miðvikudagur, 8. júní 2011

Af kjarabaráttu flugvirkja og leikskólakennara

Hver vill ekki fá hærri laun? Ég þekki varla nokkurn mann sem ekki myndi treysta sér til þess að fá meira útborgað. Sumir hafa eðlilega meiri laun en aðrir og þannig á það að vera. Samningar milli vinnuveitanda og launþega eru viðkvæmt mál og erfitt þegar ekki næst lending þó samningsaðilar finni í flestum tilfellum út úr því hvað er eðlilegt og gerlegt.

Þeir sem starfa hjá flugfélögum virðast þó sífellt mæta órétti og tómlæti þegar kemur að launakröfum. Flugumferðastjórar eru í þeirri stöðu líka að þurfa sífellt að stunda skærur gagnvart vinnuveitendum sínum til að fá þá til að mæta eðlilegum kröfum sínum. Þetta þekkjum við öll því fætingurinn bitnar á okkur öllum með allskonar óþægindum og aukakostnaði jafnvel.

Ég veit ekkert hvað eru sanngjörn laun fyrir flugumsjón eða flugvirkjun og sjálfsagt eru þeir sem þessi vanþakklátu störf vinna ekki of góðir launa sinna. Ég veit þó að laun fyrir þessi störf eru mun betri en margra annarra þó samanburður sé erfiður en ég skil ekki af hverju er ekki hægt að semja við þessar stéttir án átaka.

Nú ætla leikskólakennarar að greiða atkvæði um boðun verkfalls í ágúst ef ekki semst. Hvað er að hjá þjóð sem metur störf leikskólakennara einskís en borgar fólki stórfé fyrir að hafa eftirlit með vélum? Ég geri alls ekki lítið úr flugvirkjum og þeirra störfum en þurfum við ekki að gera mikið úr störfum þeirra sem hafa umsjón með börnum okkar fyrstu árin?

Þegar flugvirkjar hafa náð að kreista eðlilegar launahækkanir út úr vinnuveitendum sínum legg ég til að þeir boði til samúðarveikinda og leggist í yfirvinnubönn til stuðnings kjarabaráttu leikskólakennara enda er ég viss um að flugvirkjar eiga sumir börn á leikskóla eins og aðrir og hafa því hagsmuna að gæta í málinu.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað knýr fólk sem vinnur á leikskólum því ekki eru það launin fyrir erfiða vinnu. Af hverju er það fólk ekki stanslaust í skærum og leiðindum í baráttunni? Það myndi svo sannarlega koma við marga og setja þrýsting.

Ég er nú bara að velta þessu fyrir mér......

Röggi

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eitt er a.m.k. víst. "Sanngjörn laun" eru markaðslaun, ekki tölur sem lesnar eru út úr einhverjum félagsverkfræðilegum listum um "mikilvægi" hins og þessa.

fjola sagði...

Ég held að engum detti í hug að laun leikskólakennara eftir 5 ára háskólanám 247.000 kr. á mánuði séu "Sanngjörn laun" hvað sem líður félagsverkfræðilegum listum.

Hildigunnur sagði...

Nafnlaus, uh nei...

Gulli sagði...

Spurning hvort leikskólakennarar væru til þá að fara í samskonar "samúðarverkfall" með flugvirkjum?