Í dag kusum við okkur forseta.
Það sem tryggði Ólafi embættið nú öðru fremur var, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, framganga hans í Icesave með 98% þjóðarinnar að baki og sú aðferð hans að nota málskotsréttinn og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Frábært að fylgjast með krampakenndum viðbrögðum andstæðinga Ólafs sem flestir ef ekki allir hafa á "réttum" stundum og þegar "réttur" málsstaður fyrir "rétt" stjórnvöld var í boði einmitt viljað nota þessar aðferðir.
Og skreytt allt saman með lýðræðisástinni. Stundum er fínt að forseti beiti sér gegn löggjafar og framkvæmdavaldi en þá valkvætt....
Hægri menn eru svo ekkert betri þegar að þessu kemur og Ólafur Ragnar spilar á allt klabbið af mikilli íþrótt.
Ég sé engan mun á prinsippafstöðu andstæðinga hans nú eða fyrr. Þar ráða fá önnur sjónarmið en pólitísk. Enda er nánast leitun að alvöru umræðu um embættið heldur miklu frekur sérhönnuð kosningabarátta sem miðar að því einu að koma óhentugum einstaklingi frá Bessastöðum.
Ef bara auglýsingastofan hennar Þóru hefði ekki sagt henni að afneita pólitíkinni í sér og sett hana þar með í viðstöðulausa og vonlausa vörn hefði hugsanlega verið hægt að láta kosningarnar snúast um eitthvað bitastætt.
Hlutverk forseta í stjórnskipaninni skiptir máli en það mál komst ekki á dagskrá af neinu viti. Og þá sjaldan þá var það þannig að frambjóðendur töluðu um það sem þeim finnst endilega að forseti skuli gera óháð því hvað stjórnarskrá gerir ráð fyrir.
Ólafur Ragnar hlýtur að vera snillingur. Hann spilar á þjóðina hægri vinstri og við dönsum dansinn glöð í bragði þegar hantar. Nú háttar þannig til að vinstri mönnum líður ömurlega yfir því að hafa nært kamelljónið og komið því til valda.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta getur allt snúist á einu augabragði eins og maðurinn sagði. Helsta huggun vinstri manna harmi gegn er tilhugsunin um hægri stjórnina sem Ólafur mun þvælast fyrir sé það hentugt þá stundina.
Af hverju halda menn að Ólafur Ragnar sé forseti en ekki einhver annar? Af því að við kjósum hann auðvitað. Af því að við viljum hafa svona forseta, hvað annað?
Og þá þýðir ekkert að fara í fýlu undir falsyfirskyni.
Röggi
sunnudagur, 1. júlí 2012
Við kjósum hann
ritaði Röggi kl 01:35
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli