þriðjudagur, 21. september 2010

Tækifæri VG

Hversu mikil þarf pólitísk örvæntingin að vera til þess að Jóhanna Sigurðardóttir taki þá ákvörðun að snúa baki við vikugömlum skoðunum sínum og leggjast á augabragði eins og maðurinn sagði gegn Atla nefndinni og allri hennar vinnu?

Hversu hryllilegt er ástandið innandyra í Samfylkingunni? Helmingurinn sem mætti til að hlýða á Ingibjörgu ræður í dag? Hvað gerir hinn helmingurinn á morgun? Nú þarf ekki lengur að "róa" almenning eins og leiðtoginn sagði hnarreyst í ræðustólnum fyrir viku eða svo. Nú skiptir flokkurinn einn máli. Þar þarf að vera ró hvað sem hún kostar. Ráðherrastólarnir ofar öllu...

Og VG er í þeirri stöðu að geta eignað sér alveg skuldlaust uppgjörið við hrunið. Þrýstingurinn á Steingrím um að slíta þessu handónýta samstarfi hlýtur að vera óbærilegur. Staðan hefur algerlega snúist VG í vil með þessu pólitíska útspili Jóhönnu.

Vandinn er þó sá að Steingrímur hefur týnt öllum pólitískum metnaði og prinsippum öðrum en að hækka skatta og borga Icesave upp í topp. Hann mun án efa reyna allt til að fá Atla Gíslason til að fara heim aftur að mála svo troða megi þessari hneysu ofan í hólkvítt og sístækkandi kokið á VG.

Svar órólegu deildar VG er að slíta samstarfinu og neyða Samfylkingu í kosningar þrátt fyrir bestaflokksóttann. Samfylkingin er ekki í nokkurri stöðu til þessa að ganga til kosninga. Leiðtogi er þar ekki neinn sjáanlegur hvert sem augað eygir og eina baráttumálið ESB á sáralítinn hljómgrunn. VG getur ekki haldið þessu áfram án þess að eiga það á hættu að klofna í herðar niður og tækifærið dettur hér upp í hendurnar á þeim.

Stundin er runnin upp...

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta hefur verið skoðun Jóhönnu á landsdómi í langan tíma. Ekkert nýtt þar á ferðinni.

Fyrir VG að fara í kosningar núna væri fatal fyrir þá. "uppgjör við tveggja ára gamlan atburð" ef það yrði kosið þá myndu kosningarnar snúast um framtíðina ekki fortíðina. Þar stendur VG höllum fæti með ímmynd á sér sem vænissjúkur umhverfisflokkur sem er á móti öllu sem er ekki lítið og krútlegt.

Íhaldsarmurinn hefur náð yfirtökunum í sjálfstæðisflokknum á kostnað hins frjálslynda borgaraarms. Ef sá armur er ekki friðaður þá mun það fylgi færast annað. Framsókn er ekki svipur hjá sjón og því er eini frjálslyndi borgaralegi valkosturinn Samfylkinginn.

Þess vegna er staða samfylkingarinnar en sterkari en í fyrstu virðist, vegna stöðu sinnar sem frjálslyndur jafnaðarmannaflokkur. Staða sem hefur tryggt sjálfstæðisflokknum sitt stóra fylgi í gegnum tíðinna, en er nú að varpa frá sér.