sunnudagur, 1. júlí 2012

Viðbrögðin

Auðvitað sýnist hverjum sitt þegar rætt er um úrslit kosninganna í gær. Við reynum að lesa út úr stöðunni og niðurstöðurnar eftir smekk. Þar er ég varla betri en aðrir.....


Sumt er áhugaverðara en annað eins og gengur en eitt er eins víst og að morgundagurinn rennur upp að embættið er orðið stórpólitískt og verður það líklega héðan af. Það skrifast þó ekki eingöngu á forsetann.


Viðbrögð andstæðinga Ólafs Ragnars af vinstri kanntinum eru nefnilega eingöngu pólitísk og einkennast af súrri og langlífri heift. Enginn er kampakátur nema Þóra...


Allt er týnt til. Sumir eru að horfa í það að mælingar segja að fylgi Ólafs komi helst frá þjóð sem ekki hafi langskólamenntum að baki og þannig fylgi sé verðminna en hitt.


Hugsanlega þykir mönnum þetta tal léttvægt en ekki mér. Við höfum fram til þessa verið laus við svona hroka og ekki þótt þau lönd smart sem skipta þjóð sinni upp í tvær mismikilvægar fylkingar eftir þessum mælikvarða miðjum. 


Annað er þusið um dræma kjörsókn. Vissulega er dræm kjörsókn verra en góð  og ég veit að skýringar geta verið margar. Ég hef almennt talað haft fyrirvara við það að senda helstu mál og jafnvel fleirri í atkvæði til þjóðarinnar.


Undanfarin ár höfum við haft nokkuð af slíku og áhugi á þeim farið dvínandi í réttu hlutfalli við fjölda þeirra. Er það ekki saga þessara aðferða?


Sumir lögðust í prósentureikninginn í nótt og reiknuðu sig niður á það að nýkjörinn forseti hefði svo og svo lítinn stuðning þjóðarinnar. Þeir hinir sömu ættu kannski að hafa þá skoðun fyrirfram að kosningar séu ekki gildar nema ákveðinn hluti þjóðarinnar mæti.


Ég man nefnilega eftir kosningum nýlegum þar sem "þjóðin" valdi sér fulltrúa til setu í stjórnlagaráði. Kannski ryfjar einhver upp hversu margir tóku þátt í þeim kosningum og setur vægi tillagna þeirra sem þar sitja í þetta sama samhengi. 


Fjölmiðlamenn og aðrir hafa svo reynt að gera það að sérstöku máli að Ólafur Ragnar situr lengur en margir aðrir í embætti. Og hvað? Framdi hann valdarán? Stal hann embættinu frá andstæðingum sínum með aðstoð þjóðar sem kaus hann? Þessi vísindi eru merkingarlaust hjal um ekki neitt.


Og merkilegt hvernig virðing fyrir úrslitum atkvæðagreiðslna hjá þjóðinni er valkvæð hjá sumum. Allt eftir smekk.


Pólitískum smekk eins og svo oft áður


Röggi
2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta með menntunina. Það er alveg eins hægt að segja að Þóra hafi sótt fylgið sitt til opinberra starfsmanna með of mikla og tilgangslausa menntun (miðað við kröfur starfanna), nóg er til af þeim. Þetta er sá kjarni sem enn styður ríkisstjórn Íslands í dag...

spritti sagði...

Stalín sagði: Það skiptir ekki máli hvað kosið er, heldur hvernig talið er uppúr kössunum.