mánudagur, 25. ágúst 2008

Guðmundur bætir sig.

Verð að skrifa um handbolta. Dauður maður sem ekki hreifst með þó ég hafi ekki séð handbolta með berum augum í óratíma. Gef mig auðvitað út fyrir að vera mikill sérfræðingur samt..

Hef ekki verið aðdáandi Guðmundar þjálfara. Fundist hans hugmyndafræði vera fyrirséð og gamaldags. Fjöldi æfinga meira mál en gæði. Trúr sínum Pólskættaða handboltauppruna og hefur böðlast á byrjunarliðinu í hverri stórkeppninni á fætur annarri og keyrt menn út enda innáskiptingar óþarfar.

Þetta hefur breyst að einhverju marki. Samt fannst mér örla á þessu í undirbúningi liðsins fyrir forkeppni ÓL í Póllandi. Þá var liðið saman í hálfan mánuð minnir mig erlendis við æfingar. Ferðalög og hótelbúskapur er að mínu viti fyrst og fremst þreytandi enda kom það á daginn að þó við höfum náð að koma okkur á ÓL var liðið uppgefið og andlaust gegn slöku liði Makedóniu. Handboltann svíður enn undan því...

Mesta gæfusporið held ég að hafi verið að fá Óskar Bjarna með Guðmundi. Ólíkir menn um flest bæði hvað varðar karakter og hugmyndafræði. Óskar hreyfir sín lið ótt og títt á meðan Guðmundur hefur verið á hinum enda kvarðans. Guðmundur frekar lokaður á meðan Óskar er kátari og opnari.

Allt annað var að sjá Guðmund í þessari keppni en áður fyrr. Virtist höndla pressuna vel og njóta hennar. Var manneskjulegri en oft áður og persónulegri. Kom út úr skelinni.

Og það sem skipti að mínu máli miklu, hafði tileinkað sér ný vinnubrögð. Nú var liðið hreyft miklu meira en áður hjá honum enda sluppu menn almennt við meiðsl og augljósa þreytu vegna álags. Reyndar mátti sjá leifar af þessu á Guðjóni Val sem spilaði of mikið enda tók hann upp á því að brenna af í færum sem hann brennir aldrei af þegar á mótið leið. Og var svo orðinn þreyttur og fékk sína einu hvíld í úrslitaleiknum sjálfum þegar hann hefði alls ekki átt að fá hvíld. En þetta var undantekning...

Guðmundur stendur frammi fyrir því hvort hann á að halda áfram eða ekki. Get vel unnt honum að rifa seglin núna þegar hann er á toppi handboltans. Handboltans vegna á að hann eðlilega að halda áfram því hann hefur sagt að hann sé að bæta sig og breyta og það er flottur grundvöllur.

Alþekkt er að vinnusamari mann er ekki hægt að fá né skipulagðari. Og þegar hann ákveður að taka inn nýja nálgun sem ég er sannfærður að sé til bóta þá mun hann væntanlega gera það af sömu fagmennskunni og annað sem hann tekur sér fyrir hendur.

Röggi.

Engin ummæli: