þriðjudagur, 15. desember 2009

Álfheiður laus við iðrun

Álheiður Ingadóttir sér sko ekki eftir því að hafa stutt lýðinn sem reyndi með ofbeldi að ráðast inn á lögreglustöð til að "frelsa" einstakling sem hafði verið handtekinn í mótmælum á síðasta ári.

Enda hafi þetta allt borið árangur. Konan ruglar með hugtök og skilur ekki grundvallar reglur réttarríkisins. Hún telur að það sem hún kallar borgaraleg óhlýðni sé dyggð en borgarleg hlýðni sé skraut eða eitthvað ofan á brauð. Tilgangurinn helgar alltaf meðalið.

Hún tilheyrir hópi tækifærissinna sem telur að mótmæli eða stuðningur við tiltekinn málsstað veiti sjálfkrafa rétt til lögbrota bæði gegn valdstjórninni og öðrum borgurum. Ég hef aldrei skilið hvernig málsstaður það er sem krefst þess að fólk beiti ofbeldi. Ghandi er gleymdur hjá þessu fólki.

Látum vera að fólk safnist saman og brenni Norsk jólatré eða öskri sig máttlaust í reiði. Auðvitað má ekki með nokkrum hætti hefta rétt borgarana til að tjá skoðanir sínar hvort sem er í stærri hópum eða smærri enda er það ekki gert hér á landi, öðru nær.

En það má gera kröfu um að fólk virði líka rétt annarra til að hafa aðra skoðun. Og það má líka gera kröfu til þess að menn brjóti ekki gegn lögreglunni sem ekki gerir annað en að vinna vinnu sína. þetta er ekki frekja og þessar kröfur ganga í engu gegn rétti fólks til að tjá skoðanir sínar.

Fólk sem telur að ofbeldi bæti málsstað sinn er á villigötum. Og fólk sem telur eðlilegt að trylltur lýður ráðist inn á lögreglustöð er algerlega óhæft til að gegna trúnaðarstörfum fyrir mig. það liggur ekki í því að við Álfheiður Ingadóttir erum á sitthvorum kantinum í pólitík. Það liggur í grundvallaratriðum sem enginn vill í raun fórna. Nema þegar það hentar og þá aðeins um stundarsakir...

Álfheiður Ingadóttir er ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Röggi

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þeir sem að ná völdum með ofbeldi, stjórna með ofbeldi.

Nafnlaus sagði...

Lára Ómarsdóttir þurfti að segja upp á stöð2 fyrir að eggja ungmenni í að kasta eggjum í lögguna uppi á norðlingaholti í fyrra. Það er skrýtið að fréttakona á jafn vafasömum miðli og stöð2 komist ekki upp með svona æsingar, ef þingkona getur sloppið með þetta. Munurinn er sá að í dag eru fjöldi lögreglumanna sem enn hafa ekki náð sér eftir lætin.

Það hlýtur að vera skýlaus krafa landssambands lögreglumanna, að ráðherrann segi af sér hið fyrsta úr því hún er búin að játa glæpinn. Við getum ekki haft þessa konu í vinnu fyrir okkkur lengur.

Nafnlaus sagði...

ofbeldi á sér margar birtingamyndir og það ofbeldi sem þessi þjóð hefur verið beitt af vankunnandi og hrokafullum stjórnmálamönnum á sér varla hliðstæðu. Hættulegastir eru samt þeir sem fylgja pólitíkinni í blindni, eru í liði og réttlæta stöðugt aðgerðir "sinna manna". Ég leyfi mér að flokka þig í þann hóp. Þú upplifðir kannski ekki þá tilfinningu að vera óöruggur,hræddur ,örvæntingafullur og reiður þegar "þínir menn" voru búnir að rústa orðspori og sjálfstæði þessa lands. Nei, í þínum huga var örugglega allt í lagi enda "rétta fólkið" við stjórnvölin og lýðurinn að mótmæla. Auðvitað er það ekki gott að lögreglumenn slasist við skyldustörf. Ekki frekar en hermenn og slökkviliðsmenn. En ef það var einhverntíman réttlætanlegt að öskra, mótmæla og sýna borgaralegra óhlýðni þá var það á þessum tíma. En úpps, það myndir þú ekki gera...því þú ert jú í liði og þá standa menn saman.

Nafnlaus sagði...

Þú ert magnaður Rögnvaldur. Þú hefur greinilega ekki lesið neitt um þetta mál. Einhver hefur einfaldlega forritað hvað þú átt segja og þannig er það þá. Álfheiður hefur rétt til að mótmæla eins og þú og allir hafa rétt á að mótmæla ef viðkomandi finnst á þá hallað, eða hvað það er sem um er að ræða. Að halda því fram að Álfheiður hafi stutt ofbeldi með því að mótmæla er hreint bull. Það að einhver hluti mótmælanda hafi gripið til ofbeldis þýðir ekki að allir mótmælendur séu ofbeldismenn, eða að allir mótmælendur styði ofbeldi.

Nafnlaus sagði...

Að hún hafi stutt, og segist ekki iðrast þess að hafa stutt, innrás á lögreglustöð er fyrir neðan allar heimsins hellur. Það kemur pólitískri skoðun hennar eða Rögga ekkert við.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur 2. Gunnarsson

Góður og dagsannur pistill.

Komment no. 2 segir allt sem segja þarf um fáránleika málsins og konunnar. Ef að einhver stuðningsmaður ofbeldisins og hennar getur svarað og hrekið það sem þar kemur fram með vitrænum rökum, þá tek ég hattinn ofanaf fyrir viðkomandi.

Einar Karl Friðriksson sagði...

Hefur Álfheiður sagt að hún taldi "eðlilegt að trylltur lýður ráðist inn á lögreglustöð"?

Eða hefur þú einhverjar aðrar heimildir fyrir þessari fullyrðingu?

Ég held að þessi pistill þinn sé á misskilningi byggður.

Nafnlaus sagði...

Af hverju er Röggi ekki búinn að kæra Álfheiði fyrir "glæpinn" sem hann ber henni á brýn?

Hvílík kokhreysti.