sunnudagur, 12. ágúst 2012

Ríkisstjórn í jafnvægi

Ríkisstjórnarsamstarfið er í fínu jafnvægi og hefur verið frá upphafi. Þetta samstarf minnir á hagkvæmnishjónaband þar sem hjónin hafa fyrir löngu síðan hætt að sofa í sama herbergi eða að hafa nokkur samskipti sem máli skipta í venjulegum hjónaböndum.

En hafa samt undarlegan hag af því að láta samstarfið ganga upp. Nú gerist það einn ganginn enn að burðarásar hjá VG þurfa af innanflokksástæðum að lýsa því yfir að eina mál Samfylkingar, aðildin að ESB, sé í raun ónýtt mál og eina vitið að láta staðar numið.

Viðbrögð Samfylkingar eru ef reynslan hefur kennt mér eitthvað annað hvort þögn eða að gert verður lítið úr málflutningnum og þeim sem hann stunda persónulega og pólitískt. Auk þess mun forsætisráðherra væntanlega úthúða Sjálfstæðisflokknum af þessu tilefni....

Svo verður auðvitað bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist við að smíða tillögur að skattahækkunum og næra óvildina í garð hvors annars í leiðinni. 

Slagurinn við andstæðingana verður léttvægur samanborðið við þann slag sem verður milli flokkanna sem mynda þessa ríkisstjórn þegar límið sem heldur flokkunum saman leysist upp á endanum. 

Hvort sú stund er upp runnin veit auðvitað enginn því þegar þessi stórn á í hlut eru öll eðlileg lögmál um samskipti og samstarf úr gildi fallin fyrir löngu.

Röggi

Engin ummæli: