miðvikudagur, 2. júlí 2008

Freistingar vinstri manna...

Menn hafa verið að lesa erlend blöð hér. Financial Times í þessu tilfelli. Og það er eins og við manninn mælt. Enn einu sinni sjá margir vinstri menn hvernig best er að stytta sér leið á toppinn. Breski hagfræðingurinn bendir á að best sé að sprengja ríkisstjórnina fyrir Samfylkinguna helst nú þegar.

Klofiningar og upphlaup hefur verið helsti vandi vinstri manna hér á landi. Skortur á framsýni og þrautsegju í bland við óþolinmæði hafa gert það að verkum að vinstri menn hafa hér verið sundraðir lengi og þeim hefur ekki verið treyst. Frekar spretthlauparar en lang. Ótrúverðugir.

Hvernig verða menn trúverðugir í stjórnmálum? Hvenær verður til innri strúktúr hjá flokkum? Er það þegar fólk tekst á hendur ábyrgð og vinnur í þeim verkefnum sem það hefur tekist á hendur jafnvel þó á móti blási eða er það þegar fólk hleypur eftir stundargleði eins og FT bendir á að gæti verið í spilum?

Hundóánægðir samfylkingarmenn virðast hér sjá flotta leið út úr því vandasama verkefni sem er að vera í ríkisstjórn í mótbyr. það er vegna þess að þetta fólk trúir því að samstarfsaðilinn liggi heldur vel við höggi nú um stundir. Þessi sami hópur sér þessa fínu leið reyndar líka þegar staðan er akkúrat á hinn veginn!

Mjög margir sjá samfylkinguna nú hlaupa undan loforðum sínum flesta daga. Bullandi óánægja. Allt þetta gleymist þegar gott er að trúa því að nú sé hægt að gleypa heiminn í einum bita. Stytta sér leið og verða stór og sterkur.

Langtímaáhrifin af svona löguðu eru þekkt. Upphlaupsstjórnmál vinstri manna hér á landi hafa skilað þeim eyðimerkurgöngu áratugum saman. Nú er, í það minnsta tímabundið, allsæmilegur friður innandyra og þá er best að reyna að koma á upphlaupi í samstarfi sem Samfylkingin og eða vinstri menn hafa svo sannarlega þurft að komast í lengi til þess að búa sér til trúverðugleika og verða alvöru.

Kannski verður glýjan svo mikil að Solla rýkur til. það myndi gleðja fótgönguliðana. Stundarsigrar augnabliksins eru svo sætir. Litlu sigrarnir sem vinstri menn kalla gjarnan söguleg.

það að verða fullorðinn í stjórnmálum er langhlaup og oft blæs á móti. Og sagan segir okkur að oft er lag að reyna að eignast allan heiminn. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað losað sig við Framsókn nánast mánaðarlega í 16 ár ef eitthvað var að marka skoðanakannanir eða vitringa af ýmsum toga.

Kom aldrei til álita. Enda staðfesta og styrkur það sem skilar árangri til lengri tíma. Ekki lýgur sagan að okkur.

Röggi.

Engin ummæli: