þriðjudagur, 11. október 2011

Kirkjunnar vandi

Þau verða ekki erfiðari málin en kynferðisbrotamálin. Sannanir oft ekki til staðar og viljinn til að trúa þeim sem tala svo sterkur. Ég veit ekki um nokkurn mann sem ekki trúir Guðrúnu Ebbu en fyrir dómstóla og í hennar tilviki þjóðkirjuna vantar sannanir og helst játningu svo hægt sé að grípa til ráðstafana. Þetta er vissulega snúið en samt....

Ég ætla að halda því fram að líkindi til þess að hópur ótengdra kvenna, eins og í máli Ólafs Skúlasonar, taki sig til og beri kynferðisglæpi á einn mann séu engin. Bara alls engin. Hver ætti hvatinn að geta verið? Hver ætti hvati barns sem ber slíkt á föður sinn út yfir gröf og dauða að vera?

Ólafur talaði um djöfulinn þegar konurnar hófu að segja frá en aðrir menn í svipaðri stöðu í dag tala um hefnd, heimsku og hatur. Og þar við sat. Og situr enn og lífið heldur svo sinn vanagang...

Kirkjan minnir mig á lögregluna hér áður fyrr sem tók alltaf varðstöðu með gölluðu eplunum sem klæddust búningnum. Það var alltaf veikleiki að játa mistök. Mér finnst þeir menn sem tala opinberlega fyrir þjóðkirkjuna hafa það helst að markmiði að sleppa sem þægilegast frá málum og alveg örugglega án þess að biskup axli ábyrgð. Hvaða andskotans máli skipta fjárbætur í þessu samhengi? Þær eru vissulega til einhvers fyrir fórnarlömbin en þær leysa kirkjuna svo sannarlega ekki úr snörunni.

Þjóðkirkjan er orðin kerfi sem leitast við að verja sig og sína alltaf og allsstaðar. Þetta kerfi mallar á sjálfstýringu og er prógramerað þannig að aldrei megi játa neinn skandal. Fyrir okkur hin er það skandall.

Það þarf ekki lögfræði eða nein önnur vísindi til þess að sjá að þegar Karl biskup stingur bréfi Guðrúnar Ebbu ofan í skúffu er hann að bregðast. Enginn Guð og engin orð geta breytt því. Öll eðlileg viðmið venjulegs fólks fær það til að komast að þeirri niðurstöðu. Engin rök finnast með feluleiknum.

Kerfið leitast við að sleppa við að taka á því máli með því að tala um að málið snúist ekki um einn mann heldur kerfið í heild. Ég veit ekki hvort kemur á undan í þessu en niðurstaðan getur aldrei orðið á þann veg að Karl sitji áfram.

Mér er sama hvort eitthvað system eða skrifræði sagði biskup að fela bréfið eða ekki. Hann verður að stíga til hliðar. Sjálfs síns og kirkjunnar vegna. Af hverju blasir þetta við öllum öðrum en kirkjunnar mönnum? Hvaða hagsmunir eru mikilvægari kirkjunni en trúverðugleiki?

Kirkjan kann að kenna öðrum að njóta þess að fyrirgefa en hún kann ekki að fyrirgefa sjálfri sér. Kirkja sem glatar þeim hæfileika þarf ekki að láta það koma sér á óvart ef sóknarbörnin tapa trúnni.

Kirkja sem ekki biðst afsökunar af fullum heilindum og bregst myndarlega við núna á ekki skilið að henni sé fyrirgefið.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heldurðu að það geti ekki verið að Karl sé bara einfaldlega hræddur um að breytast í saltstólpa ef hann lítur til baka?

Starfið hans byggir hvort eð er á hjátrú.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

"Þjóðkirkjan er orðin kerfi sem leitast við að verja sig og sína alltaf og allsstaðar. Þetta kerfi mallar á sjálfstýringu og er prógramerað þannig að aldrei megi játa neinn skandal. ...."

Ég veit ekki betur en kirkjunnar menn hafi játað mistökin ítrekað og lofað að læra af þeim.

"Það þarf ekki lögfræði eða nein önnur vísindi til þess að sjá að þegar Karl biskup stingur bréfi Guðrúnar Ebbu ofan í skúffu er hann að bregðast"

Hvar átti að geyma bréfið meðan verið var að vinna eftir tilmælunum í því? Var ekki komið á móts við allar beiðnir í því? Átti að brjóta persónuverndarlög og koma innihaldinu í fjölmiðla áður en Guðrún Ebba var sjálf tilbúin til að gera það?