Ástráður Haraldsson fyrrverandi formaður landskjörstjórnar ræddi dóm hæstaréttar í kastljósi í kvöld. Hann er auðvitað ekki hlutlaus maður og hann velur að líta svo á að hæstiréttur túlki lögin mjög þröngt og að það sé ekki gott. Hann sjálfur kýs svo að túlka lögin mjög vítt og það er gott að hans mati.
Ástráður stóð sig ekki vel í þessum þætti. Hann dylgjar um hæstarétt og endurtekur það sem innanríkisráðherra hefur staglast á um að reglur skipti engu máli nema fullsannað sé að einhver ætli sér að brjóta þær.
Ástráður er klassískur pólitíkus þó hann hafi ekki lagt stjórnmál fyrir sig. Hann er gamaldags embættismaður þó ungur sé.
Að hæstiréttur þjóðar telji svo marga ágalla á kosningunni að upp geti komi vafi um lögmæti hennar er yfirdrifið nóg til að ógilda hana. Þannig vinna siðmenntaðar þjóðir svona mál en hér kemur formaðurinn og sakar hæstarétt um að hengja sig á léttvæg tækniatriði. Ástráður kemst reyndar að þeirri niðurstöðu að í einu atriði hafi rétturinn haft mikið til síns máls en samt hafi það ekki skipt máli...
Hann tekur afgerandi og prýðilega rökstuddan úrskurð fjölskipaðs réttar og hártogar og kýs auk þess að líta á hluti sem ÖSE telur almennt mjög mikilvæga í kosningum sem léttvægt nöldur og tuð.
Við höfum of mikið af fólki með þetta viðhorf í okkar stjórnsýslu og of margir nenna ekki að hafa grundvallarskoðun á svona málum. Þeir sem hafa lagst í það að kóa með klúðraranum í málinu eru nefnilega í pólitík og láta þrána eftir stjórnlagaþingi ráða skoðun sinni á áliti hæstaréttar eingöngu. það er hæpin nálgun í meira lagi.
Þetta er mál sem ekki snýst um það sem kosið var um. Þetta snýst um sterk og mikilvæg prinsipp og hvort við viljum gefa afslátt af þeim eftir smekk hverju sinni.
Ekkert mál svo mikilvægt að við getum látið það spyrjast um okkur að lögmæti kosninga hér sé háð duttlungum embættis og stjórnmálamanna.
Upp upp úr afdalnum......
Röggi
mánudagur, 31. janúar 2011
Ástráður Haraldsson í kastljósi
ritaði Röggi kl 19:49 5 comments
Lýgur Mogginn?
Mogginn slær því upp á forsíðu í dag að blaðamaður DV hafi réttarstöðu grunaðs manns enda sé blaðamaður þessi grunaður um að hafa fengið annan mann til að stela tölvugögnum með upplýsingum sem hann hafi svo notað ítrekað í greinum sínum. Þetta virðist einnig tengt WikiLeaks og er allt pínu reyfarakennt. Að vísu vitum við að sannleikurinn er stundum reyfarakenndari en reyfararnir sjálfir en hér virðist eitthvað bjagað....
Nú les ég að lögreglan vill ekki staðfesta að umræddur maður hafi réttarstöðu grunaðs né að hann hafi verið yfirheyrður og vinnuveitendur hans koma af fjöllum. Ég veit ekki hverjir eru heimildarmenn Morgunblaðsins og kæri mig í raun kollóttann um það hversu "traustar" heimildir blaðið telur sig hafa í málinu.
Hafi umræddur maður ekki réttarstöðu grunaðs í málinu. Hafi hann ekki verið yfirheyrður eins og fullyrt er þá er mér alveg nákvæmlega sama hversu rosalega ritstjórn blaðsins er sannfærð um hlut hans í málinu.
Það eitt og sér dugar ekki. Það má ekki duga og ég vona að Mogginn sé ekki að fara niður á plan sem DV hefur svo ótrúlega oft gert......
Röggi
ritaði Röggi kl 15:01 6 comments
laugardagur, 29. janúar 2011
Ögmundur axlar ábyrgð...
Landskjörstjórn hefur sagt af sér vegna klúðursins sem varð til þess að kosningar til stjórnlagaþings eru ógildar. Þetta þykja tíðindi á Íslandi eins og við þekkjum það. Og það eru auðvitað stórtíðindi í sjálfu sér....
Ögmundur Jónasson hefur haldið með afbrigðum illa á sínum vondu spilum í kjölfar úrskurðar hæstaréttar. Hann hefur reynt að hártoga nauðsyn þess að halda alvöru kosningar á Íslandi og í leiðinni hvatt ýmsa til þess að gera störf hæstaréttar totryggileg á pólitískum forsendum þó lúsaleitun sé að fólki sem telur úrskurðinn rangan og illa rökstuddann. Fyrir þá sem ekki vita er skynsamlegt að benda á að téður Ögmundur er ráðherra innanríkismála...
Og nú bregður svo við að félagi Ögmundur sem ætlaði að skapa nýtt Ísland þegar hann ásamt öðrum fjarstýrði búsáhaldabyltingunni telur algerlega óþarft af landskjörstjórn að segja af sér. Menn axli ábyrgð best með að laga sjálfir og breyta. Öðruvísi mér áður brá....
Ögmundur segir þetta auðvitað sjálfum sér til varnar enda gamall refur í bransanum og hver einasti maður veit að ef hann væri í stjórnarandstöðu núna myndi hann fara mikinn og fara með stóryrði og tala um afsagnir og öxlun ábyrgða með allt öðrum hætti en hann gerir í dag.
Auðvitað þarf að breyta mörgu og ekki síst á alþingi þar sem umræðan á stundum langt í land en fyrir mér er ljóst að félagi Ögmundur verður hvergi nærri þegar sú bylting verður gerð. Ef allt er eðlilegt verður hann hinum megin byltingar að verja gamallt kerfi og gamlan hugsunarhátt.
Byltingin étur börnin sín
Röggi
ritaði Röggi kl 13:42 4 comments
fimmtudagur, 27. janúar 2011
Guðmundur gagnrýndur
Ég les það að Dagur Sigurðsson þjálfari Fuche Berlin gagnrýnir Guðmund Guðmundsson fyrir það hvernig hann deilir álaginu á leikmenn landsliðsins á HM. Ég hef lengi haft sterkar skoðanir á þessu atriði og bent á veikleika Guðmundar í þessu efni.
Vissulega er ekki hægt að kvarta yfir árangri Guðmundar með liðið en ég hef þó oft velt því fyrir mér hvort ekki væri hægt að gera jafnvel enn betur ef öðruvísi væri farið að. Ég hef þóst sjá jákvæða breytingu á Guðmundi hvað þetta varðar eftir að Óskar Bjarni kom til sögunnar en að mínu viti þarf að gera betur.
Mér er óskiljanlegt af hverju Guðmundur þarf að nota byrjunarliðið sitt eins og hann gerir og hefur alltaf gert. Af hverju verður Guðmundur að vinna alla æfingaleiki og svelta í leiðinni fantagóða leikmenn sem ekki byrja vanalega hjá honum? Hvernig stendur á því að þegar okkur stendur til boða sá lúxus að spila við Frakka á HM, leik sem skiptir akkúrat engu máli, að hann skuli þá níðast á örþreyttum byrjunarliðsmönnum nær allan leikinn?
Hvaða hafa Sigurbergur Sveinsson, Hreiðar Leví, Ásgeir Örn og hornamaðurinn efnilegi frá Akureyri Oddur Grétarsson gert til að verðskulda að sitja á bekknum í leikjum þar sem úrslitin hafa enga þýðingu þegar vitað er að álagið á suma aðalleikmenn Guðmundar er að sliga þá?
Hvað er að óttast? Er verra að þessi strákar spili í nokkrar mínútur í hverjum leik og geri sinn skammt af mistökum eins og dauðuppgefnir og stundum hálflaskaðir byrjunarliðsmenn?
Enginn mun kvarta þótt við lendum í 6. sæti á þessu móti en innst inni vitum við öll að það er í raun alger hundaheppni og hagstæð úrslit í öðrum leikjum sem skipa okkur í þetta sæti. Leikur liðsins hefur valdið vonbrigðum og á meðan alltof margir tala um dómara hefur leikur liðsins fallið og við reynum að sjá ljóstýru í "fallegu" skyldutapi gegn Frökkum.
Ég held að sjálfsögu með Íslandi og gleypi þetta mót í mig en mér finnst fjölmiðlar tipla á tánum í kringum Guðmund án gagnrýni að mestu og einblína þess í stað stundum á hluti sem ekki hafa áhrif á gengi liðsins.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:57 1 comments
miðvikudagur, 26. janúar 2011
Ráðherrar og fræðimenn grínast með lög og rétt
Ég er ekki einn af þeim sem nenni að fagna því sérstaklega að hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaþings skuli skoðast ógildar. Þetta er auðvitað afar dapurt fyrir okkur öll hvort sem við teljum þennan vetfang hentugan eður ei til endurskoðunar á stjórnarskrá.
Viðbrögð stjórnmálamanna hafa verið eins og kannski mátti við búast. Þeir sem ekki sitja í súpunni hamast á þeim sem þar sitja og keppast við að reyna að nýta sér stöðuna pólitískt. Allt pínu leiðinlegt og út í hött.
Jóhanna Sigurðardóttir er bara öskufúl á móti og telur það merkilegt innlegg í umræðuna að segja bara nógu oft að íhaldið sé vont. Og pólitískir léttadrengir freistast í kjölfarið til þess að draga heilindi hæstaréttar í efa. það er verða ótrúlega langt síðan forsætisréðherra lagði eitthvað bitastætt til umræðunnar...
Ögmundur Jónasson slær þó flest út og ef hann réði þá fyndi ÖSE sig knúið til að senda eftirlitsmenn hingað við hverjar kosningar. Ögmundur telur að reglur séu í raun bara þreytandi formsatriði þangað til einhver beinlínis fer á svig við þær. Engin ástæða sé til þess að taka mark á kærum sem sýna fram á alvarlega ágalla á kosningum ef ekki telst sannað að einhver hafi nýtt sér gallann. Ég vek athygli á að þetta er haft eftir ráðherra innanríkismála.....
Og nú birtast fræðimenn sem gefa undir fótinn með það að best sé að gefa skít í að þjóðin fái að kjósa og láta alþingi bara eftir að velja fólkið sem var kosið í ógildu kosningunum. Þú ert ekki að lesa tilvitnun í frétt af baggalút núna. Prófessorinn Gunnar Helgi er nefnilega ekki að spauga.
Frá mínum bæjardyrum séð er ekki um annað að ræða en að kjósa aftur vilji löggjafinn halda þessu þingi til streitu. það er ekki boðlegt að reyna að stytta sér leið framhjá lögum og leikreglum í þessu.
Alþingi og ríkisstjórn hafa bara ekki efni á því að bæta öðrum mistökum við hin fyrri. Látum ekki blinda ráðherra eða mistæka próferssora selja okkur þá hugmynd að lög og reglur séu bara til skrauts og skuli notaðar þegar pólitíkusum hentar mest og best.
Röggi
ritaði Röggi kl 21:40 1 comments
fimmtudagur, 20. janúar 2011
DV Heiða birtir nafn dómara
Nú er réttað yfir níumenningunum og sitt sýnist hverjum. Margir og þar á meðal forsætisráðherra furða sig á að þetta séu einu réttarhöldin frá hruni hingað til. Vissulega áhugaverður punktur þannig séð þó að ég hafi takmarkaða samúð með málflutningi þeirra sem reyna að bera saman rannsóknir á því sem níumenningunum er ætlað versus það sem fór fram í bönkunum.
Reiði þeirra sem standa með níumenningunum í þessu máli er stór og tilfinningahlaðin og fjölmiðlar gera henni góð skil. Hér er stórt grundvallarmál til umfjöllunar og mikilvægt að dómstólar vandi mjög vinnuna og niðurstaðan verði vel ígrunduð og rökstudd.
Við erum réttarríki og mér vitanlega eru fáir sem vilja breyta því. Reyndar hafa of margir fyrir minn smekk enga sérstaka meginskoðun á slíku heldur taka bara afstöðu út frá tilfinningum og skoðunum sínum frá einum degi til annars. Þarna á ég við fólk sem finnur dómstólum allt til forráttu þegar þeir komast að "rangri" niðurstöðu og svo öfugt þegar niðurstaðan er "rétt".
Slíkur hugsunarháttur er hættulegur og gagnslaus. Heiða B. Heiðars bloggari á DV birtir í dag á facebook síðu sinni nafn þess manns sem dæmir í máli níumenninganna og birtir texta með sem ekki nær nokkurri átt. Hugsunin á bak við þetta er án efa ekki slæm og Heiða vill reyna að koma á framfæri óánægju sinni með framvindu málsins og birtingarmynd þess valds sem hún virðist telja misbeitt hér birtist henni í persónu dómarans. Og því er hans persóna gerð að þungaviktaratriði. það er út í hött auðvitað.....
Þessa aðferð er reyndar búið að útfæra og kenna okkur árum saman af Baugsfólkinu sem réðist alltaf að þeim persónum sem um mál þeirra véluðu af hálfu dómsvaldsins og lögreglu. Þetta er vond aðferð sem því miður hefur sýnt sig virka hvort sem góðir menn eða vondir beita henni og áháð því hvort málsstaðurinn er góður eða slæmur.
Svona á ekki að umgangast réttarkerfið Heiða....
Röggi
ritaði Röggi kl 10:05 4 comments
miðvikudagur, 5. janúar 2011
Pirringur framkvæmdavaldsins
Ég hef dálítinn áhuga á brölti þremeninganna í VG í víðu samhengi. Þetta brölt þeirra er algerlaga óþolandi fyrir alla aðila málsins. Þau sjálf eru að fara á límingum auðvitað og eru svo sannarlega erfið í samstarfi. Ég hef komist að því að ég hef samúð með málsstað beggja, þeirra og ríkisstjórnarflokkanna.
Hvorugur aðili málsins, meirihluti VG með foringjann fremstan eða þau þrjú, hafa beinlínis rangt fyrir sér. Vandinn er í grunninum. Hér sjáum við akkúrat hvernig fer þegar framkvæmda og löggjafarvaldið eru eitt og hið sama og óbreyttir þingmenn eins og þremeningarnir bara fatta það ekki og kunna ekki umferðareglur.
Í þinginu og þeirri vinnu sem þar þarf að fara fram er ekkert svigrúm fyrir sérskoðanir. Þar gilda að jafnaði bara þær skoðanir sem ráðherrar hafa. Afar sjaldan myndast meirihlutar þvert á flokkslínur í meginmálum. Það bara má ekki.
Við erum orðin svo vön þessum hugsunarhætti að við skipum okkur ósjálfrátt í lið með framkvæmdavaldinu og komum okkur upp óþoli gagnvart upphlaupsliði eins og þeir þingmenn eru kallaðir sem ekki geta gengið í takti ríkisstjórnar. Misskil ég málið kannski? Ég hélt að þannig ætti þingið einmitt að geta starfað í friði fyrir framkvæmdavaldinu.
Ef allt væri með felldu væri engin ríkisstjórn með ráðherra innanborðs sem ekki vilja vinna að samþykktri og undirritaðri stefnu stjórnarinnar. Ríkisstjórnin væri ekki háð einhverri póltískri innanflokksskák eins og nú er alsiða. Við erum orðin háð samsteypustjórnum sem þurfa að taka tillit til ótrúlegustu hluta eins og kjördæmapots einstakra þingmanna svo eitthvað sé nefnt.
Ef allt væri í lagi þyrftum við ekki að horfa á fulltrúa framkvæmdavaldsins stappa niður tótum í pirringi og óþolinmæði í hvert sinn sem löggjafanum dettur í hug að kynna sér mál betur eða setja fyrirvara.
Eitthvað er alvarlega bogið við samskipti framkvæmda og löggjafarvalds hjá okkur og mér sýnist hvorugur aðilinn geta við þetta ástand unað. Að ógleymdri þjóðinni sjálfri sem á betra skilið.
Röggi
ritaði Röggi kl 11:45 0 comments