miðvikudagur, 28. apríl 2010

Sargið í jonasi

Sumir hafa dálítið gaman að jonasi Kristjánssyni. jonas þessi hefur meðal annars unnið sér það til frægðar hin seinni ár að ritstýra einni af dapurlegustu útgáfum af DV sem menn muna eftir og er þar þó af nægu að taka. Eftir að hann hætti því tók hann að blogga af miklum móð og þolir engum athugasemdir við skrifin. Skynsamleg ákvörðun það reyndar....

Í dag skrifar hann handónýtan pistil sem ritstjórn Eyjunnar virðist þó telja merkilegt innlegg í pólitíska umræða dagsins af einhverjum ástæðum. Þar sargar jonas sama gamla guðspjallið um stjórnarandstöðuna og Icesave en karlinn telur að Framsókn og Sjálfstæðis eigi ekki að hafa skoðanir heldur bara að skammast sín.

Fortíðin skiptir auðvitað máli en það gerir nútíðin líka og stórnarandstaðan á að vera stjórninni aðhald. Það eru stjórnmál 101 en vefst þó fyrir jonasi.

það er mun minni frétt að Sigurður Kári hafi nefnt Icesave í þinginu en daglegt vandræðaástand stjórnarinnar við uppbygginguna sem lofað var. Það úrræðaleysi hefur ekkert með stjórnarandstöðuna að gera. Fréttamatið hans jonasar svíkur ekki...

Öllum er frjálst að gera athugasemdir við þennan pistil minn.

Röggi

Fjármál og pólitík

Fjármál og pólitík. Stórhættulegt samband og vandmeðfarið og við hér á okkar litla landi kunnum svo lítið að setja okkur reglur utan um þetta. Minn flokkur hefur lengi viljað hafa allt leyndó í þessum efnum og það hef ég aldrei verið mér að skapi.

það er beinlínis óhollt og hættulegt að hafa ekki allt upp í borðum í þessum efnum. Ég fæ reyndar ekki betur séð en að hinir flokkarnir ef VG er undanskilið hafi engan alvöru áhuga á að opna bækur sínar og skikka sig og sitt fólk til almennilegra vinnubragða og umgengni við peningastyrki sem sumir kalla reyndar mútur af tómum misskilningi.

Sérlega er gaman að fylgjast með stjórnmálamönnum engjast um þessa dagana með styrki upp á stórfé á samviskunni. Flokkarnir afneita þeim meira og minna og mér finnst það ósanngjarnt. Þetta kerfi var við lýði og allir vissu það þó ábyrgð hvers og eins sé auðvitað til staðar og ekki umflúin.

Auðvitað er alltaf spurning hvar á að setja núllpunktinn og byrja upp á nýtt. Steinunn Valdís fann skemmtilega leið og setti pressu á þingið með því að tala um að ef hún færi niður færu allir á þingi með henni. Snilldarflétta sem gæti jafnvel gengið upp....

Annars er mórallinn þannig í dag að þingmenn mega helst ekki hafa verið í rekstri og þeir mega alls ekki hafa fengið lán í bönkum. það er auðvitað of langt gengið og réttlát reiðin má ekki koma í veg fyrir að við gerum ekki greinarmun á réttu og röngu í þessum efnum.

Í mínum huga verður að byrja á að viðurkenna vandann og setja svo reglur um málið og banna leynd. Hálfvelgjan sem einkennir alla umræðu um þetta núna er auðvitað tilkomin vegna þess að flestir eru undir sömu sökina seldir.

Nú er stutt í næstu kosningar og tilvalið að gera þetta að einu stórmálinu og byrja svo upp á nýtt í þessu eins og svo mörgu öðru.

Röggi

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Sumarávarp Jóns Ásgeirs

Þeir ryðjast nú fram hver á fætur öðrum útrásarvíkingar og rita greinar um iðrun sína og eftrisá. Allar eiga þær það sameiginlegt þessar greinar að þar er enga iðrun að finna heldur miklu frekar svekkelsi yfir þvi að endir skuli bundinn á ránsherferð þeirra um eigur Íslendinga.

