þriðjudagur, 13. mars 2012

Ekkert fútt í landsdómi

Landsdómsmálið er orðið leiðinlegt. Það gerist ekkert. Engar bombur ef ég reyni að gleyma því að forystumenn Samfylkingarinnar eru ýmist fullkomlega ósammála eða minnislaus í vitnastúkunni. Ritstjóri eyjunnar talar um að slíkt sé innanflokksmál. Nýstárleg nálgun það...

Flest vitnin styrkja málflutning ákærða í aðalatriðum og því hafa þeir sem héldu að Geir yrði leiddur til slátrunar tekið upp pirring yfir formi og aðstöðuleysi. Þorvaldur Gylfason skilur ekki af hverju Geir er ekki hafður í búri svo hann geti ekki rætt við vitnin og bloggarar og álitsgjafar semja brandara vopnaðir orðhengilshætti sem fengi hvaða landsdóm sem er til að skella upp úr.

Hvað héldu menn að þarna myndi eiga sér stað? Ég les allskonar ummæli sem benda til þess að ýmsir haldi í raun og veru að þessi dómur eigi að vera pólitískur. Landsdómur á að fjalla um þá ákæru sem borin er á Geir en ekki að vera tækifæri fyrir stjórnvöld og fylgsveina þeirra til þess að fá útrás fyrir óþol sitt gagnvart einstaka vitnum.

Það er nefnilega orðið þannig að ákæran og Geir sjálfur er eiginlega að gleymast. Því eins og einn sagði, og meinti það reyndar þannig að Geir væri sekur, það er að koma í ljós að Geir vissi ekki að allt var að fara til fjandans frekar en aðrir, ef frá er talinn Arnór Sighvatsson!, og þegar hann vissi það var ekki hægt að bregðast þannig við að hruni yrði forðað. Sem sagt; ekkert nýtt að koma fram í þeim efnum og þau mistök sem voru gerð virðast hafa verið heiðarleg mistök en ekki landráð.

Landsdómur afhjúpar reyndar mjög margt sem varð og verður að gera betur og veitir þeim sem fá sæti einhverja innsýn í það hvernig systemið virkar nú eða virkar ekki og að því er mikið gagn.

En landsdómur er ekki vetfangur fyrir eitthvert uppgjör við gamla pólitíska andstæðinga eins og margir virðast halda. Hann er ekkert leiktæki á róluvelli stjórnmálamanna dagsins sem vilja fá að drullumalla.

Það er lágmark að þeir sem um málið fjalla sýni bæði dómnum og Geir Haarde þá virðingu að gleyma ekki að heiður hans og æra er þarna til umfjöllunar og vitnaleiðslurnar eru til þess að reyna að varpa ljósi á það hvort ákærurnar eigi við rök að styðjast.

Það er hlutverk landsdóms og annað ekki. Landsdómur á að spyrja spurninga sem varða ákæruna en ekki pólitík og þá stundarhagsmuni sem sú tík nærist á.

Við megum ekki gleyma því að landsdómur er alls ekki pólitísk stofnun þó ákæran sjálf sé ekki annað en pólitísk brella.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist að Geir sé orðið algjört aukaatriði í því sem kemur fram fyrir Landsdómi.

Það er allt heila helvítis kerfið sem er að fá á baukinn og fyrir tilviljun örlaganna var Geir bara „aðal“

Þorsteinn Úlfar Björnsson