miðvikudagur, 30. nóvember 2011

DV nauðgar fjölmiðli

Öllum getur orðið á. Gert mistök sem ekki þarf endilega að rekja til mannvonsku eða vilja til að meiða. Af einhverjum ástæðum eiga fjölmiðlar og fjölmiðlamenn erfitt með að játa mistök. Það er mannlegt og jafnvel eðlilegt að reyna að komast hjá slíkum óþægindum.

DV gerir auðvitað mistök annað veifið enda er blaðið skrifað af fólki og við erum öll manneskjur og gerum mistök. Slíkt er að sjálfsögðu hægt að fyrirgefa. En þá þarf að biðjast afsökunar.

Við þurfum ekki að vera sérmenntuð í fjölmiðlafræði til að sjá að svona vinnubrögð DV eru fyrir neðan allar hellur og eru auðvitað ömurleg mistök. Fall í fjölmiðlafræði 101 og tilraun til að sverta fólk sem hefur í engu unnið til þess.

Hef samt á tilfinningunni að eitthvað verði snúið fyrir blaðið að finna hvöt til að biðjast afsökunar þó að í þessu tilfelli sjái auðvitað allir menn að um ótrúlegan fantaskap er að ræða.

Það þarf heilmikinn orðhengilshátt og óskammfeilni í bland við útúrsnúningaáráttu til að biðjast hreinlega ekki bara afsökunar.

Við sjáum til.....

Jón Bjarnason er leiðtoginn

Jón Bjarnason er magnaður maður. Hann hefur stýrt skóla og nú stýrir hann stórum og mikilvægum ráðuneytum og enginn veit beinlínis af hverju. Tilsvör mannsins þegar hann er undir smá ágjöf gefa annað tveggja eindregið til kynna.

Annað hvort er hann óhemjuskemmtilegur maður og fyndinn eða algerlega óhæfur til þeirra starfa sem hann hefur tekið að sér. Hvergi í heiminum kæmist ráðherra upp með að svara algerlega út í hött þegar hann er spurður nema menn reikni hreinlega ekki með svari. Sé það þannig segir það meira en mörg orð.....

Hitt er svo aftur morgunljóst að Jón Bjarnason er auðvitað glæstur fulltrúi skoðana VG þó hann eigi ekkert erindi með þær inni í þeirri ríkisstjórn, og reyndar engri ríkisstjórn, sem nú rær í allt aðra átt en VG.

Jón Bjarnason hefur því ekki gert annað en að fylgja sannfæringu sinni og stefnumálum VG af einurð og festu. Það er formaður VG og þeir sem fengið hafa ráðherrastóla og sporslur aðrar sem hafa villst af leið sælir af setunni við kjötkatlana.

Jón Bjarnason er í mínum helsti leiðtogi hugmyndafræði VG og baráttumaður. Steingrím hefur aftur á móti borið af leið og hefur við illan leik tekist að forða klofningi hinum seinni. Sá mun vera óhjákvæmilegur með öllu hvort sem það verður fyrr eða seinna.

Þá munu Jón Bjarnason og fylgismenn hans hugmynda losna við Steingrím sem hefur fengið ráðherraveiki sem birtist þannig að hann man ekki lengur fyrir hvað hann stendur, eða stóð öllu heldur. Það eina sem skiptir hann máli er að vera ráðherra.

Þegar þetta gerist fer fylgi VG fara niður í það sem það á auðvitað að vera......

Röggi

mánudagur, 28. nóvember 2011

Einangrunarþrá og fjárfestingaróttinn

Það er kannski ekki að furða að ástandið hjá okkur sé skrýtið. Við erum rétt að reyna að ná áttum eftir hrunið og landinu stýrir einhversskonar ríkisstjórnarlíki. Því er haldið að okkur að allt sem heitir frelsi, einka og markaðsbúskapur sé vont en ríkiseign og ríkisrekstur sé góður.

Gamlir ráðstjórnarríkiskommar ráða för og eins og stundum áður er þar hver höndin upp á móti annarri. Slíkir hafa ekki bara óbeit á atvinnulífi öðru en ríkisreknu heldur eru einnig haldnir krónískri einagrunarþrá sem birtist helst í hræðslu við allt sem er útlenskt.

