þriðjudagur, 19. apríl 2011

Einræði Ólafs Ragnars

Byltingin étur nefnilega stundum börnin sín. Það sannast svo rækilega á vinstri mönnum sem nú get alls ekki þolað Ólaf Ragnar Grímsson sem hefur þó ekki tekið neinum eðlisbreytingum hvort sem horft er til persónueinkenna eða pólitískra frá því hann var fyrst kjörinn forseti við húrrahróp.

Auðvitað er það svo kaldhæðnislegt að það fólk sem helst hefur barist fyrir því að allt niður í 15% landsmanna geti krafist þess að blásið sé til þjóðaratkvæðis um hvað eina skuli nú skyndilega setja sig eindregið upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave en fagna hugmyndum um samskonar afgreiðslu á kvótanum.

Fólkið sem mest og lengst hefur stutt Ólaf Ragnar og hans embættisfærslu sem hefur alla tíð markast af pólitískri hentistefnu hans og samherja hans ber hvað mesta ábyrgð á því hvernig hann er að meðhöndla embættið. Við sem gerðum athugasemdir við það hvernig hann misnotaði embættið í kringum fjölmiðlalögin máttum þola háð og spott og ásakanir um pólitískan rétttrúnað. En í raun var það einmitt pólitískur rétttrúnaður fylgismanna Ólafs Ragnars sem nærði þann forseta sem nú hagar sér eins og konungborinn einvaldur á Bessastöðum.

það er vont að kunna ekki að hafa grundvallarskoðanir og það sannast hvað best á fyrrum vinum Ólafs Ragnars í pólitík. það er ekki fyrr en besti vinur aðal kann ekki að hafa réttar skoðanir sem systemið er gagnrýnt. Fram að því höfðu vinstri menn í þessu landi enga aðra skoðun á málskotsréttinum og beitingu hans en þá sem hentaði þeirra pólitík frá einum degi til annars.

Ég hef sagt það lengi að ef Ólafur Ragnar ætlar sér að breyta embættinu ber honum að leyfa okkur kjósendum að taka afstöðu til þeirra breytingu þegar hann er kosinn. Ég tek það fram að ég nenni ekki að taka þátt í orðhengilshætti um að hann sé einungis að nýta sér rétt sem embættið hefur alltaf haft...

Í mímum huga er meðferð hans á embættinu út í hött og óþolandi hvernig hann umgengst bæði löggjafa og framkvæmdavald í þessu landi. Eitt er þó að senda mál eftir pólitískri og persónulegri hentisemi í þjóðaratkvæði.....

...annað er að túlka efnislega og taka hápólitíska afstöðu til mála sem réttkjörin stjórnvöld eiga að véla um í hvert skipti sem fjölmiðlar allra landa setja upp myndavél eða taka upp símtól. Þetta er í prinsippinu tómt rugl og alger stefnubreyting sem ég hygg að Ólafur Ragnar hafi bara ekkert umboð til að taka.

Ég geri mér grein fyrir því að margir eru ánægðir með það hvernig hann er að reyna að verja málsstað okkar nú enda höfum við engin stjórnvöld til þess. Þau eru hreinlega ekki til neins því miður en það litla sem úr þeirri átt hefur komið hefur eiginlega ruglað umheiminn fremur en hitt enda skilja siðmenntaðar þjóðir auðvitað ekki hvernig stjórnsýsla er notuð hér uppi.

En þó margir sjái Ólaf Ragnar sem bjargvætt þessa dagana þá er gott að muna að gæði þess að einhver einn afdankaður stjórnmálamaður taki stjórn landsins yfir eru ekki mæld af góðu dögunum heldur þeim slæmu.

Þar liggur hættan og því er best að hafa eina grundvallarskoðun og í mínu tilfelli er hún sú að Ólafur Ragnar sé á fullkomunum villigötum með embættisfærslu sinni og á skjön við það sem hann var kosinn til. Á meðan við viljum þingræði legg ég til að við höldum okkur við það en ekki duttlungafullt einræði Ólafs Ragnars Grímssonar.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HEYR, HEYR.

Vel mælt, Röggi.