fimmtudagur, 27. janúar 2011

Guðmundur gagnrýndur

Ég les það að Dagur Sigurðsson þjálfari Fuche Berlin gagnrýnir Guðmund Guðmundsson fyrir það hvernig hann deilir álaginu á leikmenn landsliðsins á HM. Ég hef lengi haft sterkar skoðanir á þessu atriði og bent á veikleika Guðmundar í þessu efni.

Vissulega er ekki hægt að kvarta yfir árangri Guðmundar með liðið en ég hef þó oft velt því fyrir mér hvort ekki væri hægt að gera jafnvel enn betur ef öðruvísi væri farið að. Ég hef þóst sjá jákvæða breytingu á Guðmundi hvað þetta varðar eftir að Óskar Bjarni kom til sögunnar en að mínu viti þarf að gera betur.

Mér er óskiljanlegt af hverju Guðmundur þarf að nota byrjunarliðið sitt eins og hann gerir og hefur alltaf gert. Af hverju verður Guðmundur að vinna alla æfingaleiki og svelta í leiðinni fantagóða leikmenn sem ekki byrja vanalega hjá honum? Hvernig stendur á því að þegar okkur stendur til boða sá lúxus að spila við Frakka á HM, leik sem skiptir akkúrat engu máli, að hann skuli þá níðast á örþreyttum byrjunarliðsmönnum nær allan leikinn?

Hvaða hafa Sigurbergur Sveinsson, Hreiðar Leví, Ásgeir Örn og hornamaðurinn efnilegi frá Akureyri Oddur Grétarsson gert til að verðskulda að sitja á bekknum í leikjum þar sem úrslitin hafa enga þýðingu þegar vitað er að álagið á suma aðalleikmenn Guðmundar er að sliga þá?

Hvað er að óttast? Er verra að þessi strákar spili í nokkrar mínútur í hverjum leik og geri sinn skammt af mistökum eins og dauðuppgefnir og stundum hálflaskaðir byrjunarliðsmenn?

Enginn mun kvarta þótt við lendum í 6. sæti á þessu móti en innst inni vitum við öll að það er í raun alger hundaheppni og hagstæð úrslit í öðrum leikjum sem skipa okkur í þetta sæti. Leikur liðsins hefur valdið vonbrigðum og á meðan alltof margir tala um dómara hefur leikur liðsins fallið og við reynum að sjá ljóstýru í "fallegu" skyldutapi gegn Frökkum.

Ég held að sjálfsögu með Íslandi og gleypi þetta mót í mig en mér finnst fjölmiðlar tipla á tánum í kringum Guðmund án gagnrýni að mestu og einblína þess í stað stundum á hluti sem ekki hafa áhrif á gengi liðsins.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Get alveg tekið undir þetta hjá þér að mestu. Vil þó ekki kvita undir að eitthvað hafi breyst í þessum málum með tilkomu Óskars. En það er skiljanlegt að þið Valsmenn skynjið breytingar til góðs þegar ykkar menn komast til valda, þetta er svona vals/sjálfstæðismanna sýki.

Kv. Formaðurinn