mánudagur, 31. janúar 2011

Ástráður Haraldsson í kastljósi

Ástráður Haraldsson fyrrverandi formaður landskjörstjórnar ræddi dóm hæstaréttar í kastljósi í kvöld. Hann er auðvitað ekki hlutlaus maður og hann velur að líta svo á að hæstiréttur túlki lögin mjög þröngt og að það sé ekki gott. Hann sjálfur kýs svo að túlka lögin mjög vítt og það er gott að hans mati.

Ástráður stóð sig ekki vel í þessum þætti. Hann dylgjar um hæstarétt og endurtekur það sem innanríkisráðherra hefur staglast á um að reglur skipti engu máli nema fullsannað sé að einhver ætli sér að brjóta þær.

Ástráður er klassískur pólitíkus þó hann hafi ekki lagt stjórnmál fyrir sig. Hann er gamaldags embættismaður þó ungur sé.

Að hæstiréttur þjóðar telji svo marga ágalla á kosningunni að upp geti komi vafi um lögmæti hennar er yfirdrifið nóg til að ógilda hana. Þannig vinna siðmenntaðar þjóðir svona mál en hér kemur formaðurinn og sakar hæstarétt um að hengja sig á léttvæg tækniatriði. Ástráður kemst reyndar að þeirri niðurstöðu að í einu atriði hafi rétturinn haft mikið til síns máls en samt hafi það ekki skipt máli...

Hann tekur afgerandi og prýðilega rökstuddan úrskurð fjölskipaðs réttar og hártogar og kýs auk þess að líta á hluti sem ÖSE telur almennt mjög mikilvæga í kosningum sem léttvægt nöldur og tuð.

Við höfum of mikið af fólki með þetta viðhorf í okkar stjórnsýslu og of margir nenna ekki að hafa grundvallarskoðun á svona málum. Þeir sem hafa lagst í það að kóa með klúðraranum í málinu eru nefnilega í pólitík og láta þrána eftir stjórnlagaþingi ráða skoðun sinni á áliti hæstaréttar eingöngu. það er hæpin nálgun í meira lagi.

Þetta er mál sem ekki snýst um það sem kosið var um. Þetta snýst um sterk og mikilvæg prinsipp og hvort við viljum gefa afslátt af þeim eftir smekk hverju sinni.

Ekkert mál svo mikilvægt að við getum látið það spyrjast um okkur að lögmæti kosninga hér sé háð duttlungum embættis og stjórnmálamanna.

Upp upp úr afdalnum......

Röggi

5 ummæli:

Einar Karl Friðriksson sagði...

"að upp geti komi vafi um lögmæti"

Hvað þýðir það? Kom upp vafi um lögmæti?

Er ekki sannleikurinn sá að það var einmitt ENGINN vafi um að niðurstaða kosninganna væri sönn og rétt, þrátt fyrir ágallana á framkvæmdinni?

Nafnlaus sagði...

Orri svarar þessu betur en ég gæti nokkurn tímann:

"Þar sem Lög um kosningu til stjórnlagaþings (nr. 90/2010) vísa skipulega til Laga um kosninga til alþingis um það sem ekki er sérstaklega tekið fram í þeim fyrrnefndu, gæti einhverjum dottið í hug að það ætti líka við um ógildingu, að hún kæmi ekki til greina nema ætla mætti að gallar í framkvæmd hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna. En dómurum hæstaréttar finnst það greinilega ekki koma til álita.

Það að þeim finnst það ekki er uggvekjandi. Það er uggvekjandi að þeim finnist að það sé ekki einu sinni vert hálfrar málsgreinar af lögspeki að útskýra hversvegna sjónarmið löggjafans ganga of skammt og hversvegna rétturinn er knúinn til að ganga enn lengra í formkröfum."

Sjá hér: http://lugan.eyjan.is/2011/01/31/lydraedi-og-ogilding-kosninga/

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki sammála þér. Mér fannst hann rökfastur og benda vel á meginvilluna í röksemdafærslu hæstaréttar, þ.e. að afnema kosningarétt okkar allra í þessari kosningu án þess að sýna að gallar gætu leitt til annarrar niðurstöðu.
Þú segir "Að hæstiréttur þjóðar telji svo marga ágalla á kosningunni að upp geti komi vafi um lögmæti hennar er yfirdrifið nóg til að ógilda hana. Þannig vinna siðmenntaðar þjóðir svona mál en hér kemur formaðurinn og sakar hæstarétt um að hengja sig á léttvæg tækniatriði."
Ég held að engin siðmenntuð þjóð hafi ógilt kosningu án þess að sýna fram á að gallar hafi hugsanlega leitt til rangrar niðurstöðu. Ástráður nefndi dæmið frá Þyskalandi þar sem reglum í þarnæstu kosningu var breytt. Röggi, það væri gaman að heyra dæmi um hið gagnstæða meðal einhverra siðmenntðra (eða annarra) þjóða sem styður þá fullyrðingu þína sem ég vitna í að ofan.

Einar Karl Friðriksson sagði...

skrifaði um málið í kvöld:

http://bloggheimar.is/einarkarl/2011/01/31/osamrymanleg-sjonarmið-hæstarettar/

Nafnlaus sagði...

Hann gjörsamlega negldi þetta í Kastljósinu í kvöld !

Hæstiréttur er mörgum íslendingum einskis virði eftir þennan dóm.