mánudagur, 31. maí 2010

Gnarr og Besti flokkurinn

það er þetta með Besta flokkinn. Hann ætlar að fara að stjórna borginni og það með húmorslausasta stjórnmálamanninum. Manninum sem er eiginlega lifandi dæmi um akkúrat það sem Besti flokkurinn vill ekki standa fyrir. Dagur B ryður út úr sér innihaldslitlum frösum í löngu máli á þann hátt að Georg Bjarnfreðarsson gæti vart betur.

Nú fer málið nefnilega að vandast. Gnarr sýndi það síðustu dagana fyrir kosningar og nú eftir þær að hann er hættur að djóka. Enda er ekkert djók að stjórna borginni. Reyndar talaði hann um að borgin byggi vel að embættismönnum og því væri öllu óhætt.

Ég hélt að flestir vildu færa völdin frá alltof valdamiklu embættismannakerfi borgarinnar og aftur til fólksins í gegnum kjörna fulltrúa. En Gnarr ætlar að láta þetta gamla kerfi taka ákvarðanir sem hann sjálfur þarf svo að bera pólitíska ábyrgð á. Byltingin lifi!

Besti flokkurinn er besti flokkurinn þegar hann er í minnihluta þó stærstur sé. Margt bendir til þess nú þegar að Jón Gnarr sé að tapa húmornum. Vissulega fékk hann innivinnuna sem hann langaði í en ég er ekki alveg viss um að hún verði svo þægileg....

Röggi

Engin ummæli: