laugardagur, 4. júní 2011

Landsdómshneykslið að hefjast

Pólitík er merkileg tík. Fólk skipar sér í sveitir og réttlætir það sem þeirra fólk gerir og bölvar hinum. Þetta á að einhverju leiti við um okkur öll. Þeir sem eru pólitískt meðvitaðir og upplýstir byggja skoðanir sínar á grundvallarsjónarmiðum sem rýma við þá almennu skynsemi sem hverjum manni er úthlutað.

Og svo tökumst við á um málin og erum oft svo hjartanlega ósammála. Sjálfsagt er hægt að deila endalaust um það hvað er rétt og rangt í pólitík en við getum þó flest verið sammála um að stjórnmál snúast um það að fólk fylgi sannfæringu sinni og í þeim leik megum við vera sammála um að vera ósammála.

Stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem byggðar eru á upplýsingum og pólitísku mati hverju sinni. Stundum leikur sagan þessar ákvarðanir illa eins og og við þekkjum en reglur leiksins eru þær að enginn getur ákveðið fyrir alla hvað eru góðar upplýsingar og rétt pólitískt mat og á endanum er hinn eini dómur sem skiptir máli dómur kjósenda á kjördegi.

Þetta er þessi hugsun sem lýðræðisríki nútímans hafa samið sig að. Meirihlutinn má hafa pólitískar skoðanir og breyta samkvæmt þeim þó sagan leiki þær stundum illa.

Við höfum í dag sitjandi ríkisstjórn sem gerir það að karríer að taka afleitar ákvarðanir um pólitísk málefni hvort sem það hefur snert Icasave eða efnahagsmál svo eitthvað sé týnt til. Ég hef engan efa um að sagan mun fara afar hörðum orðum um þessar embættisfærslur og bind vonir við að sú saga verði öll sögð á næsta kjördegi. Þannig virkar systemið...

Einhver mesta svívirða og niðurlæging þessara ríkisstjórnar er nú að fara í gang með pólitískum réttarhöldum yfir Geir Haarde. Ekki er einungis gengið gegn grundvallarsjónarmiðum vestrænna gilda þegar Geir er ákærður fyrir það að vera stjórnmálamaður heldur er haldið þannig á málinu frá fyrstu stundu að fólki ætti að ofbjóða. Nýjasta klúðrið í þeim efnum er að saksóknari ætlar sér að reka sína hlið málsins á netinu á kostnað skattborgaranna. Getur þú sett þig í þau spor að þurfa að þola svona málsmeðferð fyrir dómstólum?? Hvaða hugarfar þarf maður að hafa til að bera til þessa að fá svona hugmynd?

Ævarandi skömm þeirra einstaklinga sem splæstu atkvæðinu á þessa niðurstöðu er tryggð og öruggur sess í Íslandssögunni. Sumir hafa nefnt það í fullri alvöru að draga beri Steingrím og Jóhönnu fyrir samskonar skrípadómstól eins og Geir þarf að mæta.

Kannski væri einhverjum hugarró og huggun í slíku en því mun ég aldrei greiða mitt atkvæði. Við erum komin lengra en þetta og Guð forði okkur frá því að lögmenn dubbaðir upp í saksóknaragalla verði fengnir til þess í framtíðinni að ákveða hvað var góð pólitík og hver vond.

það er nákvæmlega það sem hér er að gerast og þeir sem eru því samþykkir ættu að sleppa því í framtíðinni að hneykslast á þeim þjóðum vanþróuðum sem slíkt stunda.

Á svona dögum þurfum við að hafa okkur upp úr gömlu hjólförunum þar sem við höldum með okkar liði og þolum ekki hitt því ekki mun líða á löngu áður en tækifæri geta komið til að draga fleiri fyrir dómstól af þessu tagi samþykkjum við þessa aðferð.

Þetta er ótrúlegt dæmi um fullkomið og hreinræktað dómgreindarleysi þingmanna sem skilja ekki grundvallaratriði lífsins og gátu ekki neitað sér um að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga í stundargleði sigursins.

Flóknari hugsun var nú ekki að baki þessum herfilega afleik því miður....

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

100% sammála þér.

Megi hver sú hönd visna sem greiddi atkvæði með því að draga Geir fyrir dóm.

Þetta fólk mun fá borgað fyrir þetta síðar meir og iðrast þess að hafa haft framgöngu í þessu pólitísku réttarhöldum.