mánudagur, 29. mars 2010

Pirringur Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir hefur auðvitað rétt fyrir sér þegar hún lýsir VG sem óstjórntækum. Hún er að burðast með ráðherra sem eru andsnúnir meginstefnu stjórnarinnar í stórum málum. það getur ekki verið auðvelt en kemur þetta nokkrum á óvart?

VG þykir eðlilegt að hver maður gati haldið í sérafstöðu í stórum málum og smáum og sett fram úrslitakosti gagnvart samstarfsflokknum og ríkisstjórn. þannig stjórnmál eru vonlaus og þreytandi enda nauðsynlegt að geta útkljáð mál og komist að niðurstöðu innanflokks. Af hverju geta aðrir flokkar gert það?

Samfylking hefur áhyggjur af stjórnandstöðunni og frúin eyðir miklu púðri í hana á meðan þjóðin er svefnlaus af áhyggjum af hennar eigin frammistöðu. Óbilgjörn og heimsk stjórnandstaða hefur reyndar komið merkilega miklu góðu til leiðar ef út í það er farið...

það verður þó ekkert af þessu sem endanlega fær þessa ríkisstjórn til að skilja að hennar tími er kominn og löngu farinn. Fullkominn ágreiningur í brýnustu málum og almennt sundurlyndi mun ekki duga til að þetta fólk yfirgefi stólana.

Fjárlagagerðin fyrir 2011 mun ganga af VG dauðum enda þarf þá að skera niður. Meira að segja hinn kjaftagleiði Indriði H verður orðinn uppiskroppa með tillögur að skattahækkunum og þá er ekkert eftir af efnahagspólitík VG.

Þangað til mun pirringshjal forsætisráðherra verða umborið líkt og Samfylking umber óstjórntæka vinstri græna. Skákin er í bið en endataflið langt komið.....

Röggi

Engin ummæli: