sunnudagur, 27. febrúar 2011

Hvar er pólitíska siðbótin sem lofað var?

Það er ekki í lítið ráðist að ætla að kenna heilli þjóð að hugsa um og venjast nýju siðferði í stjórnmálum. Við höfum vanið okkur við það að verja "okkar" fólk út í eitt og drepið alla gagnrýni með því að benda á að "hinir" séu nú ekki mikið betri.

Í kjölfar hrunsins okkar stukku fram riddarar breyttra tíma sem tóku til við að lemja húsbúnað til að koma vondum. vanhæfum og spilltum stjórnvöldum frá. Nú skyldi upphefja nýjan sið hér og á endanum hafðist hið fyrra af. Nefnilega að koma hinum vondu valdhöfum frá. Siðbótin lætur hins vegar á sér standa.....

...og eins og áður og fyrr er gagnrýni kæfð í pólitísku þvaðri og reyk. Tvö nýleg dæmi langar mig að nefna núna sem sorglegan vitnisburð þess að okkur miðar alls ekkert áfram. Fulltrúar búsáhaldafólksins, hins nýja Íslands, eru ekki þátttakendur í byltingunni þó þeim hafi skolað í ráðherrastóla sem fulltrúar hennar.

Árbót er dapurlegt dæmi um kjördæmapot þart sem fólk sem kosið er til þess að setja okkur lög þjösnast á skatttekjum okkar til að gera kjördæminu greiða. Ríkisendurskoðun tekur af öll tvímæli í þessu. Í þessu máli vill það ráðherranum líklega til happs að flokkarnir flestir eru viðriðnir klúðrið og því hagur allra að láta eins og ekkert sé. Nema þjóðarinnar auðvitað...

Svandís Svavarsdóttir brýtur lög og fær hrós að launum frá æðsta presti fyrir að hafa reynt að láta pólitík taka lögum fram. Það sem er sorglegast í þessu er að við kippum okkur ekkert upp við þetta. Steingrímur er enn maðurinn og Svandís stoltur stuðningsmaður pólitískrar sannfæringar sinnar og væntanlega með byssuleyfi á næsta lögbrot ef henni sýnist svo.

Hvar eru pottalemjandi bytlingarhetjurnar nú? Var byltingin kannski bara pólitísk borgaraleg óhlýðni til þess eins gerð að koma rétta fólkinu að? Hvað varð um fagurgalann um nýtt land? Stóð aldrei til að herma siðbótina upp á nýju ríkisstjórnina?

Kannski er erfitt að finna upphafsreitinn. Staðinn þar sem við hættum að benda á að okkar fólk megi alveg vera siðblint af því að hinir voru það svo lengi. Haldið þið kannski í alvöru að með því að safna fólki saman til að rétta yfir Geir Haarde og búa til þing um stjórnarskránna muni allt lagast?

Siðbótin kemur frá okkur sjálfum. Þeir sem búast við því að við náum pólitísku siðferði nágrannaþjóða okkar með því að pólitíkusar setji lög um við skulum verða siðmenntuð eru á villigötum. Við þurfum að þora og við þurfum að vilja.

Við erum orðin samdauna afdalamennskunni og kennum svo pólitíkusunum um. Það stendur upp á okkur sjálf að breyta. Engin lög og engir stjórnmálamenn munu breyta hugarfari þjóðar á korteri.

Ég krefst þess að þeir sem bera ábyrgð í þessum málum báðum axli þá ábyrgð af stórmennsku og pólitískri reisn.

Af hverju ekki?

RöggiRöggi

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hún er í endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins.

Hins vegar er sjálf skýrslan týnd.

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki alltaf sammála því sem þú skrifar hér á bloggið þitt Röggi minn en nú tek ég heilshugar undir með þér. PB

Nafnlaus sagði...

Jassso! Svo mörg voru þau orð! Og bara nokkuð til í pistlinum...!! Þarf ekki ALLTAF hver og einn að eiga sitt siðferði við sjálfan sig?