miðvikudagur, 19. október 2011

Þegar Björn Valur snappar

Björn Valur Gíslason er með Ólaf Ragnar á heilanum. Reyndar hafa vinstri menn verið með hann á heilanum lengi. Lengi vel voru gaurar eins og Björn Valur í klappstýruhlutverkinu. Það var þegar félagi Ólafur Ragnar gerði það sem Birni Val og hans liði fannst fallegt. Það eru einu prinsippin sem Björn Valur telur þess virði að verja þegar kemur að forseta Íslands.

Kannski þarf að halda því skilmerkilega til haga að Ólafur Ragnar er ekki minn maður. Var það ekki sem stjórnmálamaður og enn síður sem forseti. Leðjuslagur gömlu kommana núna um embætti forseta er aumkunarvert og í raun dapurlegt að þurfa að heyja þetta innanhússtríð vinstri manna úr þingflokksherbergjum VG og Samfylkingar til Bessastöðum. Stríð sem snýst í raun sama og ekkert um embættið heldur meira um persónuna Ólaf Ragnar.

Björn Valur hefur eftir því sem ég best fæ séð enga grundvallarskoðun á embætti forseta. Hann veit ekkert hvað þrískipting valds er. Honum finnst í aðalatriðum að forsetinn eigi að vera með réttar skoðanir. Og botnar hreint ekkert í því að forsætisráðherra skuli ekki ráða því hvernig embætti forseta fúnkerar.

Í dag skrifar Björn Valur grein um forsetann sinn. Grútmáttlaus grein og samhengislaus og ljóst að þingmaðurinn getur vart á heilum sér tekið af pirringi og það er ekki gott vegarnesti eingöngu þegar menn ryðjast fram undir þeim formekjum að þeir hafi eitthvað fram að færa.

Þessi áunni pirringur út í persónuna Ólaf Ragnar tók að gera vart við sig þegar hann ásamt allri þjóðinni að undanskilinni ríksstjórninni hans Björn Vals hafnaði Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem sumir ráðherrar lýðræðiselskandi töldu sig ekki þurfa að taka þátt! Talandi um að hæðast að þjóð....

Þann "glæp" getur Björn Valur ekki fyrirgefið og það er eina ástæða þess hvernig þingmaðurinn ólmast. Dýpra ristir þetta nú ekki.

Og þegar Björn Valur snappar þá skrifar hann reiðigreinar og rífur kjaft. Þessir tveir eiga hvorn annan nefnilega skilið.

Öfugt við þjóðina.....

Röggi

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér eru niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um ÓRG :Ályktanir og lærdómar
Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi
vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri
með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist
að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í
þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki.
Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum
siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar
og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í
sögu H.C. Andersen.
Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki
og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt
nokkrum sinnum eftir hrunið.766 Forsetaembættið var óspart nýtt í þágu einstakra
aðila til að koma á tengslum víða um lönd. Þegar lýðræðislega kjörinn
forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan
hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. Þar liggur
ábyrgð forseta Íslands. Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða,
drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust
á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn
taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og
þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við
ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða
sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga. Þrátt fyrir að kenningar
forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann
tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum
umsvifum íslenskra fyrirtækja.
Lærdómar:
• Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
• Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur
ríki.
• Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars
yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu
stuðning.

Níels A. Ársælsson sagði...

Björn Valur er búrtík LÍÚ.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að benda á fína grein Björns Vals.