fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Af hverju fær Jóhannes ekki að dæma?

Jóhannes Valgeirssson knattspyrnudómari eða ætti ég kannski að segja fyrrverandi knattspyrnudómari veit ekki af hverju hann er ekki lengur dómari. Hann hefur bara alls enga hugmynd um það. Og fjölmiðlar halda áfram að birta sífellt dramatískari og lengri greinar hans um þetta grunleysi.

Ég er auðvitað í sömu stöðu og Jóhannes og veit ekki neitt um málið en hef reynt að lesa á milli lína en það er hæfileiki sem Jóhannes býr ekki að. Hvernig stendur á því að KSÍ ætlar ekki að nýta krafta þessa reynda dómara lengur?

Ætli það sé vegna þess að dómaranefnd KSÍ hefur sértækan áhuga á því að halda frá þeim sem hafa bæði reynslu og hæfileika til þess að dæma? Hvernig gæti hagsmunum KSÍ í dómaramálum verið þjónað þannig? Dómarinn sjálfur kemur algerlega af fjöllum.

Ég hef lært það að fátt gerist út af engu. Sök Jóhannesar í málinu sýnist mér hafa minnkað í hans eigin augum í réttu hlutfalli við birtar greinar og viðtöl vegna málsins.

Jóhannes virðist ætla að gernýta sér þá stöðu að dómaranefnd KSÍ vinnur eftir þeim prinsippum að ræða ekki faglegar ákvarðanir sínar opinberlega. Eins og ég skil það mál er það ekki síst hugsað til þess að vernda dómarana sjálfa og er bæði skynsamlegt almennt talað og alþekkt vinnubrögð.

Auðvitað veit Jóhannes Valgeirssson upp á hár hvers vegna þessi staða er komin upp. Og hann nýtir sér þögnina frá KSÍ til að vega að trúverðugleika dómaranefndarinnar og afla sér samúðar.

Kannski er best fyrir dómaranefnd KSÍ að gera undantekningu og upplýsa okkur um ástæður þess að Jóhannes er úti í kuldanum. Ég veit að þá er verið að opna fyrir ótrúleg leiðindi og enn meira neikvætt umtal en þetta mál kallar mögulega á sértæk viðbrögð þar sem dómarinn virðist ekki ætla að hætta fyrr en ástæðan er öllum kunn.

Ef ekkert heyrist frá KSÍ mun rödd Jóhannesar í þessu máli hljóma æ meira sannfærandi í huga margra þó ég láti það ekki flökra að mér að dómaranefnd KSÍ hafi ákveðið það í bríaríi einn góðan veðurdag að hætta að nota Jóhannes, bara sísvona.......

Einfaldlega vegna þess að engin skynsamleg rök geta hnígið í þá átt önnur en að eitthvað hafi komið upp á. Og úr því Jóhannes hrópar á að það sé upplýst er kannski best að láta það eftir honum.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ágæti Röggi!

Ég veit ekki hver þú ert en ætla samt að svara þér svo þú getir hugsað málið örlítið betur áður en þú skrifar aftur um eitthvað sem þú veist ekkert um.

Við fjölskyldan værum einmitt búin að standa í því að senda pósta, hringja í menn og fara í viðtöl upp í höfuðstöðvar KSÍ ef við vissum um hvað málið snérist. Nei, við vitum það ekki! Málið er ekki rætt!

Ef þú hefur svona mikinn áhuga á málinu, af hverju hringir þú ekki í JV í stað þess að setja hugleiðingar þínar og fullyrðingar fram opinberlega. Fullyrðingar sem eru ekki sannar svo því sé haldið til haga.

Mundu að aðilinn sem þú skrifar um á konu, syni, systkini og foreldra. Þetta mál hefur reynst okkur mjög erfitt og ekki bætir úr að lesa svona vanhugsuð skrif.

Með bestu kveðju, Unnur

Röggi sagði...

Ágæta Unnur.

Ég hef hugsað um þetta mál og því skrifa ég um það. Ég hef ekki tengsl við þá sem deila í málinu og nýt þess því að geta horft hlutlaus á úr fjarlægð.

Hugleiðingar mínar er ástæðulaust að taka persónulega eða túlka þær sem dóm yfir einhverjum byggðan á staðreyndum og rannsóknum.

Ég skrifa um það sem finnst áhugavert hverju sinni og er í deiglunni. Mér hefur fundist sem Jóhannes hafi svo sannarlega ekki farið með veggjum eða kosið að hafa umræðu um þessa stöðu í þagnargildi.

Ég dreg sem sagt mínar ályktanir eins og aðrir sem um málið hafa lesið. Mér finnst ég ekki skulda afsökunarbeiðni vegna þess og er ekki viss um lesa megi stórar fullyrðingar út grein minni.

Ég ber mikla virðingu fyrir einkalífi fólks og þar undanskil ég ekki knattspyrnudómara hafandi verið dómari í körfuknattleik á hæsta stígi í tæp 20 ár.

En þeir sem hyggjast heyja þá baráttu sem Jóhannes hefur háð opinberlega verða að þola það að fram geti komið skoðanir sem ekki henta málsstaðnum.

Í fullri vinsemd
Röggi