laugardagur, 9. apríl 2011

Herra forseti, ég segi......

Stundin er runnin upp og ég ætla á kjörstað að merkja við kjörseðilinn. Andskotans Icesave málið....

Ég hef reynt að halda því fram að ekki sé hægt að komast algerlega til botns í því hvað sé rétt eða hvað sé rangt að gera í kjörklefanum. Firnagóð rök séu til beggja átta og óvissan æpandi hægri vinstri. Þannig er auðvitað ekki hægt að skilja við málið og því hef ég þvingað mig til að komast til botns í mínum eigin kolli. Ekki lítið í ráðist....

Það hef ég gert með því að lesa mér til og reyna betur að skilja það sem ég er að lesa. Og ég hef talað við fólk sem ég treysti vel og hefur um margt svipaða lífssýn og skoðanir en ég vissi að hefði aðra skoðun en ég á málinu. Slíkt er bráðhollt öllum mönnum.

Og ég fór að reyna að skilja hugtakið "kalt hagsmunamat" sem Bjarni Ben notar svo iðulega. Reyndi að skilja tilfinningar eins og réttlæti og vanmáttinn og reiðina sem við finnum þegar stórar þjóðir beita okkur kröftum til að koma fram sínum málum.

Í mínum huga er ekkert réttlæti í því að við borgum þetta og nálgun Steingríms í þessu máli frá fyrstu dögum þess hefur forhert margan manninn í andstöðunni enda enginn maður núlifandi reynst viðsemjendum okkar drýgri vinur en formaður VG. Ég hreinlega lem fastar á lyklaborðið við uppryfjunina á baráttu Steingríms og félaga fyrir fyrsta samningnum....

Margir myndu segja að það styrki nei afstöðuna að ryfja upp söguna í þessu enda hefur endurtekið nei tryggt okkur mun betri samning. Aðrir benda svo á að nei núna tryggi okkur einungis málaferli sem muni aldrei fara á þann veg að við borgum ekki neitt.

Ég hef áður sagt að ekki gengur að tengja þetta mál við ESB eða líf ríkisstjórnar. Það er pólitískur sandkassaleikur sem ég nenni ekki að leika. Þetta mál er ekki hægra vinstra þras og ekki má það snúast um það með hvaða liði maður heldur.

Þetta stendur eitt og sér finnst mér og það þarf að sortera frá hugsanir um það hvað ef og hvað ef ekki. Ef heimurinn væri betri og viðsemjendur okkar öðruvísi. Ef reglur væri ekki svona eða hinsegin. Af hverju er lífið svona ósanngjarnt? "Við" gerðum ekkert rangt og af hverju geta "þeir" ekki séð það?

Staðan sem upp er komin er bara þannig að annað hvort semjum við svona eða förum inn í réttarsal og treystum á hugvísindi sem heita lögfræði. Það er núið sem við horfumst í augu við. Tilfinningar um réttlæti heimsins heyra gærdeginum til í þessu tilliti. Nú þarf kaldan haus...

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa verið algerlega úti á túni í þessu öllu og málfutningur þeirra grútmáttlaus enda hver höndin þar uppi á móti annarri sem endranær. Ég hef því ekki fundið hvöt til að taka mark því sem þar hefur verið sagt. VG veit ekkert hvað stendur til og Samfylkingarfólk kýs út á pólitíska rétthugsun.

Ég hef talað við ótrúlega margt frábært fólk í mínu pólitíska umhverfi og skipst á skoðunum undanfarna daga. Í stuttu máli þá hef ég komist að því að þó nei sé "rétta" svarið í prinsippinu er já skynsamlegt. Réttlætiskenndin æpir á nei en við förum bara svo skammt á henni...

Skoðun mín á regluverkinu hefur ekki breyst. Skoðun mín á þeim sem ábyrgð eiga að bera ekki heldur. Álit mitt á bankaræningjunum er óbreytt. Ég heinlega þoli ekki að þurfa að borga krónu af þessum meintu skuldum okkar. Ég er beinlínis hundfúll með það...

..en hef látið sannfærast um okkur sé samt hagstæðast að gera það. Ég hef látið sannfærast um að við munum aldrei fara þannig út úr dómsmáli að við sleppum ódýrar eða á jöfnu. Ég trúi því að endurheimtur úr búi bankans verði jafnvel betri en menn héldu. Ég hef stækkað rökin fyrir því að gott sé að semja við fólk fremur en að fara í langvinnt tvísýnt stríð. Og síðast en ekki síst hef ég skilgreint sigur upp á nýtt í þessu samhengi.

Trúlega mun ég hugsa eins og margir hvort ég sé nú örugglega að gera rétt og líklega sækja góðu rökin fyrir neiinu duglega á mig strax eftir að ég hef merkt við jáið. En ég hef tekið ákvörðun og lifi með henni og ætla að bera virðingu fyrir niðurstöðunni hvernig sem hún verður og ekki að láta það eftir mér að gleðjast komi síðar í ljós að mín niðurstaða hefði skilað okkur betur fram en hin.

Herra forseti; ég segi já

Röggi

1 ummæli:

Páll J. sagði...

Burt séð frá þeirri niðurstöðu sem þú komst að þá er vandfundin á bloggum heilbrigðari umræða um þetta mál heldur en hjá þér undanfarið.