miðvikudagur, 12. maí 2010

Bubbi í bullinu

það er auðvitað að gera Bubba of hátt undir höfði að vera að hafa opinbera skoðun á skrifum hans en ég læt það eftir mér þennan morguninn samt. Gamli gúanórokkarinn er nú genginn í lið með stærstu og mestu þjófum sögunnar og skilur ekki að þeir voru mennirnir sem settu hann svo að segja á hausinn.

Bubbi kallinn vill helst sleppa þjófunum og taka ónýta stjórnmálamenn á beinið. Bubbi þarf ekki að efast um að stjórnmálamenn munu fá það sem þeim ber en við sem höfum mestar áhyggjur haft af því að þeir sem stálu aurunum hans Bubba slyppu erum nú kannski að sjá vonarglætuna þessa dagana. Stjórnmálamenn stálu ekki þrautarvaralánum Seðlabankans og settu í eigin vasa og sendu svo Bubba litla reikninginn....

Sem betur fer er mjög að fækka í stuðningsliði bankamannanna og brátt munu furðuraddir eins og Bubba heyra fortíðinni að mestu til. Ég veit ekki hvernig popparinn kemst að sínum niðurstöðum en ef hann heldur svona áfram er nokkuð víst að hann er að syngja sitt síðasta...

Röggi

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef ekki skilið skrif Bubba á annan hátt en svo að hann sé á móti múgsefjun og leiðin frammávið sé að fyrirgefa. Ég er honum sammála að það að sífellt stilla sér upp í flokka með og á móti sé okkur ekki hollt. Það hlakkar ekkert í mér að sjá þessa menn missa frelsi sitt.

Það hjálpar mér ekkert.

Bjarni

Nafnlaus sagði...

Það hlakkar heldur ekkert í mér að sjá þessa menn missa frelsi sitt, ekkert frekar en að það hlakkar í mér að sjá dópsala fara í fangelsi eða barnaníðing stungið inn.

Það þýðir samt ekki að réttlætið eigi ekki fram að ganga. Ég skil ekki þessa umræðu um að það hlakki í fólki. Er það virkilega svo að annað hvort eigi fólk að vera þeirrar skoðunar að allir eigi að sleppa, allir fyrirgefi öllu, taki stórt hópknús og svo verði bara haldið áfram þar sem frá var horfið eða þá að menn séu haldir einhverri voða refsingagleði og það hlakki í þeim að heyra af Hreiðari Má í jogging-galla.

Held að flestir vilji einfaldlega réttlæti áður en áfram verður haldið.

Held líka að Bubbi sé einna verstur í að stilla mönnum upp í einhver lið gegn hvort öðru etja mönnum saman. Hann er ekkert að tala gegn því.

Bubbi er búinn að missa það, gerði það raunar fyrir löngu en er núna algjörlega búinn að tapa sér í ruglinu.

Nafnlaus sagði...

Auðvitað eigum við að fagna því að réttvísin sé loks að ná til þessara glæpamanna.

Þeir hafa unnið hér skaða sem er ólýsanlegur og nú þegar lagt fjölda mannslífa í rúst.

Þeim á eftir að fjölga.

Í íslenskum lögum er ekkert að finna sem tryggt getur að þessir menn fái refsingu við hæfi.

Gleðjumst því yfir falli þeirra og vonandi mikilli vanlíðan.

Það er vel sloppið.

GSS sagði...

Bubbi er ákaflega snjall og hugsun hans er afar skýr þegar kemur að fjármálum. Að vísu tapaði hann nokkrum milljónum í hrunadansinum en það gerðu líka fleiri fjármálasnillingar.
Bubbi gerir sér grein fyrir því, að það er lítið gagn af því að viðra sig upp við fallna stjórnmálamenn; þar er ekkert að hafa. Hann veit, að bankaelítan og útrásarvíkingarnir eiga enn talsvert í handraðanum og þar er eftir einhverju að slægjast.
Gamli popparinn veit af gamalli reynslu að þeir fiska sem róa og hann veit hvar fengsælustu miðin eru.

Nafnlaus sagði...

Nýr kafli - handtökur er hafinn og hann er ekki skemmtilegur. Fólk missti sig gjörsamlega í fégræðgi, braut lög og það á ekki að líða. Fólk er handtekið og dómar munu ganga. Þannig hefur það ætíð verið.
Endanleg ábyrgð liggur hjá stjórnvöldum sem plægðu hinn frjálsa akur. Hvernig á því verður tekið mun koma í ljós.
Á endanum er fyrirgefningin leiðin og hvenær hún er fær, verður hver og einn að svara.

Nafnlaus sagði...

Bubbi er einfaldlega mikill tækifærissinni og fer þangað sem hann telur að hann geti grætt mest hverju sinni.

Ekki veit ég hver skrifar pistlana hans, en fram kom í kvikmynd um hann sem sýnd var á RÚV miðv.daginn 5. maí sl. að hann væri bæði les- og skriftarblindur.
Svo varla getur hann skrifað svona annars vel skrifaða pistla nema að um sé að ræða draugspenna.

Hann tók stöðu með fjármálaliðinu og auðmönnum hérna árin 2006-2008 og átti Range-Rover og þá hefði hann geta sungið:

- Range-Rover er merki mitt,
- og annarra auðmanna....

Þetta er nú eitthvað annað en þegar hann tók sér stöðu með farandverkafólkinu og söng;

- Stál og hnífur er merki mitt,
- og annarra verkamanna....

En tímarnir breytast og Bubbi með.....

Nafnlaus sagði...

Hefði ekki getað sagt þetta og súmmarízerað betur!
-Kalli