Í gær sá ég þannig mann tala í silfri Egils. Arkitektinn Jón Þórisson hélt því fram að iðnaður hvort sem hann heitir stór eða ferða skilaði þjóðinni litlu ef nokkru þegar upp er staðið. Þetta hafði maðurinn eftir Indriða H og virtist sannfærður.

Sjaldan hefur Agli Helgasyni tekist að draga annan eins niðurrifsmann í salinn til sín. En menn sem tala svona virðast eiga greiðan aðgang að umræðunni og kannski verður það á endanum þannig að við bönnum eiginlega allt sem kemur frá útlöndum.

Sér í lagi ef það heitir fjárfesting. Útlendingar með þannig hugmyndir eru dæmdir á Íslandi. Þeir eru hættulegt fólk vegna þess að þeir vilja fjárfesta og hagnast í leiðinni. Hrunið kom óorði á fjárfestingarbransann vissulega og þeir sem aðhyllast ríkisvæðingu hlutanna eru að gernýta sér ástandið.

Ef VG réði yrðum við norður Kórea. Einangruð og hrædd við allt sem er útlenskt. Myndum hokra hér í öruggu skjóli ríkissins að selja hvort öðru rækilega niðurgreitt lambakjet óhult fyrir erlendu fjármagni og fjárfestingum vondra manna sem vilja hagnast. Í ríki VG græðir enginn nema ríkið.

Eina fjármagnið sem má koma hingað er erlent lánsfé til að fjármagna rekstur alríkissins þegar ekki er lengur hægt að kreista meira úr vösum þjóðar sem á ekki möguleika.

Við viljum vera ein í heiminum. Öldungis alein og áháð og ekki í þeirri bráðahættu að hingað horfi menn sem sjá möguleika á að byggja upp atvinnulíf og hagnast í leiðinni. Við skulum banna slíku fólki að koma hingað.

Við skulum bara vera undir forsjá stjórnmálamanna eins og þeirra sem ráða ríkjum núna. Þeir passa upp á enginn missi sig í góðar tekjur og vernda okkur fyrir velsældinni.

Þeir sem mest mega sín í umræðunni er fólk sem trúir því að stjórnmálamenn/ríkið muni með galdraaðferðinni koma og redda okkur. Allt sem þurfi sé bara góður vilji og engin stjórnarandstaða.

Stjórnmálamenn munu ekki bjarga hlutunum með því að taka okkur hlýlega öll undir sinn verndarvæng. En þeir geta svo sannarlega komið í veg fyrir að þjóðin geti verið sjálfbjarga.

Að því vinna gömlu kommarnir daglega í umboði búsáhaldabyltingar sem hefur fyrir löngu étið öll börnin sín.

Röggi

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Samfylking er hækja VG

Það var vissulega fyrirséð að ekki yrði auðvelt að halda úti ríkisstjórn eftir hrunið. Ég spáði því að hér yrði kosið tvisvar til þrisvar næstu árin. Þá tók ég mið af heimssögunni og fræðum tengdum stjórnmálum.

Sumir segja að ekkert sé nýtt undir sólinni en þegar kemur að ríkisstjórn VG og Samfylkingar kemur í ljós að þau sannindi ná ekki til Íslands.

Ég veit að í samstarfi flokka gengur oft mikið á þótt oftast takist að halda andliti út á við. Flokkar geta verið ólíkir um svo margt þó þeim takist í bjarmanum af ráðherrastólum að lemja saman samstarfsamningi.

En það sem VG og Samfylking bjóða upp á er nýlunda. Látum vera þó kúrsinn sem tekinn í björgunarleiðangrinum sé í átt að eyðileggingu. Stjórnmálamenn mega vera grjótvitlausir enda starfa þeir í umboði þeirra sem þá kusu og trúðu á boðskapinn.

En að bjóða upp á þann farsa sem blasir við okkur nær daglega er hreinlega móðgun við alla skynsemi. Flokkarnir tveir hafa bókstaflega hvergi sameiginlega nálgun eða snertifleti. Samfylking reynir án afláts að sverja allt af sér sem flokkurinn á sömu stundu skrifar upp á við ríkisstjórnarborðið og svo þumbast fulltrúar flokksins mismikið undir nafni í kyngimögnuðu baktali í allra eyru.

Það er leitun að Samfylkingarmanni sem getur lagt þingflokki VG til gott orð. Frá upphafi hefur verið ljóst öllum sem vilja sjá að VG hefur haft hreðjatak á Samfylkingu. Slíkur er kostnaður Samfylkingar við ESB umsóknina. VG hefur leikið lausum hala og farið um efnahagslíf okkar með boðum og bönnum og skattaæði.

Sumir segja að mesta afrek Jóhönnu sé að hafa ekki misst flokkinn upp í allsherjar uppreisn gegn þessu leikhúsi fáránleikans sem samstarfið við VG er og hefur verið frá fyrsta degi. Kannski er heilmikið til í því.

Núna loksins virðist sem þolinmæðin sé endanlega á þrotum. Ég held að það mál sé í raun og vera þannig að Samfylkingin er að sjá að Steingrímur J Sigfússon, Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson og Indriði H séu í raun og vera með liðónýtar lífsskoðanir í pólitík og efnahagsmálum.....

...og ekki sé lengur verjandi að leggja heilann stjórnmálaflokk undir með þeim kostnaði sem klárlega mun verða umtalsverður í kjörklefanum.

En, Samfylkingin hefur áður farið á límingum vegna ekki bara framkomu ráðherra VG heldur þeirra grundvallarprinsippa sem sá flokkur vinnur eftir og kokgleypt allt.

Hversu lengi og hversu mikið er hægt að standa í slíku? Er öllu til fórnandi?

Það er á ábyrgð Samfylkingarinnar að halda ríkisstjórn VG lifandi. Samfylkingin er ekkert annað en hækja VG og lætur hvað sem er yfir sig ganga.

Það mun verða kostnaðarsamt og getur ekki haft góð áhrif á stóra málið sem Samfylking vill koma á koppinn.....

Röggi

föstudagur, 25. nóvember 2011

Leikskólakennarar og jafnaðarstefnan

Ég viðurkenni að hafa ekki sett mig inn í kjarasamning leikskólakennara. Ég get líka sagt að ég hef mikla samúð með kjarabaráttu þeirra. Ég hef enda eins og við öll meira og minna myndi ég halda nýtt mér þjónustu þess hóps og skil mikilvægi starfa þeirra þó ég skilji alls ekki af hverju menn fá hærri laun fyrir að svara í síma ráðhúsinu en að vera með börnunum okkar.

Núna eru leikskólakennarar sturlaðir vegna þess að meirihlutinn í Reykjavík komst að því á fundi sínum að þessi hópur hefði gert kjarasamning með hækkunum sem eðlilegt væri að taka þá skipulega til baka. Einmitt vegna þess að leikskólakennarar fengu hækkun!

Þessi samningur er ekki mjög gamall og mig minnir að hann hafi klárast undir gríðarþungum almennum stuðningi við þessa starfstétt. Sá viðtæki stuðningur fullyrði ég að hafi ekki verið háður þeim skilyrðum að hækkanirnar sem um var samið skyldi taka til baka ef hægt væri að finna einhvern annan hóp starfsmanna borgarinnar sem fékk minna.

Leikskólakennarar voru og eru með hlægileg laun í einhverju mikilvægasta djobbi sem hægt er að hugsa sér. Ég ætla ekki að kenna núverandi meirihluta í borginni um þá stöðu en ég bara get með engu móti skilið málflutning Dags B Eggertssonar í útvarpi í gær.

Kannski var ég eitthvað að misskilja manninn en mér fannst hann segja að leikskólakennarar hefðu mátt sjá þetta fyrir. Þeir hefðu fengið meira en aðrir og því þurfi þeir að skila í áföngum til baka.

Er nema von að sumir tryllist. Eigum við ekki öll að tryllast til stuðnings málsstað lekskólakennara?

Jafnaðarstefnan tekur á sig furðumyndir stundum þegar Dagur B Eggertsson talar.

Röggi

fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Af hófsemi skattlagninga

"Við jafnaðarmenn viljum ganga fram af hófsemi fram í skattlagningu"

Svo mælir Magnús Orri Schram sem virðist bara alls ekki ætla að átta sig á því að hann og hans flokkur er í núverandi ríkisstjórn. Þingmaðurinn skrifar hverja greinina á fætur annarri til þess að lýsa því yfir að hann sé eindreginn talsmaður þess að gera allt annað í efnahagsmálum en hann er að gera.

Nema ég sé að misskilja. Auðvitað getur vel verið að Magnúsi Orra þyki núverandi ríkisstjórn vera hófsöm í skattlagningu.

Hvernig læt ég?

Röggi

Að afloknu formannskjöri

Þá vitum við það. Bjarni Ben er og verður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um fyrirsjáanlega framtíð komi ekkert óvænt upp á. Mér sýnist á umræðunni að landsfundurinn hafi verið andstæðingum flokksins talsverð vonbrigði.

Barátta formannsframbjóðendanna var til fyrirmyndar og þau létu ekki draga sig út í neitt forað sem hlýtur þó að vera einhver freisting í hita leiksins. Í stað þess að tala um snögga bletti hvors annars var talinu beint að eigin kostum á málefnalegum forsendum.

Mér fannst Hanna Birna og hennar fólk veðja á rangan hest. Kannski er ekki sanngjarnt að orða þetta þannig því í raun var Hanna Birna samkvæm sjálfri sér en ég held að fylgi við sjónarmið hennar hafi hún og ýmsir aðrir ofmetið.

Og svo hitt að Bjarni hefur verið að styrkjast hvað sem hver segir. Sumir tala reyndar eins og hann hafi verið formaður um alla tíð en ekki í 30 mánuði. Krafan um 50% fylgi í skoðanakönnunum og yfirburði er ekki sanngjörn gagnvart Bjarna sem fékk laskaðann flokk til að leiða og erfið úrlausnarefni.

Menn finna Bjarna eitt og annað til foráttu. Hann þykir stundum vingull og of kurteis og alls ekki nógu herskár. Sumt af þessu getur reyndar verið styrkur og hefur reynst styrkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að horfast dálítið í augu við sjálfan sig í auðmýkt og hófstillt framkoma Bjarna hefur að mínu viti verið til heilla.

Bjarni hefur vissulega reynt að feta einstig í viðleitni sinni til þess að sætta afar ólík sjónarmið innan flokks í stórum málum og kannski verður það vingulslegt að sjá. Allt hefur sinn tíma og Bjarni hefur oftar en ekki reynst hafa ágætt pólitískt tímaskyn.

Ég held að síðar munu menn sjá að það er ekki vandalaust að sigla Sjálfstæðisfleyinu í gegnum þann stórsjó sem flokkurinn hefur siglt frá því allt hrundi yfir okkur. Þar er ekki sanngjarnt að horfa framhjá hlut formannsins.

Það sem helst háir Bjarna er fortíð hans í viðskiptum auk þess sem ýmsir vilja telja það honum til vansa hverra manna hann er. Slúður andstæðinga hans um viðskiptafortíð hans lifir býsna góðu lífi án þess að á eitthvað sérstakt saknæmt sé bent. Gróa er látin um að halda uppi efanum.

Hann sætir ekki ákæru og er ekki til rannsóknar eftir því sem ég best veit og þá sjaldan hann hefur verið spurður hefur ekki verið nein vigt í þeim spurningum og svörin óhrakin. En við erum ekki óvön því að fjölmiðlar beiti sér í þágu óljósra hagsmuna bæði í viðskiptalegum og pólitískum tilgangi.

Ég heyri því haldið fram að flokkurinn hafi heldur betur leikið af sér með því að kjósa Bjarna Ben. Hanna Birna hefði örugglega fiskað betur í næstu kosningum. Um það veit auðvitað enginn en það eru sjónarmið sem ekki réðu afstöðu þeirra sem völdu formann og það finnst mér heilbrigt.

Ég held að Bjarni hafi hlotið brautargengi vegna eigin mannskosta og framgöngu í knappri stöðu en ekki vegna þess að Hanna Birna hafi ekki verið góður kostur. Tal um að 55% fylgi á þessum tímapunkti gegn þessum öfluga mótframbjóðanda sé slakt er út í hött.

Bjarni Ben hefur í dag sterkasta umboð þeirra sem leiða flokkana og mun vaxa að styrk bæði persónulega og pólitískt í kjölfarið. Enda mun ekki af veita því þótt það verði vissulega ánægjulegt fyrir okkur öll að snúa af þeirri vinstri stefnu sem allt ætlar niður að drepa verður það ekkert íhlaupaverk.

Ég treysti mínum manni í það verk.

Röggi

Af hverju fær Jóhannes ekki að dæma?

Jóhannes Valgeirssson knattspyrnudómari eða ætti ég kannski að segja fyrrverandi knattspyrnudómari veit ekki af hverju hann er ekki lengur dómari. Hann hefur bara alls enga hugmynd um það. Og fjölmiðlar halda áfram að birta sífellt dramatískari og lengri greinar hans um þetta grunleysi.

Ég er auðvitað í sömu stöðu og Jóhannes og veit ekki neitt um málið en hef reynt að lesa á milli lína en það er hæfileiki sem Jóhannes býr ekki að. Hvernig stendur á því að KSÍ ætlar ekki að nýta krafta þessa reynda dómara lengur?

Ætli það sé vegna þess að dómaranefnd KSÍ hefur sértækan áhuga á því að halda frá þeim sem hafa bæði reynslu og hæfileika til þess að dæma? Hvernig gæti hagsmunum KSÍ í dómaramálum verið þjónað þannig? Dómarinn sjálfur kemur algerlega af fjöllum.

Ég hef lært það að fátt gerist út af engu. Sök Jóhannesar í málinu sýnist mér hafa minnkað í hans eigin augum í réttu hlutfalli við birtar greinar og viðtöl vegna málsins.

Jóhannes virðist ætla að gernýta sér þá stöðu að dómaranefnd KSÍ vinnur eftir þeim prinsippum að ræða ekki faglegar ákvarðanir sínar opinberlega. Eins og ég skil það mál er það ekki síst hugsað til þess að vernda dómarana sjálfa og er bæði skynsamlegt almennt talað og alþekkt vinnubrögð.

Auðvitað veit Jóhannes Valgeirssson upp á hár hvers vegna þessi staða er komin upp. Og hann nýtir sér þögnina frá KSÍ til að vega að trúverðugleika dómaranefndarinnar og afla sér samúðar.

Kannski er best fyrir dómaranefnd KSÍ að gera undantekningu og upplýsa okkur um ástæður þess að Jóhannes er úti í kuldanum. Ég veit að þá er verið að opna fyrir ótrúleg leiðindi og enn meira neikvætt umtal en þetta mál kallar mögulega á sértæk viðbrögð þar sem dómarinn virðist ekki ætla að hætta fyrr en ástæðan er öllum kunn.

Ef ekkert heyrist frá KSÍ mun rödd Jóhannesar í þessu máli hljóma æ meira sannfærandi í huga margra þó ég láti það ekki flökra að mér að dómaranefnd KSÍ hafi ákveðið það í bríaríi einn góðan veðurdag að hætta að nota Jóhannes, bara sísvona.......

Einfaldlega vegna þess að engin skynsamleg rök geta hnígið í þá átt önnur en að eitthvað hafi komið upp á. Og úr því Jóhannes hrópar á að það sé upplýst er kannski best að láta það eftir honum.

Röggi

mánudagur, 21. nóvember 2011

Björn Valur mælir styrk

Það er nokkrar leiðir til að túlka sigur Bjarna Ben í formannskjörinu um helgina. Andstæðingar flokksins reyna auðvitað að telja sér trú um að það að leggja afar sterkan frambjóðanda í lýðræðislegri kosningu sé ósigur.

Gott dæmi um mann sem hefur laskaða pólitíska sýn á þetta er Björn Valur Gíslason sem telur væntanlega að Steingrímur Sigfússon sé gríðarsterkur á formannsstóli VG vegna þess að enginn alvöru frambjóðandi bauð sig fram gegn honum þrátt fyrir að flokkurinn sé í raun í tætlum og viti ekkert hver hann er, hvaðan hann er að koma né hvert hann er að fara margklofinn og á þó enn inni að minnsta kosti eitt tilbrigði við klofning enn!

Það finnst Birni blessuðum merki um styrk og stefnufestu. Þegar öll hjörðin situr og stendur eins og formaðurinn vill þrátt fyrir að allt skíðlogi stafna á milli. Þannig höfum við reyndar vanist því að flokkarnir "skipuleggi" fundina og því er Birni er vorkun að vissu leyti.

Styrktarmælistika þingmannsins tekur ekki kipp fyrr en augljóst er að sitjandi formaður hefur drepið svo niður alla andstöðu við sína eigin ríkjandi skoðun að óhætt er að blása til fundar. Þá mæti Björn Valur og allir hinir sem eru ekki sammála um neitt og klappa þegar á að klappa.

Og svo mætir aðalritarinn og segir fjölmiðlum að allt sé í fína af því að allir klöppuðu í takti. Nei, það eru nú ekki vandræðin á slíkum bæjum. Alveg eins og í Sovét í den....

Þannig framgangsmáta sér þingmaðurinn strax sem sigur en veikleika flokka sem bjóða upp á kosningar milli tveggja öflugra aðila. Að ég tali nú ekki um fund þar sem fólk tekst á um hluti sem allir vita að ágreiningur er um.

Björn Valur klikkar bara helst ekki.

Röggi

laugardagur, 19. nóvember 2011

Litla Kína á fjöllum

Páll Vilhjálmsson er einn magnaðasti bloggari sem við eigum. Gagnorður og kann að hreyfa við fólki og getur ýtt umræðunni áfram án þess að meiða en þó grefilli hvass. Ég er oftar sammála honum en ekki en nú hefur Páll skrifað dámikla hræðslugrein um Kinverja af því tilefni að einn slíkur vill kaupa Grímsstaði á fjöllum.

Getur verið að ég sé ekki nógu hræddur við útlendinga? Páll óttast hreinlega að þarna muni rísa lítið útibú frá Kinverska kommúnistaflokknum. Dvergríki sem muni með einhverjum hætti verða sjálfstætt með eigin löggjöf og utanríkisstefnu.

Þetta lítla Kína muni svo breiða úr sér eins og lúpína að vori án mögulegrar viðspyrnu af okkar hálfu. Þarna verði töluð Kínverska og yfirvöld í móðurlandinu muni á endanum sjá um að þarna verði Kínversk löggjöf okkar ofar.

Mér finnst þetta alveg út úr korti. Fyrir mig er þetta Íslenskur afdalahugsunarháttur sem byggir ekki á neinu raunverulegu. Þarna er áunninn ótti við eitthvað sem ekki stenst. Hvað er það í löggjöf okkar sem Páll telur vera þannig að erlendir viðskiptamenn geti allt að því stofnað sjálfstætt ríki á fjöllum án þess að við fáum rönd við reyst?

Ég veit að þetta er planið hjá þeim sem vilja ekki þessi viðskipti. Halda bara uppi svona tali sem er ekki byggt á neinu raunverulegu öðru en óttanum við þá sem stjórna Kínverska alþýðulýðveldinu.

Ögmundur Jónasson hefur setið vikum saman við að reyna að finna útgönguleið og forða okkur frá þessari milljarða fjárfestingu útlendings sem er tilbúinn að ganga að hverjum þeim skilyrðum sem stjórnvöld hér hafa týnt til.

Við skulum vona að á bak við fyrirsjáanlega neitun Ögmundar verði eitthvað bitastæðara en hjá Páli. Þar munu kaffiboðssamsæriskenningar ekki duga...

Röggi

jonas.is og umræðuhefðin

Jónas Kristjánsson er athyglissjúkur maður sem heldur að vægi skoðana hans aukist í réttu hlutfalli við svívirðuna sem hann getur soðið saman. Karlanginn æpir á athygli og fær hana en er nákvæmlega sama á hvaða forsendum sú athygli er.

Þegar rætt er um þennan gamla blaðamann og hans ritstjóraferil er hægur vandi að týna til óhemjusorgleg tilfelli þar sem skrif hans og stílbragð hafa haft alvarlegar afleiðingar en það hefur ef eitthvað er forhert kallinn.

Efnistökin eru þráhyggjukennd þegar kemur að stjórnmálum og ekki verður betur séð en að maðurinn telji sig verða að toppa sjálfan sig í ruddaskap í hvert sinn sem hann sest niður.

Og alltaf skulu þeir fjölmiðlamenn vera til sem sjá tilgang í því að dreifa mykjunni. Það er í raun magnað og segir manni hvað pólitík getur ruglað jafnvel bestu menn í ríminu. Stundum meira að segja menn sem á fínum stundum segjast hafa óbeit á því hvernig pólitísk umræðuhefð okkar er þróast.

Sorglegt.

Röggi

mánudagur, 14. nóvember 2011

Falskar minningar

Ég veit ekkert hvað falskar minningar eru. Hélt í barnaskap mínum að minningar væru bara minningar en er að læra það að við getum komið okkur upp minningum sem eru alls ekki minningar heldur eitthvað allt annað.

Mál Guðrúnar Ebbu hefur tekið á sig ýmsar myndir og allt í einu kemur í ljós álit minnihlutahóps sérfræðinga sem þykjast sjá öll merki þess að Guðrún Ebba hafi eytt stórum hluta ævinnar í að eltast við falskar minningar. Alveg er það ömurlegt ef satt reynist og ég skil ekkert í því af hverju sá möguleiki var ekki kannaður fyrr.

Ekki kann ég að nefna öll hugtökin sem til eru í svona málum. Ég veit heldur ekki hvort nokkurn tíma er hægt að segja að full sönnun til eða frá sé möguleg án játninga. Þar liggur vandinn og fólk skiptist í tvo hópa.

Í aðalatriðum eru hóparnir tveir. Annar hópurinn virðist aldrei trúa neinu en hinn að jafnaði alltaf öllu.

Ég sá bróðir Guðrúnar Ebbu í Kastljósi um daginn. Afar viðkunnanlegur maður um allt. Talaði rólega og af öryggi og var sanngjarn og lagði gott orð í báðar áttir. Hann tilheyrir fjölskyldunni sem hafnaði stúlkunni sem bar glæpinn upp á föðurinn.

Bróðir Guðrúnar Ebbu ríghélt í kenninguna um falskar minningar sem er kannski vonlegt. Og ég hugsaði; Geta falskar minningar ekki herjað á hann eins og hana?

Ætli það sé alveg óþekkt að heilu fjölskyldurnar deyfi sársauka með afneitun og komi sér upp björtum og ljósum minningum? Er bara hægt að nota þetta hugtak í aðra áttina. Af hverju finnst mér rökrétt að nota falskar minningar til þess að deyfa sársauka fremur en að búa hann til?

Ég vona að í framtíðinni verði hægt með vísindalega fræðilegum hætti að komast eitthvað nær sannleikanum í svona málum en nú er.

Enda ferlegt að geta ekki treyst minningum sínum. Hvorki þeim góðu né slæmu...

Röggi

sunnudagur, 13. nóvember 2011

Lágkúra

Ein leið og örugg til að öðlast 15 mínútna frægð er að skrifa bara nógu stórt og mikið um þá sem ritstjórn eyjunnar telur vera pólitíska andstæðinga sína. Björn Valur Gíslason er frægur fyrir margt blessaður og kjaftháttinn hefur hann í umframmagni.

Þegar hann vill annað hvort ná athygli eða þá dreifa henni frá hlutum sem ekki henta honum að fjallað sé um skrifar hann bara eitthvað vont um einhvern Sjálfstæðismann og ritstjórn eyjunnar hleypur til og gerir að frétt.

Hvað er þá vinsælla en gamli Davíð Oddsson? Þetta er gömul brella sem ég hélt reyndar að Jón Ásgeir hefði fullnýtt en lengi er von á einum.

Ég á auðvitað ekkert með það að velta því fyrir mér hvað Björn Valur dundar sér við þegar hann hefur ekkert gáfulegt að segja en finnst magnað hvað eyjan nennir að leggjast lágt á sama tíma og ritstjóri hennar hikar ekki við að vanda um fyrir öðrum.

Röggi

þriðjudagur, 8. nóvember 2011

Helgi Hjörvar og rökræðan

Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar sem helst hefur unnið sér það til frægðar að senda Geir Haarde til landsdóms þrasaði við Bjarna Ben um efnahagsmál í þinginu í dag. Helgi er afsprengi morfísrökræðulistarinnar og getur verið skratti skemmtilegur þegar sá gállinn er á honum.

Helgi barmar sér undan tillögum Sjálfstæðisflokksins í skattamálum að mér virðist á þeim forsendum helstum að sá flokkur hafi verið í ríkisstjórn þegar allt hrundi. Helgi Hjörvar man auðvitað alls ekki að hann var sjálfur hluti af þeirri ríkisstjórn. Það er að verða plagsiður Samfylkingar að reyna að skjótast undan því að vera í þeim ríkisstjórnum sem flokkurinn er þó sannarlega í.

Gagnrýni Helga á tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir er ekki útbúin neinum rökum heldur miklu frekar gömlum tuggum um að eina leiðin út úr kröggunum sé að skattleggja allt upp í topp. Helgi hirðir að öðru leyti ekki um að svara því hvers vegna skattalækkanir myndu koma heimilum og atvinnulífi illa nú þegar allt efnahagslíf þjóðarinnar er að beinfrjósa.

Skattahækkanir og stórmagnað hugmyndaflug við smíði nýrra skatta auk vaxtahækkana Más Guðmundssonar klæðskerasaumaðs seðlabankstjóra Jóhönnu Sigurðardóttur er einungis að skemmta AGS og ríkisstjórn sem keppast svo við að gefa hvort öðru toppeinkunn fyrir allt saman. Magnað skjallbandalag þar á ferð og helstu klappstýrur eru kröfuhafar og vogunarsjóðir.

Ég reyni ekki að þræta fyrir það að okkur hefur miðað áfram frá hruni en held því fram að það sé ekki vegna ríkisstjórnarinnar hans Helga Hjörvars heldur þrátt fyrir hana.

Ekki er mikið gefandi fyrir rökræður um tillögur í efnhags og skattamálum sem snúast einungis um það hvaðan þær koma en í engu um það sem þær geta falið í sér. Ef Helgi Hjörvar og hans fólk réði yrðu skattar aldrei lækkaðir alveg óháð því hvort tekjur ríkissins af skattheimtunni minnki í réttu hlutfalli við aukna ásókn í launin okkar eða stöðu þjóðarbúsins í stóru eða smáu.

Helgi Hjörvar trúi því nefnilega að besta leiðin til að örva atvinnulíf og einkaneyslu sé að Steingrímur fá launin okkar að stærstum hluta til úthlutunar að smekk áður en okkur tekst að nota þau til þess að örva hagvöxt í gegnum neyslu með tilheyrandi auknum skatttekjum.

Svona er heimsmynd Helga Hjörvars þegar kemur að skattamálum. Þegar ríkið þarf aura skal það ekki gert þannig að fólki sé hvatt til neyslu sem skilar bæði fjörugu atvinnulífi með aukinni skattinnheimtu heldur einungis með auknum sköttum á fólk og fyrirtæki sem hafa síminnkandi kaupmátt hafi það á annað borð vinnu. Engir hagsmunaaðilar á vinnumarkaði deila þessari delluhagfræði með ríkisstjórninni en slíkt hreyfir nú ekki við Helga Hjörvar.

En þetta rímar svo allt í dúr rog moll við hugmyndir gömlu allaballana um að best sé fyrir okkur öllum komið í vinnu hjá hinu opinbera þar sem stjórnmálamenn eins og Helgi sjálfur getur séð um að taka fyrir okkur ákvarðanir.

Ég hef samúð með þeim sem tala um mistök Sjálfstæðisflokksins í skattamálum í góðærinu en skil ekki að þeir sem tala mest um það geti ekki séð að skattahækkanir í niðursveiflu eru líka mistök.

Af hverju hefur Helgi Hjörvar ekki þrek til að rökræða þessi mál?

Röggi

Auðvitað er ókostur að vera ekki á þingi....

...sérstu formaður Sjálfstæðisflokksins en hvort það er frágangssök á þessum tímapunkti er svo allt annað mál.

Formannssalagurinn í Sjálfstæðisflokknum er að taka á sig mynd þessa dagana. Ekki er hægt í fljótu bragði að setja stórágreining málefnalegan milli frambjóðandanna á oddinn og því er slegist um aðra hluti.

Hvernig er hægt að vera ósammála um að það sé lakara að formaður flokksins sitji ekki á þingi? Og það jafnvel þingi sem mörgum finnst vart á vetur setjandi.

Allar ákvarðanir eru teknar á alþingi og þar fer umræðan fram. Þar sitja saman í einni sæng framkvæmdavald og löggjafi og takast á. Hvernig getur verið gott fyrir formann stjórnmálaflokks að hafa þar ekki seturétt?

Hanna Birna hefur svo marga kosti að mér finnst það taktískt rangt hjá hennar fólki að láta umræðuna snúast um þennan veikleika hennar með því að reyna að hártoga gildi þess að leiðtogar flokka sitji á þingi.

Slíkt tal beinir umræðunni bara enn sterkar að þessu sem er svo kannski þrátt fyrir allt alls ekkert aðalatriði þegar til lengri tíma er ltið.

En ég efast þó ekki um að Hanna Birna mun leggja ofurkapp á að komast á þing fái hún brautargengi á landsfundi.

Enda veit hún að mjög er mikilvægt að formaður Sjálfstæðisflokksins sitji á þingi.....

Röggi