fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Hvað er að vera óstjórntækur?

það fór þó aldrei svo að félagi Össur rumskaði ekki. Hann hefur verið upptekinn við oliuborun og mjúk mál allt frá þvi að kreppan skall á. Allir draumar hans um leiðtogastöðu flokksins nú fyrir bí enda ekkert gaman lengur. Hann er oft klókur hann Össur en kann ekki vel að dylja það þegar honum lýst ekki á blikuna.


Samfylkingin er auðvitað algerlega að fara á límingum vegna þess að enginn vill fylgja flokknum blint í faðm ESB. Skoðanakannanir sýna mjög minnkandi fylgi við það bandalag og ef það gengur eftir er orðið ansi þungt loftið í flokknum.

Þetta veit kammerat Össur og nú skal reynt að koma ESB á dagskrá enda getur flokkurinn ekki skipt um þann hest í miðri á þó margur klárinn hafi snarsnúist á vaðinu hjá þeim flokki. Össur veit að sókn er besta vörnin og ræðst á Sjálfstæðisflokkinn.

Sem hann telur ekki stjórntækan vegna illdeilna innanborðs um ESB. Hann þekkir auðvitað óstjórntæka flokka þegar hann sér þá en að Sjálfstæðisflokkurinn sé óstjórntækur vegna þess að þar eru skiptar skoðanir um ESB er hlægileg niðurstaða.

Samfylkingin er að sjálfsögðu stjórntæk einkum og sér í lagi vegna þess að hún er tilbúin í hvað sem er til að geta setið í stjórn. Ef sá flokkur réði myndum við flytja alla okkar starfsemi til Brussel. Allt starf flokksins og markaðssetning hefur miðast við eitt og aðeins eitt. Inngönguna í ESB.

Bakbeinið og séreinkennið í starfi og stefnu VG hefur á hinn bóginn verið einörð andstaða við þessa sömu inngöngu. Að vísu hefur mjög eindregin andstaða þess flokks við IMF tekið á sig nýjar og frumlegar myndir eftir að ylvogir ráðherrastólarnir fengust svo ekki er alveg víst að andstaðan við ESB haldi ef stólarnir reynast góðir. Sennilega misskilningur allt saman.

Þessir tveir flokkar eru þá það sem félagi Össur myndi kalla, stjórntækir. Líklega vegna hæfileika þeirra til að hafa bara þá skoðun sem dugar til að komast í stjórn.

það er einhver hroka tónn í því að halda því fram að flokkur sem ekki hefur nákvæmlega sömu afstöðu og hentar Samfylkingunni sé óstjórntækur af þeim ástæðum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnilega stefnu í málinu og ekkert í þeirri stefnu gerir hann óstjórntækan. Ekki frekar en VG sem hefur mjög ákveðna skoðun á ESB.

Taugaveiklun Samfylkingar er öllum ljós. Birtingarmyndin eru ræður eins og sú sem Össur flutti í dag þar sem virðingarleysi fyrir skoðunum annarra er undirtónninn. Sjálfstæðismenn létu það viðgangast í stjórn með Samfylkingu að ráðherrar röfluðu um hluti sem samið var um að ekki væru á stefnuskrá.

Þannig fólk er samkvæmt mínum skilningi varla stjórntækt. það að hafa ekki sömu skoðanir og aðrir flokkar er nú bara það sem skilur flokka að. Og að halda sig við það sem ákveðið hefur verið af stofnunum flokks er alveg fullkomlega eðlilegt.

Félagi Össur er skemmtilegur maður frá náttúrunnar hendi. Það er árátta hans til að stunda klækjastjórnmál sem hafa komið honum í þá stöðu að njóta ekki allra þeirra kosta sem hann er búinn.

Sem er synd því á góðum degi er hann vel stjórntækur.

Röggi.

Engin ummæli: