Það eru ekki ný tíðindi að ég botni hvorki upp né niður í Ögmundi Jónassyni. Nú ber reyndar svo við að ég skil hann til hálfs. það er þegar hann færir að mínu viti mjög sannfærandi og aðdáunarverð rök fyrir þeirri ákvörðun sinni að víkja úr vinstri stjórn Jóhönnu áður en hún ákveður að fullkomna Icesave klúðrið án þess að gera tilraun til að verja hagsmuni okkar. Þetta skal gera án þess að alþingi komi þar að eins og reyndar var reynt í upphafi.
Ögmundur er eins og rómantískt barn þegar hann talar um að hann hafi haldið að þessi ríkisstjórn snérist um gagnsæi, virðingu fyrir lýðræði og að standa vörð um þingræðið. Nú hefur honum endanlega orðið ljóst eins og okkur mörgum öðrum að það er auðvitað ekki þannig. Þessi ríkisstjórn snýst um að vera áfram ríkisstjórn og að halda öðrum frá.Annað er minna áríðandi.
Þetta getur byltingarmaðurinn og hugsjónaljónið Ögmundur ekki búið við lengur. Öll hans prinsipp í stærstu málum sögu okkar lands eru þverbrotin í ríkisstjórninni sem hann kvaddi í dag. Allt er þetta virðingarvert og til eftirbreytni og hann maður að meiri svo langt sem það nær.
En það er svo það sem Ögmundur segir næst sem ég skil trauðla. Hann er enn stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og mun hugsanlega greiða atkvæði með því sem nú verður til þess að hann víkur úr stjórn. Ragnar Reykás hefði ekki getað kokkað upp annan eins snúning og hringavitleysu.
Miðað við einkunina sem hann gefur vinnubrögðum Jóhönnu og Samfylkingu er þetta allt með algerum ólíkindum og mig grunar að margt sé hér ósagt og ekki til lykta leitt og það er alveg víst...
...að margir í VG sjá nú raunverulegan möguleika á að einhver annar en hinn leiðitami Steingrímur J leiði flokkinn og haldi í heiðri gildum sem flokkurinn hefur haft svo mikið fyrir að koma sér upp.
Röggi
miðvikudagur, 30. september 2009
Hvaða leik er Ögmundur að leika?
ritaði Röggi kl 22:14 4 comments
Samfylking að tapa lykilstöðu sinni.
það er ekki auðvelt að vera í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. það var að sjálfsögðu vitað fyrirfram að verkefnin sem þurfti að ganga í yrðu hvorki auðveld né til vinsælda fallin. Flest þeirra hafa reyndar setið á hakanum og þau sem ráðist hefur verið í þannig unnin að samstarfið þolir ekki vinnubrögðin til lengdar ef samstarf skyldi kalla.
þetta hefur verið augljóst lengi og afsögn Ögmundar í dag er bara rökrétt framhald af því Samfylking getur ekki endalaust troðið skoðunum sínum og fyrirætlunum í kok VG án þess að eitthvað bresti. Vel má vera að ríkisstjórnin lifi þessa tilteknu orrahríð af það líf verður hvorki langt héðan ef né hamingjuríkt.
Samfylkingin er pikkföst og getur ekki fært sig til í einstefnu sinni í fang ESB og er á sjálfstýringu AGS og hlýðir í einu og öllu og ekki er pláss fyrir neinar efasemdir af hálfu samstarfsflokksins, stjórnarandstöðu né þjóðarinnar. Þetta þolir VG eðlilega ekki til lengdar og það jafnvel þó Steingrími líki vel stóllinn.
Þjóðin er að verða ESB mjög afhuga á meðan á þessu pólitíska ofbeldi í garð VG stendur og mér sýnist Samfylking vera að einangrast og að tapa lykilstöðu sinni. VG gefst upp á samstarfinu fyrr en seinna og þá er ekki í nein hús að vernda hjá Samfylkingu enda hefur flokkurinn sýnt að klækjapólitíkin skilar svo afskaplega litlu til lengri tíma.
Vinstra vorið er nú orðið að nöpru hausti og stutt í fyrsta snjóinn......
Röggi
ritaði Röggi kl 14:37 1 comments
Ríkisstjórnin á móti atvinnuuppbyggingu.
Núna þegar vinstri stjórnin er að ná að ljúka því að klúðra Icesave endanlega og forsætisráðherra hótar Steingrími ráðherrastólsmissi ef hann ekki lætur að fullu að stjórn svo gefast megi upp fyrir fáránlegum kröfum viðsemjenda okkar án viðnáms þá eru ráðherrarnir sumir að hamast við að berjast gegn atvinnuppbyggingu innanlands.
Viljayfirlýsingar ekki endurnýjaðar og margra ára ákvarðanir afturkallaðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ekkert af þessu kemur á óvart. Vinstri menn hafa alla tíð verið á móti stóriðju og virkjunum. Hér eru menn því sjálfum sér líkir.
Nú er að koma í ljós fyrir hvað þetta fólk stendur. Reyndar hefur það komið flatt upp á marga að sjá að VG stendur fyrst og fremst fyrir vilja til að halda ráðherrastólum þegar um Icesave og ESB er að ræða en í öðrum málaflokkum er flokkurinn að enn við sama heygarðshornið.
Stefið er kunnugt og mun verða augljósara með hverjum deginum þegar ráðherraranir fara að snúa sér að því að vinna vinnuna sína. Skattahækkanir og lántökur og svo lagst gegn atvinnuuppbyggingu ef hún heitir stóriðja eða útheimtir virkjanir.
Við höfum ekki efni á svona ríkisstjórn núna. Fanatíkin sem oft hefur einkennt þá sem eru á sjálfstýringunni í andstöðunni við allt sem heitir iðnaður er bara hlægileg núna ef ekki hreinlega skaðlegt.
Á hverju eigum við að lifa hér og hvernig snúum við blaðinu við? það er auðvitað góðra gjalda vert að ráðherrar þvælist á kvikmyndahátíðir og hlaupi til útlanda með umsókn um aðild að ESB en það leysir ekki vandann. Núna þurfum við að nýta auðlindir okkar og landsins gæði og byggja upp sjálf.
Þetta skilja bara ekki allir og brátt mun þjóðin læra að skilja að þessi stjórn sem nú situr er ekki á vetur setjandi í góðæri og hvað þá í hallærinu sem við nú sitjum í.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:15 2 comments
föstudagur, 25. september 2009
Vék hún sæti?
Var að velta því fyrir mér hvort formaður Blaðamannafélags Íslands hafi vikið af fundi þegar það fína félag ályktaði um uppsagnir á Mogganum eða er slík fagmennska bara fyrir aðra en hana sjálfa?
Röggi
ritaði Röggi kl 10:21 4 comments
fimmtudagur, 24. september 2009
Mogginn má reka fólk og ráða.
Mogginn er búinn að reka fólk og það sem meira er. Hann rak líka ritstjórann og ætlar að fá sér nýjan. Og allt ætlar um koll að keyra hjá sumum sem sjá skoðanakúgun í þessu. Einhver sé rekinn vegna skoðana sinna. Formaður blaðamannafélagsins er látin fara og vinstri menn ganga af göflum sínum enda á hún auðvitað að fá að vera á Mogganum vegna skoðana sinna...
Eigendur Moggans hafa frá upphafi lýst því yfir að þeir myndu hafa skoðanir á ritstjórnarstefnu blaðsins. Það er heiðarleg nálgun gagnvart lesendum öfugt við aðra sem hér eiga fjölmiðla og þykjast hreint ekki hafa neina skoðun á því hvað þar er til umfjöllunar né heldur hverjir ráða þar húsum.
Þeir sem nú garga hæst á torgum eru auðvitað bara að því vegna þess að þeir eru ósáttir við skoðanir þeirra sem eiga Moggann. Fólk sem hefur ekki haft neina skoðun á því til þessa hvernig aðrir fjölmiðlar hafa verið notaðir til að stjórna almenningsáliti heillar þjóðar í heilann áratug meðan eigendurnir fóru ránshendi um þjóðfélagið fer nú af stað. Og af hverju?
Ekki vegna grundvallarskoðana á eignarhaldi og rekstri fjölmiðla. Heldur meira vegna þess HVERJIR hér eiga í hlut. Slíkt tal er ónýtt í þessari umræðu en var þó viðbúið og er í reynd skoðanakúgun í vissri mynd.
Ég held þó að engin lög komi í veg fyrir að eigendur geti ráðið og rekið fólk. Mogginn má verða argasta íhaldsblað og hvað eina ef eigendum hans finnst það gott. Ég veit ekki til þess að þeir sem andæfa nú hafi haft háværar skoðanir á mannaráðningum hvorki á Fréttablaðið né DV eða stöð 2. Hvernig stendur á því?
Munurinn er að eigandi hinna fjölmiðlanna kannast ekki við glæpinn en eigendur Moggans ljúga engu. Fáir munu efast um hvað Mogginn meinar þegar Davíð Oddsson tekur við blaðinu. Af hverju það er talinn glæpur en ekki hin svívirðan er mér hulin ráðgáta. Af hverju er óeðlilegt að eigendur Moggans skipti út ritstjóra í stað þess að gera eins og eigandi DV gerir, að leikstýra ritstjórum eftir behag? Man einhver eftir upptökunum hans Reynis Traustasonar?
Fyrir mér er þetta sáraeinfalt. Eigendur Moggans eru að iðka heiðarlega fjölmiðlun og upplýsta og það hentar ekki skoðunum sumra sem fara að æpa um skoðankúgun en þjást einmitt af slíku sjálf. Fjaðrafok núna snýst um að verið er að segja "réttu" fólki upp og ráða "rangt".
Fóknara er það nú ekki.
Röggi
ritaði Röggi kl 14:46 3 comments
Á rás fyrir Grensás.
Ég er einn af þeim fjölmörgu sem hef kynnst starfseminni á Grensás af eigin raun. Ég hef áður skrifað um þá reynslu og geri það aftur nú af því tilefni að nú stendur yfir metnaðarfull söfnun fyrir Grensás.
Ég veit vel að nú kreppir að og niðurskurður er óhjákvæmilegur í heilbrigðisgeiranum en ég vona svo sannarlega að eintaklingar og fyrirtæki geti lagt af mörkum fyrir Grensás því þarna er verið að vinna algerlaga magnað starf fyrir fólk sem hefur sumt litla sem enga von um fullan bata.
Aðstaðan og kjörin sem eru í boði fyrir starfsfólk og sjúklinga á Grensás eru til skammar og þó ég óski engum þess að þurfa að dvelja þar hvorki sem aðstandendur eða sjúklingar þá liggur við að best væri að skylda hvern mann til að eyða tveimur dögum með fólkinu sem þar dvelur og starfar.
Þangað kemur fólk sem breytist úr þvi að vera fullgildir þjóðfélagsþegnar í það að verða mismikið ósjálfbjarga og eða fatlað og hver maður getur reynt að setja sig í spor þeirra sem í þeirri stöðu lenda og þeim átökum sem því fylgja.
Gefum okkur öllum nýja og betri aðstöðu fyrir þá sem þurfa á Grensás að halda. Enginn verður samur eftir að hafa dvalið á Grensás. Það á bæði við um sjúklinga og aðstandendur og þar lærir maður að ekkert er sjálfgefið.
Röggi
ritaði Röggi kl 09:58 0 comments
þriðjudagur, 22. september 2009
þórólfur og skattahækkanir.
Ég datt inn í viðtal sem tekið var við Þórólf Matthíasson hagfræðing í speglinum. Þar fór hann með gamla galdraþulu vinstri manna af mikilli innlifun um að ekki sé hægt að bregðast við efnahagsþrengingum með öðru en skattahækkunum. Og komst að því að ekki myndi gagnast að spara hjá ríkinu vegna þessa að fólk sé með svo langan uppsagnarfrest....
Neysluskattar skal það heita og ekkert annað svo við getum nú alveg örugglega lagt alla neyslu af með þeim afleiðingum að atvinnulif lamast og skatttekur ríkissins minnka. Og svo skal hræða liftóruna úr öllum með því að leggja saman ráðdeild í rekstri og meðferð opinberra fjármunu og atvinnumissi þeirra sem hjá ríkinu starfa.
Þetta er þulan sem verður lesin ofan í okkur þegar vinstri stjórnin byrjar að seilast í vasana okkar. Skattar og aftur skattar en ekki hægt að skera niður. Og svo verður klæmst á orði eins og frelsi á meðan öllum okkar málum verður komið í hendur stjórnmálamanna sem eru í óða önn að koma okkur á kaldari klaka en við þurftum að vera á nú eða þá að gera ekki neitt sem er kannski bara betra en það sem gert er.
Ekki lýst mér á það
Röggi
ritaði Röggi kl 11:30 5 comments
föstudagur, 18. september 2009
Valur vængjum þöndum
Ég er stoltur Valsmaður og hef alltaf verið. það er óháð árangri hingað til og verður það áfram. Ég þekki félagið mitt innanfrá og eyddi mörgum árum í vinnu þar og félagsstörf og hafði gott af enda Valur öndvegis félag í öllu tilliti. Körfubolti er mín grein en fótbolti er þó flaggskip félagsins hvað sem tautar og raular.
Ég er meira og minna hættur að átta mig á hvernig knattspyrnudeild félagsins er rekin og ákvarðanir sem þar eru teknar vekja sífellt meiri furðu hjá mér og vísast miklu fleirum. Þjálfarar og leikmenn koma og fara ótt og títt og nú tók steininn úr þegar við Valsmenn réðum okkur þjálfara fyrir næsta tímabil.
Vonandi eru góðar ástæður fyrir því að þeirri ráðningu var þannig fyrirkomið að menn eru liggja sárir á öllum endum þess máls en þær ástæður blasa ekki við mér. Atburðarásin sem fór af stað er mér með öllu óskiljanleg enda er helst að sjá að Valur hafi lagt ofurkapp á að það upplýstist strax að nýr þjálfari tæki við að afloknu tímabili.
Hver tilgangurinn með því er er mér hulin ráðgáta. Það eyðileggur það sem eftir er af tímabili Valsmanna í einu og öllu og gerir núverandi þjálfara gersamlega ólíft að sinna vinnu sinni til loka. Og nýji þjálfarinn hrökklast frá frábæru tímabili hjá sínum gamla vinnuveitanda nánast með skömm.
Kannski eru á þessu óbirtar skýringar sem bæta stöðu Valsmanna í þessari mynd. Þetta er þó bara ein af nokkuð mörgum ákvörðunum íllskiljanlegum sem knattspyrnudeild félagsins hefur tekið á síðustu misserum sem ég bara skil ekki og hélt ég þó að ráðning tvíburanna til félagsins nú um mitt sumar hefði verið eitthvað sem ekki væri hægt að toppa.
Stöðugleiki og reisn skiptir máli og mér finnst hvorugt einkenna framgang knattspyrnudeildar Vals nú um stundir. Skyndilausnir og töfrabrögð blandað saman við kaupæði er ekki það sem félagið á standa fyrir, nágrannar okkar hinu meginn við lækinn eru búnir að fullreyna það.
Mér sýnist helst að menn hafi steingleymt orðum séra Friðriks sem eru þó ógleymanleg og eiga sífellt við.
Látið kappið ekki bera fegurðina ofurliði.
Röggi
ritaði Röggi kl 11:23 3 comments
fimmtudagur, 17. september 2009
Hún er samt ekki að standa sig
Þá er búið að ræsa út lið til að telja þjóðinni trú um að Jóhanna Sigurðardóttir sé að standa sig í stykkinu. Hrannar aðstoðarmaður ritaði merka grein þar sem hann sagði að víst væri hún til staðar og gengi til verka dag hvern og hefði gert í marga mánuði. Ég held að enginn sé að tala um að Jóhanna sé slöpp að mæta til vinnu en það er bara ekki það sama og að standa sig í vinnunni.
Hver maður sér að hún er ekki sá leiðtogi sem spunasnillingar Samfylkingar töldu hana verða. Hún er bara á röngum stað á rándýrum tíma fyrir okkar þjóð. Við þurfum meira en bara góðhjartaðan embættismann sem finnst best að vinna sín mjúku störf í kyrrþey. Nú um stundir er ekki mikið um mjúk störf í boði fyrir forsætisráðherra. Núna þurfum við sterkan leiðtoga með sannfæringarkraft sem nær út fyrir veggi stjórnaráðsins.
Hann þarf ekki endilega að vera haldinn fjölmiðlasýki eins og Ólína Þorvarðardóttir talar um en fjölmiðlafælni er án efa ekki valkostur í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það er held ég hverjum manni alveg ljóst að það er hluti af skyldum forsætisráðherra að sinna samskiptum við erlenda leiðtoga og erlendum fjölmiðlum og líklega aldrei sem nú. það einfaldlega ræður Jóhanna ekki við alveg sama hversu oft okkur verður sagt eitthvað annað.
Röggi
ritaði Röggi kl 12:41 1 comments
föstudagur, 11. september 2009
Ætlar ríkisstjórnin að styðja nýtingu auðlinda?
Mikið verður gaman að sjá hvernig vinstri stjórnin tekur á sameiginlegum hugmyndum SA og verkalýðshreyfingar um stóryðju og virkjanir. Ríkisstjórnin hefur einna helst séð lausnina í tómum vösum skattgreiðenda bæði einstaklinga og atvinnulífs. það hefði auðvitað ekki átt að koma nokkrum manni á óvart.
Ef Steingrímur og Ögmundur réðu værum við öll skattpíndir ríkisstarfsmenn í umsjá þeirra sjálfra. Það má ekki verða enda þótt misheppnað regluverk og eftirlit og meingallaðir einstaklingar hafi komið óorði á frelsi einstaklingsins.
Vonandi vakna stjórnvöld af mjög værum blundi sinum og taka til við að hlusta á þá sem finna hitann af atvinnuleysinu og aðgerðaleysinu og vanefndu loforðunum. Og kannski stefnir enn á ný í að VG verði að kokgleypa grundvallarsjónarmið sín um að ekki megi fyrir nokkurn mun koma upp stóryðju eða nýta auðlindir þjóðarinnar.
Röggi
ritaði Röggi kl 12:23 2 comments
fimmtudagur, 10. september 2009
Engu logið upp á Jón Ásgeir.
Ég er auðvitað búinn að blogga fullmikið um fjármáladólginn Jón Ásgeir og hans viðskipti alveg frá því að hann keypti sig með peningunum okkar í gegnum allt Íslenska réttarkerfið í Baugsmálinu forðum. Sú saga er öllum kunn í dag og margir þeir sem vörðu hann þá ýmist læðast með veggjum laumulegir eða hafa tekið nýja trú og garpar eins og Hallgrímur Helgason og Egill Helgason tala nú um Baugsmiðla enn það orð var bannorð á tímum tjónkunarinnar við Jón Ásgeir.
Blessaður drengurinn er í viðtali í viðskiptablaðinu í dag og eins og áður get ég ekki orða bundist. Þar biður hann fólk um að hafa ekki áhyggjur af afkomu sinni en hann kannski veit ekki að eini maðurinn sem hefur haft áhyggjur af honum er pabbi hans sem lét blaðið sitt (DV) taka við sig viðtal þar sem hann lýsti þessum áhyggjum brúnaþungur. Við hin vitum að eitthvað er líklega enn til á hlaupareikningnum góða á Tortola....og víðar.
Karlgarmurinn er auðvitað orðinn háður því að geta stjórnað allri umræðu um sig og lætur alla óritskoðaða umræðu um sig fara í taugarnar á sér bæði þá nafnlausu og hina. Hann er sjálfur sérfræðingur í nafnleysi og sjónhverfingum hvort heldur það er í gegnum fjölmiðla sína eða skúffufyrirtæki og falin og ekki falin eignatengsl og ekki Tortola, ekki 365 ehf eða Rauðsól eða 1998 eða.....
Ég vona að Jón Ásgeir haldi áfram að láta taka við sig viðtöl því hvert og eitt einasta viðtal við hann styrkir fólk í trúnni um hverskonar siðferði býr innra með honum. Þá trú þarf nefnilega að styrkja þvi enn er merkilega mikið til af fólki sem telur að vondur maður hafi logið öllu upp á piltinn.
En það var engu logið upp á hann Jón Ásgeir.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:50 3 comments
Feluleikir Jóhönnu
Í samanburði við Jóhönnu Sigurðardóttur virðist rólegheita maðurinn Geir Haarde hreinlega vera ofvirkur aktivisti. Jóhanna er hvergi og talar hvorki við útlendinga né sína eigin þjóð. Nú er upplýst að hún vilji halda sig til hlés til að sinna undirbúningi ríkisstjórnarfunda og af þeim sökum má hún ekki vera að því að ræða við fjölmiðlamenn sem tala útlensku. Þetta er þvi miður ekki tekið af baggalútur.is.
Jóhanna ræður bara ekki við djobbið og það þarf ekki franska sjónvarpsmenn til að segja okkur það. Hún hvorki sinnir hvorki samskipta hluta starfsins né þeim bráðavanda sem lofað var að sinna af krafti ef bara kjósendur segðu já.
Á sama tíma og talað er um að við þurfum að bæta ímynd okkar erlendis er forsætisráðherra í felum fyrir erlendum fjölmiðla og stjórnmálamönnum, Reyndar lýstu hún því yfir um daginn að hun myndi ræða við forystumenn Breta og Hollendinga ef þörf væri á. Þetta var ekki grín heldur....
Með fullri virðingu fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur þá hefur það verið augljóst nánast frá fyrsta degi eftir skrautsýninguna á landsfundi Samfylkingar þegar hún var klöppuð upp eftir að menn höfðu nöldrað í henni mánuðum saman að taka þetta að sér að hún einfaldlega ræður ekki við verkefnið enda vildi hún aldrei taka það að sér. Það var bara gott plott á þeim tíma.
Hún tók að sér að leiða flokkinn í gegnum kosningar og ná í atkvæði út á sitt góða orðspor og allt gott um það að segja þannig séð en nú er þetta að verða gott, er það ekki? Núna þurfum við alvöru forsætisráðherra sem ekki vill vera í felum og kyrrþey á erfiðustu tímum í okkar sögu.
Röggi
ritaði Röggi kl 09:39 0 comments
föstudagur, 4. september 2009
Mörður reynir að flýja söguna.
Félagi Mörður Árnason bloggar um fölmiðlalögin og þann farsa allan, líklega af því tilefni að nú ryfjast upp fyrir mörgum það reginhneyksli að forseti vor skyldi ganga undir auðmenn og Samfylkingu á sínum tíma til að koma í veg fyrir að talmarka mætti heljartök þeirra á fjölmiðlum.
Félagi Mörður notar gamalkunnugt stef og tuðar um bláa hönd og Davíð en þessi söngur síendurtekinn varð í hugum margra staðreyndin eina þó að æ fleirri sjái orðið í gegnum reykinn í dag. Gaman að sjá að bloggarinn kannast við að nóg sé að endurtaka þvæluna nógu oft til að hún taki á sig mynd sannleikans í huga fólks því engin saga hefur líklega verið sögð eins oft í fjölmiðlum þjóðarræningjanna og í innblásnum ræðum þingmanna Samfylkingar eins og sagan um bláu höndina og Davíð. Félagi Mörður getur verið glöggur á stundum þó söguskýring hans hér hitti hann sjálfan all duglega.
Röksemdin um að frumvarpið hafi beinst gegn einu ákveðnu fyrirtæki er marklaus og heldur hvorki vindi né vatni. Með sama hætti gætu eiturlyfjasmyglarar sagt að löggjöf um innflutning á eiturlyfjum bendist gegn þeim einum og væru því ólög. það var ekki öðrum til að dreifa á þessum markaði og því eru þessi rök klár brandari og undirstrika í raun þörfina á lögum.
En Samfylkingin kaus að grípa þetta allt á lofti og fórna hagsmunum almennings sem svo sannarlega hefði átt það skilið í ljósi sögunnar að tekist hefði að takmarka getu þessarra manna til að stjórna almenningsálitinu í gegnum fjölmiðlana sína. Þessa sögu mun félagi Mörður og Samfylking ekki geta flúið.
Og það er að renna upp fyrir honum og fleirum og þá er gripið til gamalla úrræða og bragða sem gengu svo lengi í þjóðina. Jón Ásgeir reyndi þetta sama um daginn og varð að athlægi á flóttanum undan sjálfum sér og verkum sínum.
Og það sama mun gerast hjá þeim öðrum sem gengu til liðs við þessa menn. Einungis spurning um hvenær en ekki hvort en við lestur greinarinnar sýnist mér það verða mun fyrr en seinna.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:35 8 comments
miðvikudagur, 2. september 2009
Ólafur Ragnar
Þá er blessaður forseti vor búinn að setja stafina undir lögin um Icesave. það var viðbúið og gott og rétt hjá honum enda á forsetinn ekki að taka fram fyrir hendur þingsins, að mínu viti. Sá forseti sem nú situr hefur sýnt okkar það svo að sífellt færri efast um það lengur að ákvæðið um málskotsrétt forseta er óþarft ef ekki hreinlega varasamt þegar verst lætur.
Ég er í prinsippinu á móti því að einn maður hafi þann rétt sem málskotsrétturinn er og það jafnvel þó embættið væri betur skipað en nú er. það er lýðræðislegt að þingið fjalli um mál og komist að meirihlutaniðurstöðu.
Kannski finnst mörgum málskotsrétturinn alger snilld og nauðsynlegur öryggisventill ef svo bagalega vildi til að rúmlega 30 þingmenn yrðu allt í einu óvenju bilaðir og settu yfir okkur slík ólög að ekki yrði undan því vikist að neita að skrifa undir. Ég er bara ósammála samt og tel að embættisfærslur Ólafs Ragnars í málskotsréttarmálum sanni mitt mál.
Mér er í raun nákvæmlega sama hvort það var vegna pólitískrar fötlunar eða af einhverjum öðrum annarlegum hvötum sem hann taldi sig þurfa að neita undirskrift fjölmiðlalaganna á sínum tíma. Þá notaði han rök sem eiga betur við núna auk þess sem það sem nú var til undirskiftar er sennilega eitt stærsta mál sem til undirritunar hefur komið frá upphafi vega.
Af hverju forsetinn skrifar undir núna en ekki þá er óútskýrt og óskiljanlegt með öllu ef hann hefur á annað borð minnsta áhuga á að láta taka sig alvarlega. Ólafur Ragnar tók rétta ákvörðun núna í grundvallaratriðum en það gerði hann alls ekki þegar hann neitaði fjölmiðlalögunum. Og í hvorugt skiptið eru ákvarðanirnar byggðar á sannfærandi rökum.
Hann var ekki kosinn til pólitískrar varðgæslu eða undanlátsemi við kaupahéðna sem létu hann og hans fólk fljóta með í einkafarkostum sínum veðsettum í framtíð barna okkar.
Ólafur Ragnar er að fara langt með að eyðileggja embættið og líklega hefur fylgi við að leggja það niður aldrei verið sterkara. Það verður arfleifð Ólafs Ragnars...
Röggi
ritaði Röggi kl 20:08 2 comments