Hæstiréttur hefur þá staðfest að neyðarlögin halda. Þetta er gleðitíðindi og mikilvægi þessarar niðurstöðu meira en flestir virðast gera sér grein fyrir. Mér finnst undarlega hljótt um þetta mál en á því eru auðvitað eðlilegar skýringar.
það er algerlega fáránlegt í raun að Steingrímur J Sigfússon sé sá maður sem fjölmiðlar þurfa að ræða við og leita viðbragða eftir þennan úrskurð hæstaréttar. Ef Steingrímur hefði snefil af pólitískum manndóm myndi hann vísa á Geir Haarde og biðja fjölmiðla um álit þaðan.
Sumir pennar hafa reynt að endurhanna söguna um setningu neyðarlaganna annað hvort þannig að Geir Haarde hafi ekki átt annan kost en að setja lögin eða til vara að hann hafi nú ekki verið einn í því verki. Þetta fólk vill hafa söguna þannig að Geir tók einn allar vondu ákvarðanirnar en í félagi við Jóhönnu og Össur þær góðu. Hvoru tveggja hræbillegar eftiráskýringar sem halda hvorki vatni né vindi þeim sem útbúnir er söguþekkingu og pólitískum heilindum.
Fólkið sem annað hvort kom Geir Haarde fyrir landsdóm eða skrifaði sig til ævarandi skammar með stuðningi við þann gjörning læðist með veggjum þegar þessi úrskurður hæstaréttar er til umræðu.
Steingrímur var í viðtali í útvarpi í dag og umfjöllunarefnið niðurstaða hæstaréttar. Þar var hann minntur á að VG sat hjá þegar lögin voru sett. Steingími J Sigfússyni fannst óþarfi að vera að elta söguna með þessu hætti. Litlu skipti núna hverjir hefðu verið hvað þarna.
Það skyldi þó ekki vera. Steingrímur getur trútt um talað. Fyrir hann skiptir litlu hver sagði hvað eða gerði. Hann situr ekki og bíður meðferðar fyrir landsdómi af því að hann gat ekki komið í veg fyrir hrun fjármálakerfis heimsins sem fyrst féll yfir okkur og eins og augljóst mátti vera, svo yfir alla hina líka.
Það gerir hins vegar Geir Haarde fyrir atbeina núverandi ríkisstjórnar. Ég allt að því vorkenni þeim alþingismönnum sem misstu frá sér dómgreindina daginn örlagaríka þegar sú ákvörðun var tekin.
Þeir sem á eftir okkur koma verða svo að reyna að skilgreina hvaða eiginleika fólk í stöðu Jóhönnu og Össurar þurfa að hafa til að bera til þess að geta setið áfram eins og ekkert hafi í skorist við háborðið.
Hver dagur sem líður frá þeirri ákvörðun leikur allt þetta fólk verr bæði pólitískt og persónulega. Og nú þegar hæstiréttur hefur endanlega klárað málið og þjóðin getur glaðst eru
stjórnmálamenn í ráðuneytum og meirihlutasætum á alþingi með slíkt óbragð í munni að engum dylst sem vill sjá.
Og þeir finna bara alls ekki leiðina út úr skömminni.......
Röggi
föstudagur, 28. október 2011
Neyðarlög og landsdómsóbragðið
ritaði Röggi kl 23:06 5 comments
þriðjudagur, 25. október 2011
Bankasýslan og prinsippsleysi þjóðar
Núna sjá margir sigur í því að stjórn bankasýslu ríkissins hefur sagt af sér og nýráðinn forstjóri ætlar ekki að taka starfið. Prinsippslausa þjóðin skilur málið ekki . Þjóðin sem heldur að hún vilji boðlega stjórnsýslu án pólitískra afskipta vill nefnilega akkúrat þannig stjórnsýslu. Þegar það hentar.
Við viljum stjórnmálamenn sem vasast í öllu eftir pólitískum hentugleika. Við viljum enga andskotans armlengd. Við viljum stjórnmál í öllu. Það er fólkið sem er líklegt til að láta ekki pólitísk hagsmunamál ráða för!
Svo tekur þjóðin bara glænýja afstöðu næst þegar stjórnmálamenn fara að skipta sér af. Þá verða heldur engin prinsipp sem ráða heldur bara dægurumræða þess tíma og svo hið klassíska sjónarmið; Með hverjum held ég.....
Þeir sem fagna núna eiga þau stjórnmál sem við búum að í dag skilið.....
Röggi
ritaði Röggi kl 20:17 4 comments
miðvikudagur, 19. október 2011
Þegar Björn Valur snappar
Björn Valur Gíslason er með Ólaf Ragnar á heilanum. Reyndar hafa vinstri menn verið með hann á heilanum lengi. Lengi vel voru gaurar eins og Björn Valur í klappstýruhlutverkinu. Það var þegar félagi Ólafur Ragnar gerði það sem Birni Val og hans liði fannst fallegt. Það eru einu prinsippin sem Björn Valur telur þess virði að verja þegar kemur að forseta Íslands.
Kannski þarf að halda því skilmerkilega til haga að Ólafur Ragnar er ekki minn maður. Var það ekki sem stjórnmálamaður og enn síður sem forseti. Leðjuslagur gömlu kommana núna um embætti forseta er aumkunarvert og í raun dapurlegt að þurfa að heyja þetta innanhússtríð vinstri manna úr þingflokksherbergjum VG og Samfylkingar til Bessastöðum. Stríð sem snýst í raun sama og ekkert um embættið heldur meira um persónuna Ólaf Ragnar.
Björn Valur hefur eftir því sem ég best fæ séð enga grundvallarskoðun á embætti forseta. Hann veit ekkert hvað þrískipting valds er. Honum finnst í aðalatriðum að forsetinn eigi að vera með réttar skoðanir. Og botnar hreint ekkert í því að forsætisráðherra skuli ekki ráða því hvernig embætti forseta fúnkerar.
Í dag skrifar Björn Valur grein um forsetann sinn. Grútmáttlaus grein og samhengislaus og ljóst að þingmaðurinn getur vart á heilum sér tekið af pirringi og það er ekki gott vegarnesti eingöngu þegar menn ryðjast fram undir þeim formekjum að þeir hafi eitthvað fram að færa.
Þessi áunni pirringur út í persónuna Ólaf Ragnar tók að gera vart við sig þegar hann ásamt allri þjóðinni að undanskilinni ríksstjórninni hans Björn Vals hafnaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem sumir ráðherrar lýðræðiselskandi töldu sig ekki þurfa að taka þátt! Talandi um að hæðast að þjóð....
Þann "glæp" getur Björn Valur ekki fyrirgefið og það er eina ástæða þess hvernig þingmaðurinn ólmast. Dýpra ristir þetta nú ekki.
Og þegar Björn Valur snappar þá skrifar hann reiðigreinar og rífur kjaft. Þessir tveir eiga hvorn annan nefnilega skilið.
Öfugt við þjóðina.....
Röggi
ritaði Röggi kl 11:36 3 comments
miðvikudagur, 12. október 2011
Að taka upp hanska
Séra Baldur Kristjánsson bloggari með meiru kemur mér fyrir sjónir sem hjartahreinn maður og vænn í alla staði. Í dag skrifar hann grein þar sem hann segist vilja taka upp hanskann fyrir biskup.
Baldur virðist misskilja þá sem telja að biskupi sé ekki sætt í embætti eftir það sem á undan er gengið. Ég skil vel þær hugsanir sem bærast með Baldri og engan hef ég heyrt eða lesið sem reynir að snuða Karl Sigurbjörnsson af þeim góðu eiginleikum sem hann er útbúinn eða þeim góðu verkum sem eftir hann liggja.
Stundum gerist það nú samt að góðir menn gera hluti sem ekki er hægt að verja. Ef við ætlum að læra að tileinka okkur þá hugsun að menn axli ábyrgð á gerðum sínum þá verðum við að hætta að leita að undanþágum fyrir þá sem við teljum góða menn. Hver getur tekið sér það vald að ákveða hver er góður eða vondur, óheppinn eða skúrkur?
Rök Baldurs um að feluleikurinn með bréfið skipti litlu vegna þess að bréfritari muni alltaf skrifa annað á önnur heimilsföng og þannig geti ekki verið um tilraun til þöggunar að ræða eru svo ótrúlega léttvæg og ónothæf að engu tali tekur.
Suma slagi á maður ekki að taka...
Röggi
ritaði Röggi kl 12:06 2 comments
þriðjudagur, 11. október 2011
Kirkjunnar vandi
Þau verða ekki erfiðari málin en kynferðisbrotamálin. Sannanir oft ekki til staðar og viljinn til að trúa þeim sem tala svo sterkur. Ég veit ekki um nokkurn mann sem ekki trúir Guðrúnu Ebbu en fyrir dómstóla og í hennar tilviki þjóðkirjuna vantar sannanir og helst játningu svo hægt sé að grípa til ráðstafana. Þetta er vissulega snúið en samt....
Ég ætla að halda því fram að líkindi til þess að hópur ótengdra kvenna, eins og í máli Ólafs Skúlasonar, taki sig til og beri kynferðisglæpi á einn mann séu engin. Bara alls engin. Hver ætti hvatinn að geta verið? Hver ætti hvati barns sem ber slíkt á föður sinn út yfir gröf og dauða að vera?
Ólafur talaði um djöfulinn þegar konurnar hófu að segja frá en aðrir menn í svipaðri stöðu í dag tala um hefnd, heimsku og hatur. Og þar við sat. Og situr enn og lífið heldur svo sinn vanagang...
Kirkjan minnir mig á lögregluna hér áður fyrr sem tók alltaf varðstöðu með gölluðu eplunum sem klæddust búningnum. Það var alltaf veikleiki að játa mistök. Mér finnst þeir menn sem tala opinberlega fyrir þjóðkirkjuna hafa það helst að markmiði að sleppa sem þægilegast frá málum og alveg örugglega án þess að biskup axli ábyrgð. Hvaða andskotans máli skipta fjárbætur í þessu samhengi? Þær eru vissulega til einhvers fyrir fórnarlömbin en þær leysa kirkjuna svo sannarlega ekki úr snörunni.
Þjóðkirkjan er orðin kerfi sem leitast við að verja sig og sína alltaf og allsstaðar. Þetta kerfi mallar á sjálfstýringu og er prógramerað þannig að aldrei megi játa neinn skandal. Fyrir okkur hin er það skandall.
Það þarf ekki lögfræði eða nein önnur vísindi til þess að sjá að þegar Karl biskup stingur bréfi Guðrúnar Ebbu ofan í skúffu er hann að bregðast. Enginn Guð og engin orð geta breytt því. Öll eðlileg viðmið venjulegs fólks fær það til að komast að þeirri niðurstöðu. Engin rök finnast með feluleiknum.
Kerfið leitast við að sleppa við að taka á því máli með því að tala um að málið snúist ekki um einn mann heldur kerfið í heild. Ég veit ekki hvort kemur á undan í þessu en niðurstaðan getur aldrei orðið á þann veg að Karl sitji áfram.
Mér er sama hvort eitthvað system eða skrifræði sagði biskup að fela bréfið eða ekki. Hann verður að stíga til hliðar. Sjálfs síns og kirkjunnar vegna. Af hverju blasir þetta við öllum öðrum en kirkjunnar mönnum? Hvaða hagsmunir eru mikilvægari kirkjunni en trúverðugleiki?
Kirkjan kann að kenna öðrum að njóta þess að fyrirgefa en hún kann ekki að fyrirgefa sjálfri sér. Kirkja sem glatar þeim hæfileika þarf ekki að láta það koma sér á óvart ef sóknarbörnin tapa trúnni.
Kirkja sem ekki biðst afsökunar af fullum heilindum og bregst myndarlega við núna á ekki skilið að henni sé fyrirgefið.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:58 2 comments
laugardagur, 1. október 2011
Eru mótmælin við þinghúsið misskilningur?
Þjóðin mætti og mótmælti við setningu þingsins í dag. Þinghúsið og fólkið sem þar situr í umboði kjósenda eru kannski rökrétt skotmark í hugum margra. Ég sé á þessu ýmsar hliðar. Í alvöru systemi væri alþingi ekki ábyrgt fyrir gerðum ríkisstjórnar. Á Íslandi er alþingi ríkisstjórnin og ríkisstjórnin alþingi.
Það er viðurkennd staðreynd að ráðherrar ráða öllu í stjórnkerfinu. Þingið situr og stendur eins og hæstvirtum ráðherra þóknast. Hlutur almennra stjórnarþingmanna er að standa og klappa þegar ráðherrar og embættismenn ráðuneyta hafa smíðað frumvörp. Svona hefur þetta verið lengi og verður áfram ef við lögum ekki til.
Við þekkjum þingið ekki eins og löggjafarsamkomu heldur miklu frekar eins og kjaftaklúbb utan um ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið. Það eru engar raunverulegar ákvarðanir teknar af alþingismönnum öðrum en þeim sem fá að vera ráðherrar. Það fólk situr báðu megin borðs. Setur lög og vinnur eftir þeim. Stundum kemur þetta svo í öfugri röð...
Við viljum frekar eyða tíma okkar í þras um það af hverju kerfið okkar virkar ekki en að tala um að breyta því. Af hverju mætir ekki þetta góða fólk og andæfir þegar ríkisstjórnin fundar? Af hverju sér fólk ekki mun á þessum stofnunum sem þó eiga að vera aðskildar?
Ég fullyrði að ef hér væri ríkisstjórn sem stæði sig vel og allt væri með felldu dytti fáum í hug að mótmæla jafnvel glórulausum ákvörðunum þings. Vissulega bera þingmenn ábyrgð en þeir EIGA ekki að þurfa að bera ábyrgð á forheimskum stjórnvöldum. Þingmenn eiga að vera löggjafar og aðskildir frá framkvæmdavaldi. Vera aðhaldið með framkvæmdavaldinu.
Mörgum finnst þetta léttvægt og ekki skipta máli í okkar litla samfélagi. Það kalla ég að nota rökin með þrískiptingunni sem mótrök. Vegna smæðar samfélagsins er mikilvægt að tryggja þennan aðskilnað. Það er nýtt fyrir mér ef smæð samfélaga dregur úr líkum á hagsmunárekstrum.
Á Íslandi er það óþekkt að mestu að stjórnvöld þurfi að taka tillit til löggjafans, þingsins, sem þó er kosið til þess að setja lög fyrir samfélagið okkar og þar með talin stjórnvöld á hverjum tíma. Við lesum um slíkt annarsstaðar en eins og oft áður og fyrr teljum það ekki henta okkar Íslensku aðstæðum.
Á alþingi situr fullt af góðu og vönduðu fólki sem vill vel en ræður í raun ekki miklu um nokkurn skapaðan hlut. það fólk fær að sitja í úthlutunarnefnd listamannalauna og fær svo leyfi til að fabúlera um mannanafnanefnd og önnur stórmál.
Á Íslandi ráða ráðherrar öllu og mér finnst að ef við viljum mótmæla stjórnarfari væri nær að safnast saman fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr raunverulegt löggjafarvald til borðs með framkvæmdavaldinu og gerir það sem því sýnist án þess að þurfa að spyrja þingið.
Á meðan við ekki styrkjum stórlega þrískiptingu valdsins er borin von að þingið muni geta gert það sem mótmælendur dagsins í dag vonast til af því.
Röggi
ritaði Röggi kl 18:51 0 comments
Egg eða múrsteinn
Nú kasta menn eggjum og þykjast gera það fyrir góðan málsstað. Ég hef alltaf verið þeirra skoðunar að enginn málsstaður réttlæti ofbeldi. Auðvitað er stigsmunur á því að fleygja múrsteinum eða eggjum en hann er ekki eðlis og nú hneykslast margir þeir sem fögnuðu múrsteinakasti búsáhaldabyltingarinnar. Hver þarf prinsipp þegar pólitík er annars vegar.....
Hugsanlega hefði enginn sagt neitt ef eitt eggið hefði ekki hæft þingmann sem féll við. Í búsáhaldabyltingunni voru svona smámunir taldir eðlilegur fórnarkostnaður og kastarinn að ástunda hetjulega borgaralega óhlýðni. Leiðtogar byltingarinnar töldu óhæfu að laganna verðir leyfðu fólki ekki að komast inn í þinghúsið þegar æsingurinn var í hámarki.
Ég hef sömu skoðun í þessu nú og þá og hvet málsmetandi menn til að læra af því hvernig fór síðast þegar eðlileg mótnæli gengu í hendur ofbeldismanna sem töldu sig í skjóli góðs málsstaðar ekki þurfa að lúta neinum lögum og lögregla og þingverðir urðu óvinur númer eitt.
Þá horfðu ótrúlega margir af þeim sem nú þurfa að þola andbyrinn á í velþóknun. Mótmælum svona framgöngu öll sem eitt og lærum af því hvernig stutthugsandi fólk hunsaði viðvaranir þeirra sem töluðu um stigmögnun síðast þegar óhlýðnir borgarar hófu byltinguna með einu litlu eggjakasti.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:02 7 comments