Ólafur borgarstjóri er ekki alltaf að gera gott mót. Honum virðist alveg fyrirmunað að ná hylli. Flest sem hann segir eða tekur sér fyrir hendur dæmist til að mistakast. Eins gott að hann varð ekki forseti borgarstjórnar eins og Dagur ætlaði honum!
Hann virðist njóta aðstöðunnar sem hann er í. Mínir menn eru í skrúfstykki og geta lítið aðhafst þó hann bulli. þannig gerast kaupin á eyrinni og þannig hefði það líka orðið hjá fyrri meirihluta nema reyndar að þá hefðu skrúfstykkin verið fleiri af augljósum ástæðum.
Hann liggur svo vel við höggi. Vinalaus og landlaus maður með fulla vasa af völdum. Svikari í hugum margra þó hann hafi í raun ekki gert neitt annað en það sem aðrir reyndu. Nefnilega að ota sínum tota...
Nú skipti hann út trúnaðarmanni i nefnd. það er gjörningur sem mér finnst ekki stórmál. Sígalandi minnihlutinn ærist. Ég spyr, má þetta ekki? Er konan ekki fulltrúi hans í nefndinni? þarf ekki að vera fullur trúnaður milli þeirra?
Hér finnst mér úlfaldi gerður úr mýflugu. Pólitískur rolugangur er plagsiður hér. Venjan er frekar sú að enginn axlar neina ábyrgð og fáir þora að taka af skarið. Nefndir skila af sér handónýtum meðalmennsku álitum sem ekkert gagn er að.
Við búum í litlu samfélagi og kannski þess vegna sem erfitt er að taka svona ákvarðanir. Nálægðin við einstaklinginn er svo mikil og margir vita að viðkomandi er öndvegis. En það er aukaatriði. Alveg eins og persóna borgarstjóra.
Af hverju er útilokað að ákvörðun borgarstjóra hafi eingöngu verið faglegs eðlis? Þarf valdhroki og mannvonska að koma við sögu? það að stjórnmálamenn beiti valdi sínu er ekki sjálfkrafa misbeiting valds. Stjórmálamenn sem þora að hafa skoðanir og standa við þær eru fátíðir.
Ég mun aldrei greiða Ólafi atkvæði mitt en ber þó virðingu fyrir því að hann þori að standa við sín prinsipp og velja sem trúnaðarmenn fólk sem hann treystir.
Hvernig getur þetta verið öðruvísi?
Röggi.
miðvikudagur, 30. júlí 2008
Er beiting valds alltaf misbeiting?
ritaði Röggi kl 09:49
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Það er a.m.k. tvennt sem er athugavert við þessa gjörð.
1. Það virðist vera einungis ein ástæða fyrir þessari valdbeitingu; Ólöf sagðist vilja bíða eftir málefnalegri kynningu á tillögunni ÁÐUR en hún lýsti skoðun sinni. Það er sök hennar. Sem sagt þetta virðist vera ómálefnalegur gjörningur. Ólafur segist vera prinsipp-maður, en mér sýnist hann einvörðungu vera kreddu-maður. Hann myndar sér skoðanir án þess að hlusta á mótrök og vill að aðrir geri það líka.
2. Fólki virðist blöskra að Ólafur virðist vera einráður í öllum sínum ákvörðunum. Við búum við kerfi þar sem flokkar ræða saman innan síns hóps, þar fara fram rökræður og síðan skoðanamyndun. Þetta virðist hafa gilt þegar Björn Ingi var í sama hlutverki. Hvort sem okkur líkaði vel eða illa við ákvarðanir Björns Inga þá var á vbak við hann lítill flokkur sem heitir Framsóknarflokkur. Í Ólafs tilliti virðist vera um að ræða einhvers konar einræði Ólafs, enginn flokkur, engin umræða. Einungis "fulltrúar Ólafs" og ef einhver hefur sjálfstæða skoðun sem ekki fellur að hans kreddum þá fer illa. Það er enginn að segja að hann hafi brotið lög, hann fór að vísu fram úr sjálfum sér að reka hana þar sem að Borgarráð fer með það vald. En fólki fellur ekki í geð slíkt kreddu-einræði. Það veit enginn hvernig ákvarðanir eru teknar. Hann hefur ósköp einfaldlega öll þau völd sem hann vill yfir þeim fulltrúum sem "undir" honum vinna. Slíkt geðjast mér ekki, og það sama vænti ég að gildi um marga aðra. Okkur finnst þetta vera einhvers konar geðþótta-einræði.
Flestir íslenskir stjórnmálamenn taka ákvarðanir út frá eigin hagsmunum (ota sínum tota - eins og þú sagðir) eða tiltekinna hagsmunahópa (t.d. Sjálfstæðisflokkurinn fyrir LÍÚ). Þeir starfa þannig ekki fyrir almenning. Þess vegna ber ávallt að vantreysta stjórnmálamönnum - og efast um flestar ákvarðanir þeirra og því miður oftast heilindi.
Ákvarðanir þeirra raðast yfirleitt eftir eftirfarandi:
1. Hvað græði ég á þessu?
2. Hvað græða "mínir" umboðsmenn?
3. Er þetta í lagi fyrir almenning?
Er það þetta sem þú kallar að vera "hugrakkur" í pólitík?
það má reyndar segja Ólafi F. Magnússyni til hróss að hann er trúr sínu og maður veit svona nokkurn veginn hvar hans áherslur liggja og pólitískur vilji er.
Sama verður ekki sagt um hringlandann og vitleysisganginn í samstarfsflokki hans sem virðist stefna í allar áttir í öllum málum, að minnsta kosti þar til Ólafur segir þeim hvernig þeir eiga að sitja eða standa. Hann hefur nefnilega ágæta stjórn á borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna, nokkuð sem Sjálfstæðismenn hafa ekki sjálfir.
Ólafur F. Magnússon stendur því uppúr í þessari hringavitleysu í Borgarstjórn Reykjavíkur.
Já, það er orðið ansi hart í ári þega nefndir skila af sér meðalmennsku álitum.
Skrifa ummæli