fimmtudagur, 24. september 2009

Á rás fyrir Grensás.

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem hef kynnst starfseminni á Grensás af eigin raun. Ég hef áður skrifað um þá reynslu og geri það aftur nú af því tilefni að nú stendur yfir metnaðarfull söfnun fyrir Grensás.

Ég veit vel að nú kreppir að og niðurskurður er óhjákvæmilegur í heilbrigðisgeiranum en ég vona svo sannarlega að eintaklingar og fyrirtæki geti lagt af mörkum fyrir Grensás því þarna er verið að vinna algerlaga magnað starf fyrir fólk sem hefur sumt litla sem enga von um fullan bata.

Aðstaðan og kjörin sem eru í boði fyrir starfsfólk og sjúklinga á Grensás eru til skammar og þó ég óski engum þess að þurfa að dvelja þar hvorki sem aðstandendur eða sjúklingar þá liggur við að best væri að skylda hvern mann til að eyða tveimur dögum með fólkinu sem þar dvelur og starfar.

Þangað kemur fólk sem breytist úr þvi að vera fullgildir þjóðfélagsþegnar í það að verða mismikið ósjálfbjarga og eða fatlað og hver maður getur reynt að setja sig í spor þeirra sem í þeirri stöðu lenda og þeim átökum sem því fylgja.

Gefum okkur öllum nýja og betri aðstöðu fyrir þá sem þurfa á Grensás að halda. Enginn verður samur eftir að hafa dvalið á Grensás. Það á bæði við um sjúklinga og aðstandendur og þar lærir maður að ekkert er sjálfgefið.

Röggi

Engin ummæli: