laugardagur, 25. ágúst 2012

Sjálfseyðing VG heldur áfram

Það meiga þau í VG eiga að þegar þau hittast yfir spjalli að þá er ekki töluð tæpitungan. Flokksráðsfundir eru án efa martröð pr sérfræðinga flokksins.

Kjarninn í flokknum er í andstöðu við meginstefnu ríkisstjórnar og ekki bara kjarninn heldur einstakir ráðherrar eins og alkunna er. Freistandi er að reyna að halda því fram að hér sé um að ræða alltaf á móti heilkennið sem VG hefur byggt tilveru sína að stórum hluta á.

En ég er ekki sannfærður. Þótt formaðurinn ferðist til útlanda til að hreykja sjálfum sér af verkum annarra er það þannig að kjarninn man að formaður og flokkur var og er á móti bjargráðunum sem Steingrímur skreytir sig nú með.

Það er auðvitað strangheiðarlegt að kannast við sjálfan sig og gefast ekki upp á því. En það er bara svo íþyngjandi þegar maður er ráðherra að burðast með slík prinsipp.

Það er varla áhlaupaverk að stýra flokki úr ráðherrastóli þegar flokksmenn hafa upp hugmyndir eins og sumar þeirra sem flokksráðsmeðlimir ganga með og vilja leiða yfir þjóðina.

Að þjóðnýta fjármálastofnanir og reka þær ekki í hagnaðarskyni heldur til þess að tryggja jöfnuð. Að banna einkarekstur í heilbrigðiskerfinu eins og tannlækingar og þess háttar.

Í sem stystu máli að færa allt og alla undir ríkið til ráðstöfunar. Að ríkisvæða allt og banna einka og hagnað. Þetta er ekki brandari úr nýjustu þáttaröð Steinda. Og það er ekki einhver Jói á hjólinu sem er að tala fyrir þessu. 

Þetta tvennt súmmerar hryggjarstykkið í stefnu VG og er vegarnestið sem formaðurinn hefur úr að spila. Svona er baklandið og grunnurinn. Ekki öfunda ég formanninn að þessum heimamundi.

Steingrímur hefur auðvitað eins og viðtalið við FT sýnir áttað sig á að  andstaðan við lausnir fyrri ríkisstjórnar var í besta falli misskilningur. En flokksráðið og kjarninn veit ekkert um þetta og heldur bara áfram að vera VG á meðan formaðurinn reynir að gera alla ánægða í fyrirfram vonlausri tilraun til þess að halda bæði flokki og ríkisstjórn á floti.

Nú fer þetta að verða áhugavert. Kosningavetur og brátt líður að því að flokkarnir sem skipa stjórnina taka til við að lúskra á hver öðrum. Líður að því að ekki verður lengur hægt með pólitísku handafli að halda niðri skíðlogandi eldunum sem allir vita að brennur milli flokkanna. Að ég tali nú ekki um átökin og óvildina sem fólk ber til hvors annars innandyra....

Þá verður spennandi að sjá á hvaða bás Steingrímur mun setjast. Mun hann hverfa aftur til þess að verða formaður Álfheiðar Ingadóttur eða halda áfram að vera formaður Katrínar Jakobsdóttur sem er að átta sig á því að flokkurinn hennar er kominn í hendurnar á mönnum eins og Birni Val sem fer að jafnaði aldrei í boltann heldur eingöngu manninn?

Þótt Steingrímur hafi nánast komist upp með það hingað til að vera hvoru tveggja er ólíklegt að hann komist upp með þegar tjaldið fellur og VG verður aftur VG í aðdraganda kosninga. 

Kosninga sem allir vita að senda VG í langa og verðskuldaða útlegð frá ríkisstjórnarsamstarfi. 

Röggi




Engin ummæli: