miðvikudagur, 18. maí 2011

Bjartsýni Steingríms

Steingrímur J. Sigfússon sendir frá sér grein í fréttablaðinu í dag og reynir að tala upp stemninguna í þjóðfélaginu. Þar fá menn eins og ég of fleiri ádrepu fyrir neikvæðni og svartsýni. Ráðherrann sér bjartari tíð með blóm í haga á næsta leiti og telur sér það allt til tekna.

Það er nú einu sinni þannig að það sem fer niður leitast stundum á endunum við að koma upp aftur og ég held að allir hafi vitað að frá botninum er bara ein leið, nefnilega upp á við. Ég og margir aðrir gagnrýnismenn vissum það auðvitað að við myndum ná vopnum okkar á endanum ÞRÁTT fyrir Steingrím og hans fólk og hugmyndir en alls ekki VEGNA hans.

Steingrímur og VG hafa gert allt til að tefja fyrir og gera enn. Ég þarf varla að nefna það að ef öll áform VG hefðu gengið eftir væru horfur okkar mun verri en þær þó reynast vera og nægir þar engöngu að nefna Icesave samninginn glæsilega í þeim efnum.

Kreddur flokksins í garð erlendra fjárfesta og einkareksturs eru dragbítur og ýmist áunnið skilningsleysi á nauðsyn hagvaxtar og aukinnar þjóðarframleiðslu eða meðfætt beinlínis hættulegt.

Boð og bönn og ríkishugsun er nú allsráðandi og erlendir fjárfestar sem og aðrir óbreyttir skilja hvorki upp né niður í stjórnvöldum sem tala út og suður um allskonar og daðra við löggjöf sem takmarkar viðskiptafrelsi.

Nú er sú hugsun við lýði að einkarekstur er hættulegur og hagnaður fyrirtækja þjófnaður sem ber að skila að fullu til ríkissins. Ráðherrar una sér ekki hvíldar í viðleitni sinni til að þrengja sem mest að borgurum landsins og forða þeim frá því að taka ákvarðanir um eigin mál. Ríkið ætlar að sjá um okkur í stóru og smáu.

Ég hef algera sannfæringu fyrir því að þessi nálgun er vonlaus við allar aðstæður og sér í lagi í niðursveiflu eins og nú er. Og meira að segja alvitlaus stjórnvöld megna ekki þrátt fyrir einbeittan vilja að koma í veg fyrir efnahagur þjóðarinnar finni sér farveg til þess að styrkjast.

Látum ekki blekkjast þó eitthvað rofi til. Það gerist hægar en efni standa til og það skrifast á Steingrím J umfram aðra menn.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr.

Vel mælt, Röggi.

Þjóðin þarf að hrista af sér óværuna og hafna forsjárhyggju öfgamanna.