fimmtudagur, 29. mars 2012

Jafnréttisorðræðan

Hvað ætli ég hafi verið gamall þegar ég heyrði orðið feministi fyrst? Kannski er ekki svo langt síðan þannig séð. Ég man heldur ekki nákvæmlega hvað ég var gamall þegar ég lærði þau eilífu sannindi að auðvitað á að vera fullt jafnrétti kynjanna. 

Ég skyldi það mætavel þá og alla tíð síðan en ég skil nú ekki allt sem sumir sem kalla sig feminista eru að reyna að gera góðum málsstað sínum til hagsbóta. 

Ég get auðvitað fabúlerað um allskonar í þessum samhengi. Í mínu umhverfi er ekki einn maður/kona sem vill ekki fullt jafnrétti. Við skiljum ekki hvar tappinn er en vitum þó að mikið hefur áunnist þó enn vanti.

Eins og með sum önnur ágæt mál hefur umræðan um jafnréttið mátt þola það að öfga fólk hefur tekið málið yfir og eignað sér. Það kann sumum að þykja undurfagurt enda öfgar stundum hreyfiafl breytinga. 

En í þessu tilfelli hefur það gerst að baráttuaðferðirnar snúast um að finna óvininn  sem reynast þá oftar en ekki vera öfga rugludallar karlkyns hinu megin á kvarðanum. Þessir hópar hafa svo dundað sér við að halda til haga og birta lista yfir vont fólk sem hatar hitt kynið.

Og meginþorri þjóðarinnar er í forundran að reyna að fatta hvað málið snýst orðið um. Fæstir hafa nennu til að taka þátt í svona ati og afleiðingin er sú að þörf  umræða kafnar og málefnin komast minna að.

En á meðan á þessari heldur kjánalegu orðræðu stendur heldur jafnréttið bara áfram að festa sig í sessi á sífellt fleiri sviðum og kærir sig kollótt um það hvernig hinn eða þessi hagar líkamshirðu sinni eða bölsóttast út í fólk á öndverðri skoðun.

Röggi










miðvikudagur, 21. mars 2012

Afbrigðið

Það er ekki alltaf praktískt bannsett lýðræðið. Það getur verið svifaseint og þungt sér í lagi stjórnvöldum sem ekki mega vera að því að koma málum í gegnum afgreiðslustofnanir eins og alþingi.

Í dag gerðist það að ekki tókst að fá nægjanlegan stuðning við afbrigði á alþingi til þess að koma mjög mikilvægu máli, nefnilega stjórnarskrármálinu, áfram í gegnum þingið á styttri tíma en venjulega er ætlaður.

Það er einhver hroki í því að geta ekki þolað þinginu að vinna eftir þeim reglum sem löggjafinn kýs hverju sinni. Sumir þeirra sem hafa gagnrýnt þetta hástöfum telja sig alla jafna sérstaka boðbera aukins sjálfstæðis þings gagnvart framkvæmdavaldi og hafa talað um virðingu þings og hvatt til vandaðra vinnubragða.

Hvað varð um fagurgalann um að tryggja minnihlutanum rétt á löggjafarþinginu? Á það bara að vera stundum og þá kannski helst eftir pólitískum meginlínum?

Ég dett í ákveðnar stellingar þegar þingmeirihluti og eða stjórnvöld hafa ekki tíma til þess að bera virðingu fyrir lýðræðinu vegna þess að Fúsa liggur á að koma málum í gegn um löggjafann. Hvar stæðum við ef Steingrími og Birni Val hefði tekist að koma Icesave í gegnum þingið með flýtihnappnum?

Það er vissulega þreytandi þegar ekki tekst að fá það sem maður vill. Ekki síst ef maður hefur sterka tilfinningu fyrir mikilvægi þeirra mála sem barist er fyrir. En það er lítilsvirðing að hrakyrða þá sem ekki eru tilbúinir þegar hentar að vera á sama hraða og vilja nýta sér þann sjálfsagða rétt að fara fram á að þingið vinni eftir þeim meginreglum sem almennt gilda.

Við getum og megum vera ósammála um málin út og suður en helst ekki gleyma rétti kjörinna fulltrúa á löggjafarþinginu til þess að hafa skoðanir á vinnuferlinu.

Röggi

þriðjudagur, 13. mars 2012

Ekkert fútt í landsdómi

Landsdómsmálið er orðið leiðinlegt. Það gerist ekkert. Engar bombur ef ég reyni að gleyma því að forystumenn Samfylkingarinnar eru ýmist fullkomlega ósammála eða minnislaus í vitnastúkunni. Ritstjóri eyjunnar talar um að slíkt sé innanflokksmál. Nýstárleg nálgun það...

Flest vitnin styrkja málflutning ákærða í aðalatriðum og því hafa þeir sem héldu að Geir yrði leiddur til slátrunar tekið upp pirring yfir formi og aðstöðuleysi. Þorvaldur Gylfason skilur ekki af hverju Geir er ekki hafður í búri svo hann geti ekki rætt við vitnin og bloggarar og álitsgjafar semja brandara vopnaðir orðhengilshætti sem fengi hvaða landsdóm sem er til að skella upp úr.

Hvað héldu menn að þarna myndi eiga sér stað? Ég les allskonar ummæli sem benda til þess að ýmsir haldi í raun og veru að þessi dómur eigi að vera pólitískur. Landsdómur á að fjalla um þá ákæru sem borin er á Geir en ekki að vera tækifæri fyrir stjórnvöld og fylgsveina þeirra til þess að fá útrás fyrir óþol sitt gagnvart einstaka vitnum.

Það er nefnilega orðið þannig að ákæran og Geir sjálfur er eiginlega að gleymast. Því eins og einn sagði, og meinti það reyndar þannig að Geir væri sekur, það er að koma í ljós að Geir vissi ekki að allt var að fara til fjandans frekar en aðrir, ef frá er talinn Arnór Sighvatsson!, og þegar hann vissi það var ekki hægt að bregðast þannig við að hruni yrði forðað. Sem sagt; ekkert nýtt að koma fram í þeim efnum og þau mistök sem voru gerð virðast hafa verið heiðarleg mistök en ekki landráð.

Landsdómur afhjúpar reyndar mjög margt sem varð og verður að gera betur og veitir þeim sem fá sæti einhverja innsýn í það hvernig systemið virkar nú eða virkar ekki og að því er mikið gagn.

En landsdómur er ekki vetfangur fyrir eitthvert uppgjör við gamla pólitíska andstæðinga eins og margir virðast halda. Hann er ekkert leiktæki á róluvelli stjórnmálamanna dagsins sem vilja fá að drullumalla.

Það er lágmark að þeir sem um málið fjalla sýni bæði dómnum og Geir Haarde þá virðingu að gleyma ekki að heiður hans og æra er þarna til umfjöllunar og vitnaleiðslurnar eru til þess að reyna að varpa ljósi á það hvort ákærurnar eigi við rök að styðjast.

Það er hlutverk landsdóms og annað ekki. Landsdómur á að spyrja spurninga sem varða ákæruna en ekki pólitík og þá stundarhagsmuni sem sú tík nærist á.

Við megum ekki gleyma því að landsdómur er alls ekki pólitísk stofnun þó ákæran sjálf sé ekki annað en pólitísk brella.

Röggi

miðvikudagur, 7. mars 2012

Hroki Þórs Saari

Þau draga dilk á eftir sér ummælin sem Þór Saari viðhafði eftir árásina á lögmanninn. Saari er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar. Honum skolaði inn á þing og hefur heldur betur látið til sín taka og er með lausnir á öllum vanda okkar en af einhverjum ástæðum hlusta fáir.

Þór Saari tekur stundum stórt upp í sig og slær í báðar og ég ætla ekki að gagnrýna hann fyrir það. Það sem hann skortir hins vegar er færni í skoðanaskiptum þegar að honum er sótt. Þá verður þessi stíll hans allt að því barnalegur og inntakið í rökræðunni víkur fyrir ólund sem engum dylst.

Saari sparar þeim ekki orðin sem hann segir ekki kunna að lesa þessa grein hans en það myndi vera meginþorri þjóðarinnar ef mér skjátlast ekki þeim mun meira um Íslenska þjóð.

Ég heyrði á tal afbrotafræðings í útvarpi allra landsmanna í morgun. Ég held að Þór Saari ætti að finna tíma í að hlusta á það tal. Þar talar sérfræðingurinn um að tilraunir til þess að finna svona atburðum rökréttar skýringar séu beinlínis hættulegar og geti ýtt undir andfélagslega hegðun af því tagi sem þetta ofbeldisverk er sannarlega.

Við eigum að fordæma þennan atburð án skilyrða og ég verð að segja að ég skil ekki hvernig fólk getur sagt að við þessu hefði kannski mátt búast. Þannig umræðu er erfitt að misskilja og ég held að menn eins og Þór Saari ættu að staldra við og velta því upp innra með sér hvort sú umræðuhefð sem hefur skapast hér og fylgdi í kjölfar hrunsins sé ekki kominn út fyrir alla almenna skynsemi.

Einnig væri gagn að því að hann hjálpaði okkur sem ekki kunnum að lesa greinar sem hann skrifar. Hann þarf að vera okkur innanhandar sem ekki kunnum að lesa hann í stað þess að atyrða.

Hroki þess sem allt veit lekur af stjórnmálamanninum í þessu máli og hann lætur okkur fara í taugar sínar. Mér finnst sá eiginleiki ekki gera mikið fyrir hann.

Röggi

mánudagur, 5. mars 2012

Ofbeldi umræðunnar

Ofbeldi birtist með ýmsum hætti. Í gær ruddist maður inn á lögfræðistofu og réðist með hnífi að fólki sem þar vinnur. Þótt ótrúlegt megi virðast hef ég rekist á ummæli fólks sem tekst að sjá slíkt óhæfuverk sem rökrétta framvindu einhvers og að vissu leyti skiljanlega

Engar aðstæður og engin forsaga réttlætir svona nokkuð. Engu skiptir hvort kveikjan að þessu var skuld vegna mótorhjóls eða fjölbýlishúss. Allt annað en skilyrðislaus fordæming er fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg. Engin málsstaður er svo göfugur eða skiljanlegur að réttlæta megi svona.

Nú um stundir þykja þeir flottir sem yfirbjóða duglega í umræðunni. Fólk er jafnvel hvatt til þess að sniðganga lög og rétt eftir hentugleika. Þeirri hugsun komið inn að telji menn óréttlætið nógu mikið sé í lagi að sniðganga lög og rétt eftir smekk hvers og eins.

Þeir sem stunda lánastarfsemi eru allir og alltaf glæpamenn og þeir sem skulda eru að jafnaði fórnarlömb. Lögmenn eru allir vondir og gráðugir starfsmenn slitastjórna sem gera sér mat úr hörmungum annarra.

Lögreglan beitir ofbeldi þegar hún sinnir lögbundnu hlutverki sínu. Öfgar eru allt í einu fínir og heimavarnarlið og stórar systur taka sér vald dómstóls og böðuls í nafni réttlætis sem er virðist ekki lúta prinsippum heldur miklu frekar óstöðugum tilfinningum.

Það er alvarlegt að vega að grunnstoðum samfélagsins eins og margir hafa gert frá hruninu. Að tala niður virðingu fyrir grundvallarreglum og þeim stofnunum sem halda utan um lög og rétt.

Við þurfum auðvitað ekki að vera sammála eða ánægð með alla hluti en við ættum að vera sammála um að breytingar eiga ekki að snúast um öfga og ofbeldi hvort heldur það er í orði eða verki.

Ég finn alls engan samhljóm með fólki sem reynir að setja þessa fyrirlitlegu árás á samfélagið í samhengi við þann mikla vanda sem alltof margir eru að reyna að koma sér í gegnum eftir hrunið.

Það er hverjum manni einfalt að setja sig í spor þeirra sem ekki sjá bjartan dag vegna skulda og að finna til samkenndar. Það ætti einnig að vera þeim sama sára einfalt að finna til samúðar með fórnarlambi þessarar árásar og að skilja að siðaðir menn geta ekki samþykkt eða litið undan þegar svo er komið að fólk gerir tilraun til að myrða í nafni óréttlætis.

Af því má ekki gefa neinn afslátt og ekki gleyma því að orð eru til alls fyrst og ofbeldið í umræðu dagsins getur svo sannarlega gert mikið ógagn.

Röggi

Landsdómur í felum

Styrmir Gunnarsson hittir naglann rækilega á höfuðið þegar hann talar um afdalaháttinn sem ræður þeirri ákvörðun að sýna hvorki beint frá landsdómi né útvarpa.

Hvað er verið að sýsla við þar sem er varasamt að þjóðin fái að hlusta á? Lítill vafi er að fjölmiðlar margir munu týna út þá bita sem hentar hverju sinni allt eftir smekk og túlka á þann hátt sem fyrirframskoðunum hentar.

Mitt í þeirri ótrúlega skömm sem þetta mál er þeim vesalings stjórnmálamönnum sem greiddu þessum pólitísku réttarhöldum atkvæði sitt bundir af hentistefnuhjarðeðli hefðu verið snefill af manndómi af standa þó fyrir því að réttarhöldin og það sem þar kemur fram sé ekki í einkaeigu fjölmiðla og stjórnmálamanna og háð þeirra túlkun.

Það er fjandakornið ekkert að óttast. Varla getur verið að þarna muni koma fram upplýsingar sem koma öðrum illa en hinum ákærða. Ákærunni hefur verið komið með afgerandi hætti til þjóðarinnar en nú þegar réttað verður og sakborningur tekur til varna um mál sem búið er að tala um lengi og matreiða eftir stórpólitískri matarlyst þá má ekki koma því til þjóðarinnar með beinum hætti.

Þetta er svo sannarlega afdalamennska og reyndar er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta sé annað og meira en bara afdalamennska.

Röggi

fimmtudagur, 1. mars 2012

Andersen og FME

Því er eins farið með mig og marga aðra að ég er ekki alveg með það á hreinu hvað gengur á hjá
Gunnari Andersen og FME. Það er eitthvað ósagt í málinu og Gunnar rær á þær öldur að stjórn FME hafi óhreint mjöl í poka gagnvart sér.

Ég sjálfur skil illa hvaða hagsmuni stjórn stofnunarinnar gæti haft í því að vikja forstjóranum úr starfi aðra en að viðhalda trúverðugleika hennar.

Gunnar hefur reynt að koma málinu í þann farveg að vondir menn sem hann hafi verið að skoða standi á bak við allt saman. Þetta virkar kannski ekki ósennilegt við fyrstu sýn séu menn þannig innstilltir en þetta er þó ekki stutt rökum.

Gunnari hefur tekist að fá stuðning þeirra sem vilja þessa tengingu og svo líka hinna sem sjá pólitík í málinu. Margir taka svo afstöðu með eða á móti forstjóranum fyrrverandi eftir því hvernig hin pólitíska mælistika liggur.

Lögmaður Gunnars ber sig illa eðlilega og fær enda borgað fyrir það. Hann kvartar undan því að sinn maður viti ekki hvers vegna honum er sagt upp störfum og þjóðin dansar með og dundar sér við að næra sitt helsta tómstundargaman sem er að smíða samsæriskenningar.

Auðvitað veit lögmaðurinn um hvað málið snýst enda breytti hann skyndilega um takt og fór að berjast fyrir því að ekki hafi verið löglega að málinu staðið. Þá var ekki verið að rökræða málsatvikin.

Þjóðin heimtar að fá að vita í smáatriðum hvað hér er um að vera. Hversu sanngjarnt er það? Er víst að stjórn FME geti rekið málið í fjölmiðlum eins og forstjórinn hefur gert?

Ég er að hugsa um að hinkra eftir málsmeðferðinni og láta ekki eftir mér að hafa hentuga skoðun á málinu.

Ég vona að allir séu að vinna vinnuna og áskil mér rétt til þess að vera óánægður sé svo ekki. Þangað til allt verður uppi á borðum í málinu er best að anda rólega.

Röggi