýni þeirra sem andsnúnir eru ekki svaraverð að hennar mati enda það fólk "greinilega" handbendi LÍÚ. Og þar með er það mál afgreitt af hennar hálfu. Þetta kann að ganga vel í hennar pólitísku heimabyggð um stundarsakir en gerir umræðunni og því máli sem er til umfjöllunar ekkert gagn.
Ef þetta mál væri svo sára einfalt að taka bara kvótann af "glæpalýðnum" sem nú nýtir hann og fær hann á skrifstofu Jóns Bjarnasonar til úthlutunar væri líklega búið að ganga í það mál. Ég hitti reyndar stundum fólk sem sér þetta sem réttlæti.
Málið er ekki einfalt og þeim sem svíður gjafakvótinn og framsalið eða skuldsetningin eða hvað það nú er gengur kannski illa að skilja af hverju er ekki bara búið að "laga" málið. Hvað er svona flókið?
Af hverju má ekki hver sem er kaupa kvóta og hefja veiðar? Eiga þessi kvótakóngar einkarétt á fiskinum okkar? Setjum bara þessa skratta á hausinn og byrjum upp á nýtt og skiljum þá eftir í skuldasúpunni.
Flestir hugsandi menn vita að svona auðvelt og einfalt er málið ekki en lýðsskrumarar hafa lagt hald á alla raunverulega umræðu um málið og Jóhanna Sigurðardóttir rær á þau mið með sífelldum skætingi í garð þeirra sem vilja hafa rökstuddar skoðanir en andstæðar hennar á málinu.
Ég hef mínar efasemdir um framkvæmd kvótakerfisins og hvernig hefur tekist til. En ég get ekki alveg fest hönd á það hvernig ég sé fyrirkomulaginu örðruvísi komið fyrir. Ég veit ekki hvort réttlætiskennd minni verður nægilega þjónað með þeim hugmyndum sem Jón Bjarnason hefur tjaslað saman við illan leik til að þykjast vera að standa við gefin loforð. En það get ég þó fullyrt hér og nú að mér hugnast hreint ekki þær hugmyndir að stjórnmálamenn fari að hafa fingur sína í úthlutun kvóta....
En mikið væri það nú þægileg tilbreyting ef hægt væri að treysta á að þeir sem um málið eiga að fjalla á þingi hvort sem þeir heita stjórn eða stjórnarandstaða gætu komið að gagni í umræðunni og legðu sig fram um að hafa hana upplýsandi en ekki sífellt eins slagorðaæfingu í kosningabaráttu.
Stóryrði um fólk sem hefur skoðanir en engin umræða um skoðanirnar eru ónýt aðferð en er að mér virðist eina aðferðin sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur í vopnabúri sínu þessi misserin.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:46 4 comments
miðvikudagur, 18. maí 2011
Bjartsýni Steingríms
Steingrímur J. Sigfússon sendir frá sér grein í fréttablaðinu í dag og reynir að tala upp stemninguna í þjóðfélaginu. Þar fá menn eins og ég of fleiri ádrepu fyrir neikvæðni og svartsýni. Ráðherrann sér bjartari tíð með blóm í haga á næsta leiti og telur sér það allt til tekna.
Það er nú einu sinni þannig að það sem fer niður leitast stundum á endunum við að koma upp aftur og ég held að allir hafi vitað að frá botninum er bara ein leið, nefnilega upp á við. Ég og margir aðrir gagnrýnismenn vissum það auðvitað að við myndum ná vopnum okkar á endanum ÞRÁTT fyrir Steingrím og hans fólk og hugmyndir en alls ekki VEGNA hans.
Steingrímur og VG hafa gert allt til að tefja fyrir og gera enn. Ég þarf varla að nefna það að ef öll áform VG hefðu gengið eftir væru horfur okkar mun verri en þær þó reynast vera og nægir þar engöngu að nefna Icesave samninginn glæsilega í þeim efnum.
Kreddur flokksins í garð erlendra fjárfesta og einkareksturs eru dragbítur og ýmist áunnið skilningsleysi á nauðsyn hagvaxtar og aukinnar þjóðarframleiðslu eða meðfætt beinlínis hættulegt.
Boð og bönn og ríkishugsun er nú allsráðandi og erlendir fjárfestar sem og aðrir óbreyttir skilja hvorki upp né niður í stjórnvöldum sem tala út og suður um allskonar og daðra við löggjöf sem takmarkar viðskiptafrelsi.
Nú er sú hugsun við lýði að einkarekstur er hættulegur og hagnaður fyrirtækja þjófnaður sem ber að skila að fullu til ríkissins. Ráðherrar una sér ekki hvíldar í viðleitni sinni til að þrengja sem mest að borgurum landsins og forða þeim frá því að taka ákvarðanir um eigin mál. Ríkið ætlar að sjá um okkur í stóru og smáu.
Ég hef algera sannfæringu fyrir því að þessi nálgun er vonlaus við allar aðstæður og sér í lagi í niðursveiflu eins og nú er. Og meira að segja alvitlaus stjórnvöld megna ekki þrátt fyrir einbeittan vilja að koma í veg fyrir efnahagur þjóðarinnar finni sér farveg til þess að styrkjast.
Látum ekki blekkjast þó eitthvað rofi til. Það gerist hægar en efni standa til og það skrifast á Steingrím J umfram aðra menn.
Röggi
ritaði Röggi kl 09:37 1 comments
sunnudagur, 15. maí 2011
Ruglið í Jónasi
Gamli orðdóninn Jónas Kristjánsson er eini maðurinn á Íslandi sem hrósar eyjunni fyrir mistökin sem gerð voru þegar nafn mannsins sem myrti barnsmóður sína var birt korteri eftir atburðinn. Það kemur kannski ekki mikið á óvart enda voru síðustu ár Jónasar í blaðamennsku einn lægsti punktur þess fags og mjög í ætt við þessa tegund fagmennsku. Og kannski kemur heldur ekki á óvart að þessi stuðningsyfirlýsing skuli talin stórfrétt á eyjunni...
Jónas telur að ef þjóðin fái ekki að vita nöfn allra þarna samstundis varði það þjóðarhag og væntanlega öryggi líka og telur það nánast tilraun til þöggunar að birta ekki nöfnin strax. Og gamli refurinn reynir svo að sigla þessari ömurlegu nálgun sinni til hafnar með því að tala um og bera saman leyndarhyggju og svindl þeirra sem sök eiga á efnahagshruni þjóðarinnar í þessu samhengi. Meira að segja Göbbels hefði ekki látið sér detta þetta i hug....
Ég hef ákveðna samúð með því grundvallarsjónarmiði sem ég held að Jónas sé að tala fyrir en að nota það í svona málum er í besta falli út í hött.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:58 4 comments
laugardagur, 14. maí 2011
Eyjan fellur tvisvar á prófinu
Ég eins og margir aðrir biðum í rólegheitum eftir því að ritstjóri eyjunnar bæðist afsökunar á ótrúlegum dómgreindarbresti þegar miðillinn birti bæði nafn og bílnúmer þess manns sem myrti barnsmóður sína í vikunni skömmu eftir atburðinn.
Einhverja tilraun gerir Karl Th til þess en þvílíkur kattarþvottur! Karl er eins og gamall stjórnmálamaður sem aldrei kannast við fullan ósigur. Hann biðst afsökunar en samt eiginlega ekki....
Jú nafnbirtingin var klúður viðurkennir ritstjórinn en nauðsynlegt að hafa bílnúmerið og hann notar sömu röksemdir og áður og fyrr hafa verið notaðar. Nefnilega að það sé gert til að þjóðin sé ekki að stimpla alla sem eiga þá bíltegund sem hér um ræðir sem morðingja.
Þessi málatilbúnaður nær auðvitað ekki nokkurri átt og betra hefði verið að segja ekkert. Með þessum rökum er hægt að réttlæta nafnbirtingu korteri eftir hverja einustu handtöku eða yfirheyrslu sem verður fréttaefni til þess að vernda mannorð allra hinna sem annars myndu hugsanlega liggja undir grun.
Í þessum tilefellum er þetta sjónarmið ekki til umræðu og það veit Karl Th auðvitað. Af hverju lætur ritstjórinn það eftir sér að setja fáránlega og ímyndaða hagsmuni allra annarra en geranda og þolanda í málinu í fyrsta sæti?
Getur ritstjórinn ekki séð sjálfan sig í stöðu þessa fólks? Eyjan féllur hér algerlega á prófinu og gerir svo illt verra með sorglegri tilraun ritstjórans til að reyna að finna skandalnum einhverja rökhugsun.
Eyjan fellur tvisvar á prófinu....
Röggi
ritaði Röggi kl 12:24 5 comments
mánudagur, 2. maí 2011
Björn Valur í ruglinu
Björn Valur Gíslason þingmaður VG er það sem sumir vilja kalla skeleggur en ég kalla hann einu nafni kjaftask. Hann hefur upplýst okkur um það að hann telji styrki sem Guðlaugur Þór galdraði fram séu mútur og ekkert minna.
Ég hef þá skoðun bjargfasta að styrkir til stjórnmálaflokka og einstakra þingmana eigi alls ekki að vera leyndarmál. Og ég reyni ekki að halda því fram að styrkjamálið fyrir síðustu kosningar hafi glatt mig sérstaklega en það er önnur saga..
Björn Valur fabúleraði um það að gaman gæti verið að dröslast með þetta mál fyrir dómstóla því þá þyrfti Guðlaugur Þór að afsanna fullyrðingar hans. Það er auðvitað ekki Björn Valur sem fann upp þvæluna um að menn afsanni það sem er á þá borið. Alltaf jafn ömurlegt þó þegar menn leita í smiðju gamla McCarty.....
Svo er líka gott til þess að hugsa að þingmenn skuli gera það af pólitískum stráksskap að finna dómstólum eitthvað að gera akkúrat núna. Síðast þegar Björn Valur og félagar duttu í það stuðið var Geir Harrde ákærður fyrir landsdómi og sú skömm sem það mál hefur valdið þeim sem það gerður verður ævarandi.
En þetta styttir honum auðvitað stundirnar blessuðum og hann getur þá litið upp frá þeirri þrotlausu vinnu sem hann og félagar hann leggja á sig við að draga út lífsgæðum okkar.
Röggi
ritaði Röggi kl 18:45 2 comments