miðvikudagur, 30. júlí 2008

Er beiting valds alltaf misbeiting?

Ólafur borgarstjóri er ekki alltaf að gera gott mót. Honum virðist alveg fyrirmunað að ná hylli. Flest sem hann segir eða tekur sér fyrir hendur dæmist til að mistakast. Eins gott að hann varð ekki forseti borgarstjórnar eins og Dagur ætlaði honum!

Hann virðist njóta aðstöðunnar sem hann er í. Mínir menn eru í skrúfstykki og geta lítið aðhafst þó hann bulli. þannig gerast kaupin á eyrinni og þannig hefði það líka orðið hjá fyrri meirihluta nema reyndar að þá hefðu skrúfstykkin verið fleiri af augljósum ástæðum.

Hann liggur svo vel við höggi. Vinalaus og landlaus maður með fulla vasa af völdum. Svikari í hugum margra þó hann hafi í raun ekki gert neitt annað en það sem aðrir reyndu. Nefnilega að ota sínum tota...

Nú skipti hann út trúnaðarmanni i nefnd. það er gjörningur sem mér finnst ekki stórmál. Sígalandi minnihlutinn ærist. Ég spyr, má þetta ekki? Er konan ekki fulltrúi hans í nefndinni? þarf ekki að vera fullur trúnaður milli þeirra?

Hér finnst mér úlfaldi gerður úr mýflugu. Pólitískur rolugangur er plagsiður hér. Venjan er frekar sú að enginn axlar neina ábyrgð og fáir þora að taka af skarið. Nefndir skila af sér handónýtum meðalmennsku álitum sem ekkert gagn er að.

Við búum í litlu samfélagi og kannski þess vegna sem erfitt er að taka svona ákvarðanir. Nálægðin við einstaklinginn er svo mikil og margir vita að viðkomandi er öndvegis. En það er aukaatriði. Alveg eins og persóna borgarstjóra.

Af hverju er útilokað að ákvörðun borgarstjóra hafi eingöngu verið faglegs eðlis? Þarf valdhroki og mannvonska að koma við sögu? það að stjórnmálamenn beiti valdi sínu er ekki sjálfkrafa misbeiting valds. Stjórmálamenn sem þora að hafa skoðanir og standa við þær eru fátíðir.

Ég mun aldrei greiða Ólafi atkvæði mitt en ber þó virðingu fyrir því að hann þori að standa við sín prinsipp og velja sem trúnaðarmenn fólk sem hann treystir.

Hvernig getur þetta verið öðruvísi?

Röggi.

þriðjudagur, 29. júlí 2008

Manngangurinn.

Í dag lærði ég mannganginn. Fór einu sinni sem oftar í heimsókn til pabba míns sem dvelur á Grensás. þar eru fótalausir og heilbilaðir saman í sátt. Menn eðlilega misglaðir eins og gengur frá einum degi til annars. Ég hætti alveg að finna til í hnénu...

Pabbi er að jafna sig eftir alvarlegt heilablóðfall. Gengur of hægt auðvitað en örugglega. Oft er hann hreinlega eins og hann á að sér að vera og þá gleymir maður veikindunum og afleiðingum þeirra.

Enda er það þannig að á Grensás er fólk bara heima hjá sér. Fólkið þar lifir lífinu eins vel og mikið og unnt er. Ég er hættur að horfa þó fóta eða handalaus heimilsmaður setjist við hliðina á mér og taki mig tali. Eða heilabilaður tali við mig á máli sem ég skil alls ekki.

Allt í einu bendir pabbi á taflborð og heimtar að tefla, eins og við gerðum iðulega áður. Þetta er í fyrsta skipti sem hann sýnir frumkvæði af þessu tagi eftir áfallið. Hann getur ekki lengur talað eðlilega og hann getur ekki telft. það vitum við...

Samt teflum við. Andlitið dettur af mér því karlinn er með sitt á hreinu. Hugsar mikið og einbeitingin er fullkomin. Einhver glampi í augum og hann nýtur sín. Skákin er í jafnvægi.

Svo flækist staðan og þá gerist það. Hann fer að gera mistök, ruglast á litum og telfir mínum mönnum og riddari verður peð. Á endanum tapa ég skákinni þegar hann drepur kónginn minn með sínum þvert yfir borðið.

Gleðin fölskvalaus. Við upplifum báðir fullnaðarsigur. Ég mun aldrei læra mannganginn í skákinni hans til fullnustu. En ég mun reyna af lífs og sálarkröftum. Hver ætlar að segja mér að þessi manngangur sé ekki réttur?

Hans aðferð er eina aðferðin og það í víðasta skilningi. Skákin heldur áfram og við sem teljum okkur gjörþekkja mannganginn verðum að halda áfram að tefla þó reglurnar breytist.

Fólkið sem býr með pabba mínum á Grensás er allt meira og minna að læra mannganginn upp á nýtt. Ég mun ekki skorast undan þegar pabbi skorar á mig næst. Á svo margt eftir ólært á skákinni hans.

Röggi.

föstudagur, 25. júlí 2008

Ranglátur minnihluti.

Hver hefur áhuga á saving Iceland í dag? Mótmæla ofbeldi innfluttra aðila er fyrir lifandis löngu orðið hlægilegt. Aðferðirnar hafa alltaf verið lögbrot ef ég er spurður. Að ryðjast inn á vinnandi fólk í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir fullkomlega löglega hluti er bara hægt að kalla ofbeldi og vanvirðingu við lýðræðið.

Vörubíla mótmælin viðfrægu voru sama merki brennd. Og líka skrílslætin þegar nýjasta útgáfan af borgarstjórn Reykjavíkur tók við. Í öllum þessum tilfellum ryðst fólk fram í nafni lýðræðis en er í raun að skrumskæla það.

Ekkert yfirvald bannar mótmæli eða setur neinar skorður á tjáningu, öðru nær. Hnefarétturinn er bara fyrir löngu aflagður. Af hverju fólk telur nauðsynlegt að brjóta á öðru fólki um leið og það lýsir sig áánægt með löglegar ákvarðanir er mér fyrirmunað að skilja.

Hvað varð um virðingu fyrir ákvörðunum meirihlutans? Hver getur svipt meirihlutann réttinum til að taka heimskulegar en löglegar ákvarðanir? Anarkismi er í besta falli barnalegur.

Höldum okkur við grundvallaratriðin því aðeins þannig tryggjum við lýðræðislegar niðurstöður. Upphlaup sem beinast gegn því að lýðræðið nái fram að ganga á ekki að líða.

Réttláttur minnihlutinn verður annað hvort að andæfa löglega eða bíða næstu kosninga...

Röggi.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Fánahylling.

Stundum erum við kaþólskari en páfinn, við Íslendingar. Tökum okkur mjög hátíðlega og höfum engan húmor fyrir okkur sjálfum. þetta held ég að sé einkenni á smáþjóðum, stundum.

Við erum stolt fólk og harðduglegt. Höfum böðlast frá örbirgð og vesöld á undrastuttum tíma. Höfum náð að gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna svo að eftir er tekið. Kassinn þrýstist út í loftið þegar við heyrum þjóðsönginn og berjum fánann okkar augum.

Enda fáninn okkar fallegasti fáni veraldar, er það ekki? Samt er það þannig að hann má eiginlega hvergi sjást. Nema á tyllidögum á fánastöngum við opinberar byggingar. það hef ég aldrei skilið. Af hverju má ekki flagga fánanum oftar og víðar? Danir nota fánann sinn ótt og títt. Danski fáninn sést út um allt, og þegar Danir vilja gera sér glaðan dag, og það gerist oft, þá flagga þeir gjarnan og skreyta húsakynni með fánanum. Hér er slíkt hugsanlega lögbrot en fyrir mér er þetta hylling.

Hér sett samasem merki milli þess að vilja nota fánann og að sýna honum óvirðingu. það skil ég varla. kannski þarf að finna einhvern milliveg ef hann er þá til. í dag er það talið merki um virðingu við fánann að nota hann helst ekki.

Röggi.

mánudagur, 21. júlí 2008

ÍA rekur og ræður.

Starf þjálfara er ekki tryggasta starf í veröldinni. Árangur af vinnu þeirra ef eingöngu mældur í sigrum og stigasöfnun. Þannig er það þó stundum sé það ósanngjarnt. Og nú fékk Guðjón þórðarsson að fjúka.

það getur ekki komið neinum á óvart. Ég þekki til manna sem hafa unnið með Guðjóni og enginn efast um yfirburða þekkingu og kunnáttu hans í fótbolta þjálfun. Reynslu hefur hann yfirburða.

það bara dugar ekki alltaf. Neikvætt viðhorf hans og fyrirferð í minnsta mótlæti held ég að hafi ráðið því að allt fór í handaskol núna. Skortur á sjálfsgagnrýni og auðmýkt er eitthvað sem Guðjón á ekki til. Grunar að aggresívt andrúmsloftið hafi smátt og smátt étið upp alla gleði hjá liðinu.

Þá taka menn bara algerlega öfugan pól í hæðina og ráða til liðsins Arnar og Bjarka. Þeir eru án vafa algerlega á hinum enda skalans. Sókn er besta vörnin og gleði. Varla sama fagkunnáttan en þetta gæti svínvirkað, til skammst tíma hið minnsta.

Svo er þetta bráðgott fyrir FH því að mínu viti tóku þeir pláss í FH liðinu sem verður betur fyllt af öðrum. Hér gætu því allir grætt.

Röggi.

laugardagur, 19. júlí 2008

Myndbandið um götustrákana.

Eins og margoft áður verð ég að leggja orð í belg. Hef allt frá þvi ég byrjaði bloggbröltið mitt bent á að hér vaða uppi menn um allt þjóðfélagið sem skara eld að sístækkandi köku sinni með aðferðum sem sagan mun dæma hart.

Myndbandið um FL group er enginn nýr sannleikur fyrir mig. Þetta eru staðreyndir sem hafa legið fyrir lengi. Þessi hópur manna hefur farið um sem stormsveipur og sópað til sín þúsundum milljóna sem þeir hafa látið félög sem þeir hafa keypt út og suður borga sér aftur og aftur.

Daglegt bruðlið er í raun smámál. Stöku 100 milljónir hingað og þangað í ráðgjafasporslur fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Hver tekur eftir því þegar milljarðarnir, milljarður er 1000 milljónir, fara að renna í hyldjúpa vasana. Og félögin skilin eftir í blóðugum skuldum. Og hverjum ætli blæði á endanum mest? Kannski mér? Nú eða þér???

Engar upplýsingar í þessu myndbandi eru nýjar en samt hefur ríkt undarleg þögn um þessa svívirðu, og ýmsa aðra sem þessir aðilar stunda. Lengi var Baugur í pólitísku skjóli. Það var þegar andstæðingar Davíðs sáu sér leik á borði og gengu í lið með Jóni Ásgeir og hófu að kenna Davíð um allt og ekkert. Upp frá því var Baugur stikkfrí og er það enn.

Þeir sem voga sér að tala illa um Baug og Jón Ásgeir eru vondir sjálfstæðismenn sem vilja verja Davíð! Trikkið gékk upp. Davíð er örugglega hitt og þetta en viðskipti Jóns Ásgeirs og félaga hafa bara ekkert með Davíð að gera.

Veit ekki hver vogaði sér að gera þetta myndband. Vona að sem flestir sjái það og geri sér grein fyrir því að þarna eru staðreyndir á ferð. Hætti að velta því fyrir sér hvaða bakgrunn þeir hafa sem koma með ásakanirnar og fari að snúa sér að því að fletta ofan af þessum mönnum sem hafa sópað til sín fleiri þúsundum milljóna árum saman og skilið allt eftir í rúst og skuldum sem þeir ætla sér ekki að borga.

Hannes Smárason er vissulega fallinn af stalli þó varla hafi hann fallið slyppur og snauður. En hver ætli sé nú aðal í þessum félagsskap? Hver hefur tögl og hagldir? Er aðaleigandi í flestum tilfellum og formaður stjórna.

Veit einhver hvað sá maður heitir?

Röggi.

föstudagur, 11. júlí 2008

Guðmundur kemur til skjalanna..

það er auðvitað ekki fyrir venjulegan mann að skilja lætin sem nú eru í kringum starfslok Guðmundar þóroddsonar hjá OR. Allur almenningur er með það á hreinu að þegar þú lætur af störfum þá hefur þú ekkert að gera með gögn sem tilheyra vinnuveitenda sínum, fyrrverandi.

Guðmundur fetar svo í fótspor þórarins Viðars sem vann hjá símanum og heldur áfram að aka á bíl og nota bensínkort eins og ekkert hafi í skorist. Sá Guðmund á kastljósi áðan...

Þunglamalegur og ósympatískur með afbrigðum. Þekkir alls ekki muninn á orsök og afleiðingu. Telur það sanna sitt mál að vegna þess að nú sé að honum veist hafi það verið honum brýn nauðsyn að taka skjölin til varðveislu. Hér er öllu snúið á haus svo eftir hlýtur að verða munað. Hefði hann ekki tekið skjölin þá hefði enginn verið að "veitast" að manninum.

Kæruleysislegt yfirbragðið virðist mér benda til þess að honum sé í raun alveg nákvæmlega sama um hvað öðrum finnst. Sléttsama um almenningsálitið, enda er það álit reyndar oft óskiljanlegt. Virkar eins og ofdekraður ríkisforstjóri úr fortíðinni.

Þreyttur og piraður á því að geta ekki bara farið sínu fram án þess að hinir og þessir séu með nefið ofan í hlutunum. Fulltrúi gamals tíma sem vonandi kemur ekki aftur..

Röggi.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Baugspabbi stefnir ríkinu.

Jóhannes Jónsson matarokrari og orðhákur ætlar að stefna ríkinu í haust. Hef ekki minnsta grun um á hvaða forsendum en hann hlýtur að finna þær ásamt hálaunuðum súper lögfræðingum sínum.

Hann er auðvitað stórmóðgaður blessaður karlinn að þurfa að standa reikningsskil gerða sinna eins og aðrir þegnar þessa lands. það eru líka allir búnir að segja honum að spilling og pólitík hafi ráðið, eða sagði hann það kannski sjálfur? það telst líklega full sönnun og því ekki annað að gera en að stefna.

Og þá dugar ekkert minna en að stefna ríkinu og krefjast í leiðinni afsagnar helstu manna. Lítillæti er ekki að þvælast fyrir auðkýfingnum. Ég mun fylgjast spenntur með enda verður gaman að sjá á hverju stefnan mun byggjast.

Kannski þetta verði venjan í framtíðinni hjá venjulegum Jónum þessa lands þegar þeir verða ákærðir. Verði þeir ekki sakfelldir fyrir öll ákæruatriði þá er stefnt enda augljóst að um ofsóknir mun vera að ræða.

Jóhannes hefur birst okkur undanfarna mánuði grátbólginn af þreytu og kvartað undan því að þessi mál hafi tekið frá honum 6 ár ævi sinnar. Stóryrtur að vanda og óheflaður. Nú bregður svo við að hann vill endilega meira af málaferlum.

Að þessu sinni hreinlega hlægilegum málaferlum. Varla getur nokkrum einasta manni dottið í hug að milljarðamæringuinn móðgaði muni fá neitt út úr þessu brölti. Hann vissulega hefur efni á þessu og líklegt að þetta ýti undir bólgið egóið auk þess sem hann mun finna nokkuð til sín.

Annað bitastætt verður ekki í boði.

Röggi.

mánudagur, 7. júlí 2008

Ruglið í Johnsen.

Ég hef áður skrifað um Árna Johnsen. Ég hef ekki minnsta grun um hvernig honum hefur ítrekað tekist að syngja sig inná kjósendur í sínu kjördæmi. Eitthvað hlýtur hann að hafa til brunns að bera því kjósendur geta ekki haft svona herfilega rangt fyrir sér, eða hvað?

Með góðum vilja má þó greina að honum er ekki alls varnað. Er greinilega ástríðumaður í þvi sem hann tekur sér fyrir hendur. Það gengur víst vel undan karlinum. Óheflaður alþýðumaður og það selur alltaf eitthvað. Skrifar oft magnaðar minningargreinar, Sérlundaður tappi með skemmtilegan orðaforða og ömurlega söngrödd.

Kannski þurfum við eitt svona eintak á þing. Kann að vera þó mér finnst það ekki. Hann er líka stundum blaðamaður þó mér sýnist reyndar að hann sé eiginlega hvorki blaðamaður né þingmaður. Hann er samt allsstaðar og hvergi. Skiptir eiginlega bara engu máli blessaður.

Hef sjálfur ekki hugmynd um fyrir hvað hann stendur pólitískt. Hann veit það væntanlega ekki sjálfur. Hentistefna og sérhagsmunapot kemst næst því eins og ég sé þetta. Hann blæs upp af og til ef honum mislíkar eitthvað en annars virðist hann ekki hafa neitt fram að færa. Hver einasti dagur sem hann opnar ekki munninn er gæfudagur fyrir okkur sjálfstæðismenn.

Þessi helgi var einmitt ein af þessu ógæfuhelgum þar sem hann Árni opnaði munninn. Þar lét hann vaða á súðum í órökstuddum þvælukenndum fullyrðingum um Baugsmálið. Hann er svo sem ekki einn um þann söng en hann Árni er þingmaður og þar liggur munrinn.

það er grafalvarlegt þegar fulltrúi á löggjafarsamkomu okkar gengur fram með svona fullyrðingar. Dylgjur um óeðlilegan framgang málsins og hugsanlega annarleg afskipti utanaðkomandi eru ekkert léttmeti komandi frá þingmanni, jafnvel þó hann heiti Árni og sé Johnsen og hafi svigrúm vegna þess að allur almenningur lítur á hann sem trúð, í besta falli.

Lýðræðið er skemmtilegt og það skilaði okkur Árna á þing. Við því er ekkert að gera en það verður að gera lágmarks kröfur til hans eins og annarra og því finnst mér að hann skuldi okkur skýringar og upplýsi að fullu hvað hann hefur fyrir sér.

En þá þarf hann að opna ginið aftur og eins og áður er getið þá endar slíkt að líkindum með hörmungum. Kannski sleppur þetta bara því fáir vilja kannast við að vera í liði með manninum.

Maðurinn er á undanþágu...

Röggi.

Til hvers eru reglur?

Sorglegt mál þetta með Kenýja manninn sem ekki fær að vera hjá konu sinni og barni. Hann var hér ólöglega ef ég hef skilið þetta rétt og gott ef ekki konan líka. Allt frekar snúið.

Þar til bær yfirvöld komust svo að því að maðurinn skyldi úr landi. Væntanlega ekki af mannvonsku einni saman. Hér hlýtur að vera unnið eftir reglum um mál af þessu tagi. það er best enda tryggir það að allir fái sömu afgreiðslu en ekki tilviljanakenndar.

Stundum gerist það að alsherjarreglan hittir suma verr en aðra. Þá vilja margir grípa til undantekninga. Og í þessu tilfelli að ráðherrar skipti sér af, grípi inn í. Þekki þetta mál ekki út í hörgul en hef skoðanir á prinsippinu.

Almennt finnst mér að stjórnmálamenn sem hafa sett stofnunum reglur eigi ekki að vesenast í því að fara á svig við þær eftir hentugleika. Það býður upp á misnotkun og spillingu.

Skipti Björn Bjarnason sér af rannsókn á Baugi? Var Jónína Bjartmars að vinna í umsókn tengdadóttur sinnar? Vonandi ekki. Enda treystum við fagfólki til þess að komast að eðlilegri niðurstöðu að vandlega íhuguðu máli og eftir þeim reglum sem starfseminni eru settar.

Ekki gengur að skammast í ráðherrum einn daginn fyrir að vera með nefið sitt ofan í málefnum stofnana sem undir þá heyra og ætlast svo til þess að þessir sömu ráðherrar séu einmitt með fingurna í vinnu stofnana sem undir þá heyra, allt eftir hentugleika hverju sinni.

það er handónýt stefna og hættuleg.

Röggi.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Freistingar vinstri manna...

Menn hafa verið að lesa erlend blöð hér. Financial Times í þessu tilfelli. Og það er eins og við manninn mælt. Enn einu sinni sjá margir vinstri menn hvernig best er að stytta sér leið á toppinn. Breski hagfræðingurinn bendir á að best sé að sprengja ríkisstjórnina fyrir Samfylkinguna helst nú þegar.

Klofiningar og upphlaup hefur verið helsti vandi vinstri manna hér á landi. Skortur á framsýni og þrautsegju í bland við óþolinmæði hafa gert það að verkum að vinstri menn hafa hér verið sundraðir lengi og þeim hefur ekki verið treyst. Frekar spretthlauparar en lang. Ótrúverðugir.

Hvernig verða menn trúverðugir í stjórnmálum? Hvenær verður til innri strúktúr hjá flokkum? Er það þegar fólk tekst á hendur ábyrgð og vinnur í þeim verkefnum sem það hefur tekist á hendur jafnvel þó á móti blási eða er það þegar fólk hleypur eftir stundargleði eins og FT bendir á að gæti verið í spilum?

Hundóánægðir samfylkingarmenn virðast hér sjá flotta leið út úr því vandasama verkefni sem er að vera í ríkisstjórn í mótbyr. það er vegna þess að þetta fólk trúir því að samstarfsaðilinn liggi heldur vel við höggi nú um stundir. Þessi sami hópur sér þessa fínu leið reyndar líka þegar staðan er akkúrat á hinn veginn!

Mjög margir sjá samfylkinguna nú hlaupa undan loforðum sínum flesta daga. Bullandi óánægja. Allt þetta gleymist þegar gott er að trúa því að nú sé hægt að gleypa heiminn í einum bita. Stytta sér leið og verða stór og sterkur.

Langtímaáhrifin af svona löguðu eru þekkt. Upphlaupsstjórnmál vinstri manna hér á landi hafa skilað þeim eyðimerkurgöngu áratugum saman. Nú er, í það minnsta tímabundið, allsæmilegur friður innandyra og þá er best að reyna að koma á upphlaupi í samstarfi sem Samfylkingin og eða vinstri menn hafa svo sannarlega þurft að komast í lengi til þess að búa sér til trúverðugleika og verða alvöru.

Kannski verður glýjan svo mikil að Solla rýkur til. það myndi gleðja fótgönguliðana. Stundarsigrar augnabliksins eru svo sætir. Litlu sigrarnir sem vinstri menn kalla gjarnan söguleg.

það að verða fullorðinn í stjórnmálum er langhlaup og oft blæs á móti. Og sagan segir okkur að oft er lag að reyna að eignast allan heiminn. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað losað sig við Framsókn nánast mánaðarlega í 16 ár ef eitthvað var að marka skoðanakannanir eða vitringa af ýmsum toga.

Kom aldrei til álita. Enda staðfesta og styrkur það sem skilar árangri til lengri tíma. Ekki lýgur sagan að okkur.

Röggi.

Bullar Hafró?

Þá er sjávarútvegsráðherra búinn að ákveða sig. Kjarkmikill sem fyrr þrátt fyrir uppruna sin fyrir vestan ákveður hann að fara að mestu að ráðgjöf færustu vísindamanna. Úthrópaður og bannfærður.

Og ekki að spyrja að því. Blaðið mitt var í morgun sneisafullt af viðtölum við menn sem lýstu hneykslan sinni. Reyndar lítillega misjafnar ástæður en í grunninn þær sömu. það vilja auðvitað allir veiða meira.

Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli að útgerðarmenn og sjómenn geta aldrei verið ánægðir með að fá ekki að veiða þegar þeim hentar og eins mikið og þeim helst dettur í hug.

Núna telja menn að skynsamlegt sé að veiða meira vegna þess að efnahagsástandið sé slæmt. Vilja þá líklega draga úr veiðum þegar verðbréf seljast betur. það er í þessu eins og svo mörgu öðru hjá okkur. Skammtímahugsunin ræður ríkjum, og sérhagsmuna.

Sjómenn segja sjóinn fullan af fiski. Eina fólkið sem ekkert veit um það eru vísndamennirnir. Allir aðrir algerlega hlutlausir aðilar vita það. Sjórinn var líka fullur af síld í den. Alveg þangað til sú síðasta var veidd. Þá var viðkvæðið líka það sama. Vísindamennirnir bjánar sem sitja bara og reikna í stað þess að drífa sig á sjó og fara að veiða!

Auðvitað er eðlilegt að sjónarmið þeirra sem vilja veiða og græða og þeirra sem vilja draga úr veiðum skarist. Sér í lagi í því árferði sem nú er. Harðindatímar að renna upp í efnahagslegu tilliti og vísindin segja okkur að fiskinum fari fækkandi.

Eftir stendur spurningin. Hvernig á að ákveða hversu mikið má veiða? Er kannski bara best að láta útgerðina um það, nú eða sjómenn sjálfa? Málflutningur sumra hagsmunaaðila málsins er fyrir neðan allar hellur. Hálfgerð afdalamennska sem mótast af þröngum sérhagsmunum.

Hafró hefur engra hagsmuna að gæta nema vísndalegra. Við eigum ekkert val annað en að taka fullt mark á þeirra ráðgjöf. Við höfum ekkert annað að styðjast við en þeirra gögn.

Gífuryrði sumra í garð Hafró breyta engu þar um.

Röggi.

Meiri forgjöf til Rúv takk.

það er erfitt að reka fjölmiðlafyrirtæki. Við búum í litlu samfélagi og slagurinn um auglýsendur harður. Samt freistast menn til að standa í þessu basli. Rekstrarumhverfi þeirra sem reyna er út í hött hér. Hvernig á að vera hægt að standa í eðlilegri samkeppni við ríkið?

Forstjóri 365 birtist í gær þungur á brún. Útlitið ekki bjart og engu líkara en að eigandi samsteypunnar ætli sér helst úr landi með þetta fyrirtæki eins og önnur í hans eigu. Þetta af business ástæðum en hin af því að honum leiðist að þurfa að standa reikninsskil gerða sinna eins og aðrir þegnar þessa lands.

Ég hef fullan skilning á þreytu þeirra sem eru að reka 365 í samkepnni við Rúv. Forgjöf samkeppnisaðilans er óþolandi og hefur verið alla tíð. Ríkið rembist við að halda úti rekstri sem einkaaðilar eru að gera vel. Til hvers er rás 2? Hvaða stórkostlega menningarhlutverki sinnir hún sem aðrir gera ekki?

Þess vegna var gaman að sjá að Páll forstjóri Rúv birtist beyðgur í gær og tilkynnti um uppsagnir starfsmanna. Ástæðan? Jú, hann vantar meiri forgjöf. Hærri afnotagjöld! Hann er greinilega búinn að steingleyma árunum þegar hann var hinu megin við borðið. Hann vill bara fá meira núna til að geta haldið áfram að reka fyrirtækið af myndarskap með tapi.

Ég gæti hugsanlega umborið þessa stofnun ef hún hætti að herja á auglýsendur. Ef við endilega viljum halda úti ríkisfjölmiðli þá eigum við að splæsa því á okkur en ekki reyna af öllum mætti að koma einkaaðilum fyrir kattarnef í leiðinni með því að slást um auglýsingar og rukka alla landsmenn í leiðinni um afnotagjöld.

Slíka samkeppni þolir enginn til lengdar.

Röggi.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Skaginn.

Nú syrtir verulega í álinn hjá Skagamönnum í fótboltanum. Oft hefur gefið á bátinn en samt hefur þeim yfirleitt tekist að að ná vopnum sínum og snúið við blaðinu. Skaginn er jú alltaf Skaginn...

það hefur alltaf verið mögnuð ára yfir fótboltanum uppi á Akranesi. Hnarreystir menn með kassann út í loftið. Munnurinn fyrir neðan nefið og ekkert andskotans væl. Þeir hafa fjöldaframleitt flotta fótboltamenn í gegnum tíðina. Við höfum öll borið mikla virðingu fyrir hefðina.

Auðvitað geta þeir enn snúið blaðinu við og unnið leiki. En þeir munu ekki vinna nokkurn skapaðan hlut þetta tímabilið. Þetta verður titlalaust og þeir munu ekki einu sinni vera í baráttunni að óbreyttu. Öðruvísi mér áður brá.

Ég held að ástæðan sé þjálfarinn. Trúi því mjög vel að hann sé frábær fagmaður enda oft náð afburða árangri. Ég er meira að hugsa um karakterinn sem slíkan. það eru alltaf allsstaðar þar sem hann vinnur einhver fjandans læti.

Auðmýkt og yfirvegun þekkir hann varla. Umburðarlyndi enn síður. Grjótharður mórallinn og harkan er kannski bara hætt að virka. Kannski var upphafið að endinum svarti bletturinn sem féll á Skagamenn í fyrra. Til skamms tíma fór það atriði illa í Keflvíkinga en kannski verða langtíma áhrifin verri hjá Skagamönnum.

Vandinn liggur ekki hjá mér, það er viðkvæðið. Þegar illa gengur þá vilja leikmennirnir ekki vinna, þeir leggja sig ekki fram. Guðjón er reyndar ekki eini Skagaþjálfarinn sem talar svona um leikmenn sína í mótbyr. Svona tal grefur bara undan þjálfarnum með tímanum. Auðvitað vilja allir vinna og hver leggur sig ekki fram.

Svo þegar sigrarnir detta inn þá er það vegna kænsku þjálfarans sem lagði leikinn glimrandi vel upp. Guðjón tekur hrósið en yfirgefur leikmenn sína þegar á móti blæs. Fjölmiðlamenn eiga hér stórann þátt. Þeir hafa kokgleypt þetta bull árum saman opinmynntir yfir öllu sem Guðjón hefur sagt.

Á þessu tímabili hafa aðrir þættir þó verið til að spilla gleðinni. Nefnilega dómarar og gott ef KSÍ líka. Mistök dómara verða alltaf hluti af leiknum og engir fara varhluta af þeim. Þeir sem sökkva í það fen að trúa því að þessi sannindi séu einelti og árásir ef ekki samantekin ráð munu ekki ná árangri. Þetta er ekki hugarfar sigurvegarans.

Mér sýnist neikvætt og þungt tal Guðjóns vera farið að ná til liðsins. Gleðin víðs fjarri enda hafa leikmennirnir fína fjarvistarsönnun fyrir genginu slaka. Þetta er ekki eingöngu þeim að kenna. Þeir eru í stríði við allt og alla.

Ég vona að Skagamenn nái sér á strik. Þeir eru stór partur af okkar bolta. En mig grunar að þá verði að verða alger hugarfarsbreyting og hún þarf að hefjast hjá Guðjóni. Í dag lítur helst út fyrir að þjálfun sé það leiðinlegasta sem Guðjón hefur gert um ævina.

Jákvætt hugarfar og gleði en ekki endalaus hávaði og spörk í allar áttir. Alltaf allir vondir við mig. Logi Ólafsson er frá náttúrunar hendi skemmtilegur maður og glaðsinna. Er pottþéttur á því að hann hefur ekki þá þekkingu og kunnáttu á fræðunum sem Guðjón hefur.

En hann hefur, með jákvæðu hgarfari og yfirvegðri nálgun tekist að snúa hlutunum á betri veg hjá KR. Eyðir ekki tíma sínum í að eltast við dómara og aðra jafnvel þó stundum gæti verið ærin ástæða til. Grunnafstaðan er rétt. Karaktereinkenni þjálfarans eru farin að sjást hjá KR. Og hjá Skagamönnum líka.

Röggi.