miðvikudagur, 2. desember 2009

Ráðherraábyrgð og kerfisvandi.

Nú styttist í skýrslu rannsóknarnefndar þingisins. Flest berum við miklar væntingar til þessarar vinnu og margir vilja sjá blóð renna í kjölfarið. Menn tala um ráðherraábyrgð og hvort einhverjum ráðherrum verði hugsanlega refsað fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi.

Þá kemur til kasta þingsins en nefndin er ekki dómstóll eins og margir virðast halda. Þingið mun þurfa að taka ákvörðum um þetta efni. Dettur einhverjum í hug að þingið ráði við það? Líklega ekki en vilja menn spyrja af hverju?

það er vegna þess að framkvæmdavaldið ræður ríkjum í þinginu en það er einmitt þetta sama framkvæmdavald sem hugsanlega þarf að refsa. Löggjafinn sem þarf að komast til botns í því hvort ráðherrar skuli sæta ábyrgð mun ekki eiga nokkra möguleika á því vegna þess að ráðherrar núverandi og fyrrverandi munu hefja styrjöld ásakana í þinginu með öllu tilheyrandi.

Og enginn verður þá niðurstaðan önnur en sú að virðingin fyrir þessari afgreiðslustofnun ráðherranna mun minnka enn frekar ef til þess er þá enn eitthvert svigrúm. Og enginn sætir ábyrgð.....

Allt ber að sama brunni þegar við ræðum um þingið okkar, þessu gömlu og virtu stofnun. Við verðum að fara að þrískipta valdinu eins og stjórnarskráin kveður á um og koma framkvæmdavaldinu út úr þinginu og út úr ákvörðunum sem það á ekki að véla um.

Við getum skipt út persónum og leikendum frá einum kosningum til annarra en kerfisvandinn hverfur ekki við það.

Er ég eini maðurinn sem sér þetta?

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það væri mjög auðvelt að kjósa framkvæmdavaldið sérstaklega - annað hvort með svipuðu sniði og í BNA eða með listakosningu. Þá myndi þingið virka sem raunverulegt aðhald fyrir framkvæmdavaldið.

Nafnlaus sagði...

Nei þú ert ekki sá eini sem sérð þetta. Þetta er ein ástæða þess að við Framsóknarmenn viljum kjósa stjórnlagaþing sem breytir leikreglunum í samfélaginu. Þing sem er alvöru þing en ekki einhvern klúbb sérfræðinga og embættismanna sem nærast á núverandi kerfi.

Við þurum alvöru stjórnlagaþing.
GVald.