Jón Ásgeir gaf okkur fallegt sumarávarp í blaðinu sínu í dag. Hann getur vart á heilum sér tekið drengurinn ef eitthvað er að marka pistilinn. Og allt segist hann gera til að hjálpa til. En peninga á hann víst hvergi til....

Er þetta ekki maðurinn hennar Ingibjargar Pálmadóttur sem galdraði fram 1 000 milljónir svo drengurinn mætti eiga fjölmiðlana áfram? Þetta er gaurinn sem hótar því að opna nýja verslunarkeðju ef hann má ekki fá Haga aftur. Er þetta ekki strákurinn sem er í allskonar málaferlum við Íslensku bankana sem berjast af veikum mætti við að koma undir sig fótunum?

Þetta er náunginn sem færir "eignir" sínar hvort sem þær eru bílar eða fjölmiðlar á milli kennitala 5 sinnum á ári svo við komumst ekki í þær. Þessi gæi er að reyna að kaupa allt sem hann setti á hausinn hér heima aftur, og það á slikk. Stundum fær hann ótengdan aðila eins og konuna sína til að leppa fyrir sig, stundum pabba sinn eða útlendinga sem skulda bönkunum líka.....

Þetta gott fólk, er Jón Ásgeir sonur Jóhannesar Jónssonar. Sami gamli siðspillti maðurinn og hann hefur alltaf verið. Látið ekki blekkast gott fólk. Íslensk þjóð hefur gert það of lengi. Nú er mál að linni....

Röggi

miðvikudagur, 21. apríl 2010

Góði dátnn Jón Ásgeir

það eru ótrúlegar fréttir að hellast yfir þessa dagana. Einhver maður sem heitir Jón Ásgeir er víst bara bölvaður svikahrappur. Skatturinn ætlar að frysta eigur hans og þingnefnd hefur komist að því að hann er mesti bankaþrjótur sögunnar.

Hann hefur víst sett öll fyrirtæki sem hann hefur komið nálægt svo ótrúlega hraustlega á hausinn að annað eins hefur ekki sést. Grunur leikur á að hann sjálfur hafi hagnast gríðarlega á öllu saman.

þetta er mikil tíðindi því þessi maður hefur víst þurft að þola einelti árum saman af hendi vondra manna. Var meira að segja kallaður götustrákur einu sinni. þetta hljóta því að vera mistök eða misskilningur...

..vegna þess að þessi góði drengur er við það að kaupa Haga aftur fyrir slikk og konan hans ásamt nokkrum þöglum eigendum hefur að sögn önglað saman 1 000 milljónum svo hann geti átt fjölmiðlana sína áfram.

Ekki eru menn að greiða götu hans í dag ef þetta allt er rétt. Er það nokkuð? Hver stjórnar þessu eiginlega?

Röggi

þriðjudagur, 20. apríl 2010

Klappstýrur forsetans skipta um skoðun

Vinstri menn hvort heldur er á fjölmiðlum eða alþingi hamast nú á forseta vorum. Hefndin vegna Icesave svikanna verður greinilega aldrei næg fyrir þetta fólk. Reynt er að gera hlut Ólafs Ragnars í útrásareinkaþotudansinum að algeru lykilatriði.

Þeir sem hæst láta núna eru búin að gleyma því hvert var fyrsta góðverk Ólafs Ragnars fyrir útrásina. það var þegar hann gékk í lið með glæpahyskinu og kom í veg fyrir að koma mætti lögum um eignarhald á fjölmiðlum á. Hverjir gengu harðast fram með Ólafi þar spyr ég? Hvaða fólk hvatti klárinn í þá daga?

Klappstýrurnar hafa skipt um skoðun og kannst nú ekkert við sinn mann.....

Röggi

þriðjudagur, 13. apríl 2010

Gleymum okkur ekki í leðjuslag um pólitík

Það var svosem viðbúið að menn færu í skotgrafir og skiptust í lið eftir útkomu skýrslunnar. Menn halda með sínum og sjá allt hjá öðrum. Bloggarar eru flestir eins og liðið sem var kallað fyrir nefndina. þeir sjá enga ábyrgð hjá sínum. kannski er það bara eðlilegt....

það sem er ekki eðlilegt eru tilraunir manna til þess að reyna að finna stóru sökina hjá öðrum en bankaræningjunum. Gallað eftirlitskerfi og hálfónýt stjórnsýsla er glæpalýðnum sem rændi bankana okkar engin vörn. Vanþekking, vankunnátta eða vanmáttur kerfisins er æpandi í skýrslunni og er auðvitað hörmuleg niðurstaða. En...

...þeir sem sá ekki muninn á mistökum stjórnvalda, stundum heiðarlegum, og auðgunarþjófnaði eigenda bankanna eru í miklum vanda. Af því að það var hægt að fremja glæpinn er þá eðlilegt að hann sé framinn??

Ætlum við bara að hundelta vanhæfa opinbera starfsmenn og stjórnmálamenn sem stóðu vaktina ekki nógu vel en láta þá sem sitja uppi með peningafjallið sem við skuldum ganga lausa? Ég spyr?

Með hverjum standa þeir sem reyna að koma vörnum fyrir eigendur og stjórnendur bankanna með tali um að vegna þess að enginn sá glæpinn eða bannaði mönnum beinlínis að ræna bankanna að þá sé sökin ekki til?

Ég efast ekki um að Davíð og Jónas Fr og Geir og Ingibjörg og Björgvin G eða hvað þetta fólk allt heitir muni fá það sem því ber. Ég hef meiri áhyggjur af Jóni Ásgeir og Björgúlfum og bakkabræðrum og Kaupþingseigendum og því liði öllu. Hvers vegna er þetta fólk enn þar sem það er?

Gleymum okkur ekki svo í pólitískum leðjuslag að að við sjáum ekki hverjir græddu því ég get ekki séð að fólkið í opinberu stjórnsýslunni hafi gert sín mistök til að moka undir sjálft sig fjárhagslega. Gerum upp og lærum en munum það sem nefndarmenn segja.

það er fámennur hópur bankaræningja sem kom okkur á kaldan klaka. Þeirra er sökin og þeir högnuðust en allir aðrir tapa. Hættum að reyna að verja þetta lið með því að gera hrunið að pólitík.

Röggi

mánudagur, 12. apríl 2010

Áhrifamáttur fjölmiðla fyrr og nú

Margt hefur verið sagt um skýrsluna og margt er ósagt og ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja. Það síðasta sem Tryggvi Gunnarsson sagði í sjónvarpinu í kvöld fannst mér áhugavert. Hann minnti á að við öll hefðum tekið þátt eða verið með í hugsuninni sem var nauðsynleg bönkunum og eigendum þerirra. Þessu er ég sammála.

Og ég hef margsagt að einn mikilvægasti þátturinn í því að þjóðin tók dansinn með skúrkunum er að þeim voru tryggð yfirráð yfir fjölmiðlum og þar með réðu þessir aðilar almenningsálitinu og umræðunni. Geta einhverjir verið þessu ósammála nú?

Þessir að kónar höfðu engar áhyggjur af vonlausum rekstrartölum enda aðgengi að lánum og afskritum yfirdrifið. Í krafti fjölmiðla sinna og með stuðningi þeirra sem ekki vildu hreyfa við lögum um eignarhald á fjölmiðlum tóku þessir aðilar svo til óspilltra málanna.

það er svo umhugsunarefni af hverju þeim sem stjórna landinu núna hefur ekki dottið í hug að reyna að koma í veg fyrir að Jón Ásgeir eigi fjölmiðla sína enn á meðan Björgúlfur missti sína. það hljóta að vera fleiri en ég sem velta því fyrir sér....

Röggi

föstudagur, 9. apríl 2010

Broskallinn Jón Ásgeir

þetta var þá allt bara grín og glens. Jón Ásgeir er að grínast með okkur en við sjáum bara ekki alltaf grínkallinn fyrir aftan spaugið. þar liggur okkar vandi. Við föttum ekki grínið! Þessi mesti þjófur Íslandsögunnar ætlar að stefna þjóðinni fyrir mannorðsmorð á meðan við borgum reikningana hans.

Mér er eiginlega spurn. Hvenær ætlar þessi vesæla þjóð að sjá hvurslags maður hér er á ferð? Ég nenni ekki að reyna að muna hversu marga milljarða hann og hans fjölskylda og viðskiptafélagar hafa komið undan en þeir eru ófáir og við sættum okkur við málshöfðanir þessa fólks á hendur þeim sem um þau mál véla.

Þetta er gamla trixið sem gékk upp í baugsmálinu. Sókn er eina vörnin. Ráðumst að fóki sem hefur lífsviðurværi sitt af því að hafa upp á glæpamönnum og sjáum hvað þeir þola mikinn hita. Ef þjóðin ætlar enn einu sinni að kóa með þessum lýð þá er best að fara héðan.

Man einhver eftir því þegar Hreinn Loftsson reyndi að múta Davíð á sínum tíma? það var allt í hálfkæringi sagði skósveinninn þá þegar hann gafst upp á að reyna að ljúga því að það hafi hann reynt. Vinnubrögðin hafa allan tímann verið eins. það er bara núna sem sumir eru að sjá ljósið.

Tökum ekki þátt í gríni þessara manna lengur. Ég er kannski bara húmorslaus gaur en ég bara hef aldrei komið auga á spaugilegu hliðina á viðskiptum Jóns Ásgeirs og það er ekki vegna þess að ég hafi týnt broskallinum í sögunni....

Röggi

miðvikudagur, 7. apríl 2010

Guðmundur Ólafsson talar um skatta

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur er óhemjuskemmtilegur fýr. Hann mætir reglubundið í morgunútvarp rásar 2 og gerði það svikalaust þennan morguninn og hóf mál sitt á því að tala um Rússland og skattheimtumenn. Enginn er honum skemmtilegri þegar kemur að sögum frá gamla Sovét.

Svo hóf Guðmundur að tala um skattheimtumenn nútímans hér á landi. Þar ruglaði hann af ákefð og hélt þvi fram að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafi hækkað skatta. Líklega kemst hann að þessari niðurstöðu vegna þess að skatttekjur ríkissins hækkuðu þrátt fyrir lækkaða skattprósentu. Mögnuð niðurstaða og svo reyndi hann að þvæla sig í gegnum rökréttar spurningar útvaprsmannsins sem ekki skilur að lækkuð skattprósenta sé skattahækkun.

Öfugt fara vinstri menn að í dag en Guðmundur hélt því blákalt fram að lækkuð skattprósenta lækkaði tekjur ríkissins og öfugt. Þetta er risaeðlutal sem menn nenna orðið ekki að elta ólar við lengur. Indriði og félagar ætla sér að snúa sögunni við með því að skattleggja okkur í kaf og ekkert virðast þeir geta lært af sögunum hans Guðmundar.

Guðmundur komst þó ekki nálægt því að halda þvi fram að núverandi ríkisstjórn sé ekki að hækka skatta eins og Stefán Ólafsson Samfylkingarfræðimaður gerir. Skattamál flækjast alltaf sérlega mikið fyrir vinstri mönnum sem eru þó fleiri og fleiri að átta sig á að hækkuð skattprósenta og hækkaður virðisaukaskattur skila ekki auknum tekjum í ríkissjóð.

þrátt fyrir þennan meinlega galla er Guðmundur stórskemmtilegur og var það í morgun líka. Hann þarf bara að læra af sögum sínum frá gamla skattpínda Sovét. Og það mun hann auðvitað gera eins og við öll ættum að gera þessa dagana.

Röggi