fimmtudagur, 10. júní 2010

Árni Páll tekur frumkvæði

Venjulega taka menn ekki mikið mark á því sem Árni Páll er að segja. Mörgum finnst hann vera snotrar umbúðir utan um lítið. Hann reynir of mikið að verða alvöru leiðtogi í stað þess að láta það gerast með alvöru vinnubrögðum.

Núna kemur hann blaðskellandi með tillögur um sparnað í ríkisrekstri og ærir óstöðuga. Hin heilaga kýr sem opinberir starfsmenn eru fyrtast við þegar hann leggur til frystingu launa. Árni Páll gerir sér kannski grein fyrir því ekki verður bæði haldið og sleppt þegar kemur að hinum óhjákvæmilega niðurskurði í útgjöldum ríkissins. Mér finnst mannsbragur að þessu hjá Árna þó ekki séu tillögur hans gallalausar.

Og kjarkur sem er eiginleiki sem virðist vera að glatast hjá stjórnmálamönnum dagsins. Þarna stígur fram maður sem þorir að segja það sem honum finnst þótt hann megi búast við stormi í andlit. Mér finnst auðvelt að bera virðingu fyrir því.

Leiðtogaleitin í Samfylkingunni er leitin að nálinni í heystakknum. Dúllubossinn Dagur B virðist úr leik og dæmdur eftir niðurlægjandi útkomu í borginni. Sviðið er því opið fyrir öfluga menn með bein í nefi og mér sýnist að Árni Páll geti hugsanlega verið að taka ákveðið frumkvæði....

Ég verð seint hrifinn af pólitík Árna Páls og þá á ég bæði við stíl og innihald almennt. Og kannski segir það allt um stöðuna í Samfylkingunni að hann skuli vera orðinn einn öflugasti ráðherrann.....

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guð minn almáttugur, trúi því ekki að þú sért að segja þetta Rögnvaldur. Árni Páll hefur náð að fullkomna þá pólitísku iðju sem kallast "hit and run", segja eitthvað og hlaupa svo af vettvangi.

hvað ætli það séu orðin mörg málin sem Árni Páll hefur komið með, en hafa svo bara reynst orðin tóm. Bílalánsfrumvarpið væntanlega er gott dæmi um það.

Ætli menn að koma með svona tillögur, þá er það gert eftir ákveðnum reglum, óbreyttur þingmaður, eða ráðherra ef því er að skipta, getur ekki bara staðið upp og sagt "mér finnst þetta eða hitt". Svona mál eru rædd innan þingflokks, síðan við þann flokk sem verið er í stjórnarsamstarfi við, og fundinn flötur á málinu.

Ef allir höguðu sér eins og Árni Páll (og því miður eru það margir í stjórnarliðinu sem gera það), þá verður niðurstaðan algert chaos (sem er reyndar staðan í dag).

Dagur B. Eggertsson var aldrei neinn leiðtogi. Hann er enginn leiðtogi, og mun heldur aldrei verða neinn leiðtogi. Best hefði verið að fá honum lítinn pensil í hönd, hvítan málningarsamfesting og bretti af málningu, láta hann svo dúlla sér við það næstu 2-3 árin að mála Æsufellið. Þá myndi hann ekki gera annað af sér á meðan. Það hefði líka verið fínt grín hjá Besta flokknum sem hefði fallið almenning vel í geð.