mánudagur, 11. apríl 2011

Nú þarf landsfund

Við Sjálfstæðismenn tölum gjarnan niður til VG þegar talið berst að órólegu deildinni þeirra. Þar er stanslaus ófriður og ónauðsynlegt fyrir flokksmenn að leita út fyrir flokkinn eftir óvinum eða pólitískum og persónlegum andstæðingum. Nú orðið nennir varla nokkur þar á bæ að reyna að þræta fyrir þetta.

Steingrímur reynir að sigla milli skers og báru í hverju málinu á fætur öðru í máttvana viðleitni sinni til að halda flokknum saman og sitt sýnist hverjum. Margt bendir til þess að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta þessari siglingu og hyggist nú reyna í síðasta sinn að ná flokknum undir sig.

Eins og andstæðingar Bjarna Ben innan Sjálfstæðisflokksins tala og skrifa nú eftir nei niðurstöðuna sýnist mér ekki eftir neinu að bíða með að boða til landsfundar og láta sverfa til stáls. Ég ætla rétt að vona að flokkurinn láti mál ekki þróast á þann veg sem VG hefur gert sem er að stinga höfði í sand og láta eins og allt sé í lagi þegar það er alls ekki þannig.

Ég er sammála þeim sem segja að forysta flokksins þurfi nýtt umboð eftir nei niðurstöðuna þó mér líki ekki aðfarirnar sem notaðar eru stundum þegar menn koma þeim vilja sínum í orð eða á prent.

Átök eru eðlileg innan flokka og ekki ástæða til að fela þau þannig séð en eins og umræðan er að þróast hjá andstæðingum Bjarna get ég ekki betur séð en best sé að boða til landsfundar og reyna að hreinsa til og velja flokknum forystu hvort sem þar er sú sveit sem nú stýrir eða einhverjir aðrir....

....enda get ég ekki séð að það verði sérlega áhugavert né heilsufarslega hollt pólitískt fyrir formann flokksins að sitja undir þeirri orðræðu sem andstæðingar hans hafa uppi núna. Það er hvorki skynsamlegt fyrir hann né flokkinn sjálfan að slíkt gangi lengi án uppgjörs.

Og hana nú....

Röggi

Engin ummæli: