miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Fagmennska DV og ábyrgð fjölmiðla almennt

Í kjölfar hrunsins er mikið rætt um umræðuna á Íslandi. Hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Margir hafa orðið til þess að benda á að stjórnmálamenn virðast ekki kunna að ástunda þroskaða þrætugerð. Upphrópanir, stóryrði og útúrsnúningar sem miðast helst við það eitt að hafa betur þann daginn eða það kvöldið einkenni of oft umræðu á Íslandi.

Vissulega er heilbrigt að tuskast með orðum en málefnlegt innlegg er þó að jafnaði nauðsyn en á slíkt skortir oft. Fjölmiðlar dagsins í dag eru að því er mér virðist komnir í hreint ótrúlegar stellingar í þessum efnum þar sem "slagurinn" snýst um að reyna að finna snöggann blett á mismerkilegum óvinum og hafa betur þann daginn.

Kvöldvakt DV í gær settist niður og horfði á návígi á RÚV í gær enda óvinur blaðsins þar til viðtals. Jón Steinar Gunnlaugsson heitir óvinurinn og eftir þáttinn birtist eitthvað sem vakthafandi hefur þótt stórsniðugt að búa til. Ég veit að heitttrúaðir hafa gaman af því að lesa svona "fréttir" af vonda fólkinu en auglýsi eftir fagmennskunni hjá fjölmiðlinum.

"Það er hægt að ásaka mig um að vera vinur Davíðs Oddssonar". Þetta er fréttin meira og minna. Þessi ummæli eru tekin úr samhengi og látin standa ein og sér. Þeir sem horfðu á þáttinn vita að þetta er sagt í ákveðnu samhengi og að það þarf meira en kvöldsyfju blaðamanna til þess að geta komist niður á það plan að birta þau með þessum hætti.

Tilgangurinn helgar meðalið og hefur lengi gert hjá DV og ekki eru nema tveir dagar síðan Mogginn birti á forsíðu sinni "frétt" um blaðamann DVsem er ekki frétt vegna þess að fyrir henni er ekki flugufótur. Hvert stefna Íslenskir fjölmiðlar? Hver vinnur svona stríð?

Mikilvægi fjölmiðla er gríðarlegt og ábyrgðin stór. Ef vel er á málum haldið geta fjölmiðlar farið fyrir jákvæðum breytingum á umræðunni. Fært hana upp úr farinu sem við erum svo mörg orðin þreytt á. Farinu sem skilar okkur ekki neinu og gerir fátt annað en að ríghalda okkur í molbúasporunum sem við þurfum hreint endilega að komast up úr.

Því miður sýnist mér ekki margt gefa tilefni til bjartsýni fyrir hönd okkar í þessum efnum.....

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Reynir Trausti er eins og margir aðrir með Davíð Oddsson á heilanum. Sem er stórmerkilegt í sjálfu sér þar sem manngreyið skiptir engu máli í dag.