fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Að afloknu formannskjöri

Þá vitum við það. Bjarni Ben er og verður leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um fyrirsjáanlega framtíð komi ekkert óvænt upp á. Mér sýnist á umræðunni að landsfundurinn hafi verið andstæðingum flokksins talsverð vonbrigði.

Barátta formannsframbjóðendanna var til fyrirmyndar og þau létu ekki draga sig út í neitt forað sem hlýtur þó að vera einhver freisting í hita leiksins. Í stað þess að tala um snögga bletti hvors annars var talinu beint að eigin kostum á málefnalegum forsendum.

Mér fannst Hanna Birna og hennar fólk veðja á rangan hest. Kannski er ekki sanngjarnt að orða þetta þannig því í raun var Hanna Birna samkvæm sjálfri sér en ég held að fylgi við sjónarmið hennar hafi hún og ýmsir aðrir ofmetið.

Og svo hitt að Bjarni hefur verið að styrkjast hvað sem hver segir. Sumir tala reyndar eins og hann hafi verið formaður um alla tíð en ekki í 30 mánuði. Krafan um 50% fylgi í skoðanakönnunum og yfirburði er ekki sanngjörn gagnvart Bjarna sem fékk laskaðann flokk til að leiða og erfið úrlausnarefni.

Menn finna Bjarna eitt og annað til foráttu. Hann þykir stundum vingull og of kurteis og alls ekki nógu herskár. Sumt af þessu getur reyndar verið styrkur og hefur reynst styrkur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að horfast dálítið í augu við sjálfan sig í auðmýkt og hófstillt framkoma Bjarna hefur að mínu viti verið til heilla.

Bjarni hefur vissulega reynt að feta einstig í viðleitni sinni til þess að sætta afar ólík sjónarmið innan flokks í stórum málum og kannski verður það vingulslegt að sjá. Allt hefur sinn tíma og Bjarni hefur oftar en ekki reynst hafa ágætt pólitískt tímaskyn.

Ég held að síðar munu menn sjá að það er ekki vandalaust að sigla Sjálfstæðisfleyinu í gegnum þann stórsjó sem flokkurinn hefur siglt frá því allt hrundi yfir okkur. Þar er ekki sanngjarnt að horfa framhjá hlut formannsins.

Það sem helst háir Bjarna er fortíð hans í viðskiptum auk þess sem ýmsir vilja telja það honum til vansa hverra manna hann er. Slúður andstæðinga hans um viðskiptafortíð hans lifir býsna góðu lífi án þess að á eitthvað sérstakt saknæmt sé bent. Gróa er látin um að halda uppi efanum.

Hann sætir ekki ákæru og er ekki til rannsóknar eftir því sem ég best veit og þá sjaldan hann hefur verið spurður hefur ekki verið nein vigt í þeim spurningum og svörin óhrakin. En við erum ekki óvön því að fjölmiðlar beiti sér í þágu óljósra hagsmuna bæði í viðskiptalegum og pólitískum tilgangi.

Ég heyri því haldið fram að flokkurinn hafi heldur betur leikið af sér með því að kjósa Bjarna Ben. Hanna Birna hefði örugglega fiskað betur í næstu kosningum. Um það veit auðvitað enginn en það eru sjónarmið sem ekki réðu afstöðu þeirra sem völdu formann og það finnst mér heilbrigt.

Ég held að Bjarni hafi hlotið brautargengi vegna eigin mannskosta og framgöngu í knappri stöðu en ekki vegna þess að Hanna Birna hafi ekki verið góður kostur. Tal um að 55% fylgi á þessum tímapunkti gegn þessum öfluga mótframbjóðanda sé slakt er út í hött.

Bjarni Ben hefur í dag sterkasta umboð þeirra sem leiða flokkana og mun vaxa að styrk bæði persónulega og pólitískt í kjölfarið. Enda mun ekki af veita því þótt það verði vissulega ánægjulegt fyrir okkur öll að snúa af þeirri vinstri stefnu sem allt ætlar niður að drepa verður það ekkert íhlaupaverk.

Ég treysti mínum manni í það verk.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leiddi í ljós að Bjarni Benediktsson er bara formaður flokksins, ekki leiðtogi. Leiðtogi flokksins heitir Davíð Oddsson.