þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Kastljósið, Bjarni og ábyrgð fjölmiðla

Bjarni Benediktsson var í Kastljósinu hjá Helga Seljan í kvöld. Þar var hann að bregðast við umræðum sem hafa magnast undanfarið um viðskiptasögu Bjarna. Þessi umræða er rekin af DV sem hefur eins og svo oft áður ekki þörf fyrir annað en eigin sannfæringu þegar þar eru felldir dómar.

Helga Seljan tókst á endanum að gera Bjarna reiðann og það fór honum bara býsna vel og Seljan var á flótta eftir það og virtist brugðið og fann ekkert betra á blaðinu en spurningu sem verður án efa klassík í fjölmiðlafræði 101, nefnilega spurninguna um það hvað Bjarni hefði gert við peninga sem hann fékk fyrir hlutabréfasölu.......

Ég hygg að Helgi hafi sérgáfu á því sviði að reita menn upp enda hefur hann sérstakt lag á því að hlusta í engu á svör viðmælenda heldur þrástagast við spurningar sem hefur verið svarað og frammígrip formanns Framsóknarflokksins á þingi smámunir miðað það sem Helgi býður upp á.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé óskastaða fyrir stjórnmálamann að standa í svona löguðu en skil að Bjarni grípi til varna nú. Ég hef sterka samúð með því sjónarmiði að óþolandi er að fjölmiðill sem rekinn er áfram af pólitík telji sig ekki þurfa að taka þátt í umræðum sem byggja á rökum og grundvallaratriðum í lögfræði þegar ásakanir á hendur einstaklingum um lögbrot er haldið á lofti.

Kostulegt var að sjá Helga reyna að fá Bjarna til að bera ábyrgð á því sem bankarnir gerðu. Krafan um að þau fyrirtæki sem Bjarni kom eitthvað að séu einu fyrirtæki Íslands sem urðu ónæm fyrir falli bankanna er út í hött en spurningar Helga sem hlýtur að hafa átt betri daga byggðust á þeirri heimspeki stundum.

Það er svo staðreynd að Bjarni Ben var ekki einn um þá vitneskju að bankarnir voru í veikri stöðu þegar hann seldi bréf í banka. Þetta var enda ekki leyndarmál hvorki fyrir honum né öðrum á þessum tíma og hver sérfræðingurinn ofan í annan skrifaði lærðar greinar um málið og gott ef ekki Bjarni sjálfur auk þess sem mikil lækkun á bréfum bankanna var ekki einkavitneskja nokkurs manns.

Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að þau gildi sem vestræn ríki hafa valið sér um réttarríkið sé góð leið til að kveða upp úr um sekt eða sakleysi manna. Þannig er best tryggt að allir verði jafnir þegar gert er upp.

Þessu hafna margir nú um stundir eða reyna að vera með valkvæða skoðun á slíku. Skoðun sem byggir á því að rannsakendur og dómstólar séu til skrauts nema þegar þeir komast að réttri niðurstöðu.

DV og þau 12% sem treysta blaðinu telja að skoðun á málum Bjarna hafi ekkert gildi. Niðurstöður þeirra athugana hlutlausra aðila skipta ekki máli ef sannfæring blaðsins er nógu mikil fyrir öðru. Enginn þarf þó að efast um að öndverð niðurstaða í sama máli yrði burðaratriði í umfjöllun blaðsins.

Ég skil vel að stjórnmálamenn eru í viðkvæmari stöðu en margir aðrir og til þeirra verður að gera kröfu um traust. En ef þeir sem stunda stjórnmál geta ekki með neinum rökum varið sig fyrir umfjöllun fjölmiðla þá verður að spyrja á hvaða vegferð erum við? Hafa stjórnmálamenn enga möguleika og enga leið til andsvara gagnvart fólki sem gefur út blöð?

Þeir sem gleðjast nú af pólitískum ástæðum ættu að skoða þessi mál í stærra samhengi. Fjölmiðar hafa ekki bara réttindi heldur einnig skyldur og ábyrgð þeirra er stór. Enda nota þeir sem gefa út blöð röksemdina um ábyrgð og skyldur alltaf sér í hag og hirða oft lítið um réttindi þeirra sem um er fjallað.

Hvernig væri staðan hjá okkur ef dómstólar lifðu eftir prinsippum sem sumir fjölmiðlar lifa eftir? Þar sem sönnunarbyrðin er ávallt hjá þeim sem er borinn sökum og meðferð málsins lýkur ekki fyrr en vitnið hefur játað hvað sem rök og leikreglur segja. Þannig hagar DV sér stundum og þeir sem hafa hagsmuni af öllu saman láta glepjast af stundarhagsmunum stórpólitískum.

Ég velti því fyrir mér hvernig fólk sem fjölmiðill hefur sakfellt getur í raun losnað undan refsingunni sem fylgir því að fá fleiri hundruð greinar um sig í blaði þar sem engin svör hvernig svo sem reynt er eru tekin gild.

Það er ein stærsta spurningin sem er ósvarað eftir heimsókn Bjarna í Kastljósið.

Röggi

3 ummæli:

Guðmundur sagði...

Ertu ekki að mistúlka aðeins þessa umfjöllun? Vissulega getur þetta farið út í skítkast og pólitíska áráttu (þessi vörn þín litast nú líka af því að Bjarni er formaður þíns flokks), en þetta snýst auðvitað ekki um að fyrirtækin sem Bjarni kom að þurfi að hafa verið ónæm fyrir hruninu. Þetta snýst um hvort eitthvað í starfsemi þeirra hafi orkað tvímælis, og þar af leiðandi snýst þetta um hvort Bjarni hafi sýnt dómgreindarleysi í sinni aðkomu og hlutdeild. Þar sem við erum að tala um hugsanlegan framtíðarforsætisráðherra landsins er auðvitað nauðsynlegt að fá úr því skorið. Og því fyrr því betra, ekki síður fyrir hann sjálfan.

Nafnlaus sagði...

Sínum augum lítur hver á silfrið Röggi. Ég upplifði formannin í Kastljósinu sem gaur sem var í bullandi vörn og lítandi á sig sem fórnarlamb. Auk þess fannst mér hann dónalegur.

Svo virtist hann ófær um að aðskilja manninn BB frá formanni FLokksins.

Helgi Seljan fær laun fyrir aðgangshörku og jafnvel dónaskap ef með þarf en ég er ekki viss um að það sé formanninum til framdráttar að vera það.

Þorsteinn Úlfar Björnsson

Nafnlaus sagði...

það er svo margt rangt við þennan pistil að maður veit ekki hvar maður á að byrja... þannig að ég sleppi því bara :)