laugardagur, 1. október 2011

Eru mótmælin við þinghúsið misskilningur?

Þjóðin mætti og mótmælti við setningu þingsins í dag. Þinghúsið og fólkið sem þar situr í umboði kjósenda eru kannski rökrétt skotmark í hugum margra. Ég sé á þessu ýmsar hliðar. Í alvöru systemi væri alþingi ekki ábyrgt fyrir gerðum ríkisstjórnar. Á Íslandi er alþingi ríkisstjórnin og ríkisstjórnin alþingi.

Það er viðurkennd staðreynd að ráðherrar ráða öllu í stjórnkerfinu. Þingið situr og stendur eins og hæstvirtum ráðherra þóknast. Hlutur almennra stjórnarþingmanna er að standa og klappa þegar ráðherrar og embættismenn ráðuneyta hafa smíðað frumvörp. Svona hefur þetta verið lengi og verður áfram ef við lögum ekki til.

Við þekkjum þingið ekki eins og löggjafarsamkomu heldur miklu frekar eins og kjaftaklúbb utan um ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið. Það eru engar raunverulegar ákvarðanir teknar af alþingismönnum öðrum en þeim sem fá að vera ráðherrar. Það fólk situr báðu megin borðs. Setur lög og vinnur eftir þeim. Stundum kemur þetta svo í öfugri röð...

Við viljum frekar eyða tíma okkar í þras um það af hverju kerfið okkar virkar ekki en að tala um að breyta því. Af hverju mætir ekki þetta góða fólk og andæfir þegar ríkisstjórnin fundar? Af hverju sér fólk ekki mun á þessum stofnunum sem þó eiga að vera aðskildar?

Ég fullyrði að ef hér væri ríkisstjórn sem stæði sig vel og allt væri með felldu dytti fáum í hug að mótmæla jafnvel glórulausum ákvörðunum þings. Vissulega bera þingmenn ábyrgð en þeir EIGA ekki að þurfa að bera ábyrgð á forheimskum stjórnvöldum. Þingmenn eiga að vera löggjafar og aðskildir frá framkvæmdavaldi. Vera aðhaldið með framkvæmdavaldinu.

Mörgum finnst þetta léttvægt og ekki skipta máli í okkar litla samfélagi. Það kalla ég að nota rökin með þrískiptingunni sem mótrök. Vegna smæðar samfélagsins er mikilvægt að tryggja þennan aðskilnað. Það er nýtt fyrir mér ef smæð samfélaga dregur úr líkum á hagsmunárekstrum.

Á Íslandi er það óþekkt að mestu að stjórnvöld þurfi að taka tillit til löggjafans, þingsins, sem þó er kosið til þess að setja lög fyrir samfélagið okkar og þar með talin stjórnvöld á hverjum tíma. Við lesum um slíkt annarsstaðar en eins og oft áður og fyrr teljum það ekki henta okkar Íslensku aðstæðum.

Á alþingi situr fullt af góðu og vönduðu fólki sem vill vel en ræður í raun ekki miklu um nokkurn skapaðan hlut. það fólk fær að sitja í úthlutunarnefnd listamannalauna og fær svo leyfi til að fabúlera um mannanafnanefnd og önnur stórmál.

Á Íslandi ráða ráðherrar öllu og mér finnst að ef við viljum mótmæla stjórnarfari væri nær að safnast saman fyrir framan stjórnaráðið. Þar situr raunverulegt löggjafarvald til borðs með framkvæmdavaldinu og gerir það sem því sýnist án þess að þurfa að spyrja þingið.

Á meðan við ekki styrkjum stórlega þrískiptingu valdsins er borin von að þingið muni geta gert það sem mótmælendur dagsins í dag vonast til af því.

Röggi

Engin ummæli: