föstudagur, 27. júní 2008

Álvers og virkjanafóbían.

Nú eru undarlegir tímar. það dimmir yfir og lágskýjað sem aldrei fyrr. Smátt og smátt sogast allir inn í myrkrið. Húsnæði fæst hvorki selt né keypt og bensínið hækkar og hækkar, alveg nákvæmlega eins hjá öllum, ekkert samráð þar.

Okkur er sagt að ástæðan sé í raun og veru spákaupmennska. Skil ekki bransann en finnst endilega að menn ættu að snúa sér að því að laga þetta. Hvenær verða spákaupmenn búnir að fá nóg?

Ég er ekki hagfræðingur en finnst þó að á tímum sem þessum ætti ríkisvaldið að koma sterkt inn með framkvæmdir. Skuldlaus ríkissjóðurinn eftir áratuga stjórn skynsamra manna stendur vel að vígi. Verð seint talsmaður ríkisumsvifa en nú er lag.

Álver er í hugum margra nánast viðbjóður. Stórhættulegur vírus. Ýmsir hafa þroskað með sér áunna andúð á þessum atvinnurekstri. Nálgast að mínu viti trúarofstæki. Fólk sér fyrir sér skítuga kolanámumenn í baneitruðu vinnuumhverfi. Ætli helvítis malbikunarstöðin í Hafnarfirði mengi ekki bara meira en álverið sem ekki mátti stækka?

Hvernig business er álver? Vita það margir? Sennilega ekki. Næsta fáir hafa kynnt sér um hvernig vinnustað er um að ræða. Er þörfin fyrir ál ekki stöðugt að aukast? Þurfum við ekki að sætta okkur við að ál verður að framleiða hvað sem tautar og raular. Af hverju má ekki framleiða það hér á landi?

Umhverfisverndarsinnar segjast hugsa glóbalt. Fá gæsahúð af því einu að segja það og tauta svo um Kyoto. Vilja svo ekki gufuaflsvirkjanir heima í túninu sínu. Finnst líklega betra að álver rísi í Kenýja eða Angóla. Þau verða klárlega knúin með olíu. það er svo bráðhollt, glóbalt séð.

Krampakennt ofstækið gegn stóryðju er fyrir löngu orðið hlægilegt. Algerlega er eðlilegt að skoða hvert tilvik fyrir sig en að hafna öllu slíku bara til þess að hafna því er í besta falli barnalegt. Við getum ekki öll lifað á þvi að lesa bækur og hlusta á Sigurrós og Björk.

Eða versla með bréf af hvort öðru fyrir fé sem við fengum lánað hjá bönkum sem sjálfir fengu það að láni hjá öðrum bönkum. það er ekki tilraun til þjóðarmorðs að hugleiða það að hefja rekstur álvers. Hugsanlega væri best að við lifðum í fullkomnu tómarúmi þar sem við þyrftum aldrei að snerta á neinu í kringum okkur.

Veiddum hvorki fisk né kjöt. Þyrftum ekki að leggja vegi um landið til að spilla nú ekki einhverju. Notuðum hvorki ál né aðra málma. Þyrftum ekki vinnu handa okkur. Gætum bara lifað af hvort öðru. Værum algerlega sjálfbær bara.

Hættum þessu ofstæki. Tökum ekki sjálfkrafa afstöðu gegn álverum af þvi bara, eða með þeim. Álver og virkjanir eru ekki töfralausnir en ekki heldur heimsendir. Kannski geta önnur sjónarmið en bara níðþröng umhverfis stundum haft eitthvað vægi.

Hvet svo Sigurrós og Björk til að notast ekki við ál. Hvorki í sviðsmyndinni sinni eða bílnum sínum, ekki í steikarpönnunni sinni, ekki.....

Röggi.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Dómarar.

Fékk til mín mann í stólinn, fótboltamann. Engin sérstök tíðindi en við fórum að tala um mál málanna í íþróttum; dómara.

Hann sagðist hafa rekist á einn slíkan nánast á förnum vegi þar sem hann var á tali við annað fólk. þar heyrði hann manninn, dómarann, ryðja út úr sér hverjum dónabrandaranum á fætur öðrum. Trúði vart sínum eigin eyrum.

Dómarar eru ekki fólk. Þeir eru dómarar! Þurfa ekki á klósett og ekki fara þeir í bíó. Eiga líklega ekki fjölskyldur. Þeir segja ekki brandara og þeir hlægja örugglega ekki að þeim.

Fór að hugsa um það hvernig fólk hugsar um dómarana sjálfa, manneskjurnar. Kannski gengur stóri meirihlutinn með gríðarlegar ranghugmyndir um þessa tegund manna eða kvenna. Stundum er sagt að dómarar séu mjög sérstök starfsstétt. Þeir séu hitt eða þetta. Þoli ekki gangrýni og standi þétt saman og svo er stundum talað um klíkur.

þeir leggi menn og jafnvel félög í einelti. Oft sjái þeir lítið en heyri allan fjandann. Stundum þykja þeir kjarklausir og svo kemur það fyrir að kjarkaðir dómarar virðast öllum óþolandi af því að þá er stutt í hrokann sem þó er talinn nauðsynlegur upp að vissu marki, stundum.

Dómarar skulu vera fullkomnir frá fyrsta verkefni og bæta sig svo jafnt og þétt upp frá því. Mistök eða yfirsjónir eru ekki til umræðu. Samt eru íþróttir sneisafullar af mistökum allra sem að leiknum koma. Leikmenn sem æfa vilt og galið allt árið um kring gera stundum mistök sem eru allt að því barnaleg.

Engum dettur í hug að á bak við þau mistök liggi illur hugur af neinu tagi eða sérstakt getuleysi. Það munu vera heiðarleg mistök. Dómarar gera bara heiðarleg mistök fullyrði ég. Engin munur er á störfum dómara og annarra sem starfa við íþróttir. Og reyndar á þetta við um öll störf. Hver vill ekki vera bestur í sínu fagi?

Dómgæsla er erfitt djobb. Það endist ekki hver sem er í því starfi. Athyglin sem sú starfstétt fær er nánast eingöngu neikvæð. Hver nennir að tala um dómara sem stendur sig vel? Var ekki ætlast til þess að viðkomandi réði við starfann? Engin frétt þó það takist.

Dómarar eru íþróttamenn. Engin eðlismunur eru á dómurum og íþróttamönnum. Hvorki á manneskjunum sjálfum eða störfunum. Ekki eru allir dagar góðir þrátt fyrir mikinn vilja og góða undirstöðu og kunnáttu. Það er nú bara þannig.

Röggi.

Uppsagnir og eigendavandi.

Icelandair er að láta fólk fara í stórum stíl. kemur engum á óvart enda gerist þetta árlega þó þessi skammtur sé stærri en áður og horfur á endurráðningum ekki eins góðar og yfirleitt. Þetta eru hörmungar.



Stórhækkað olíuverð og fækkun farþega vega hér þyngst. Ég efast að sjálfsögðu ekki um það en velti því fyrir mér hvort þetta fyrirtæki stæði ekki betur að vígi í kreppunni ef það hefði verið heppið með eigendur undanfarið.



Þær eru ekki litlar upphæðirnar sem Hannes og Jón Ásgeir blóðmjólkuðu út úr félaginu. Hvað voru þeir margir milljarðanir sem runnu í hyldjúpa vasa þessara snillinga þegar þeir keyptu sterling af sjálfum sér? Arfleið þessara manna er græðgi og óhóf. Flugfélagið var gernýtt til að sölsa undir sig eignir, skuldsett að sjálfsögðu. Þá er öllu skipt upp og verðmætin hétu allt í einu FL group en skuldirnar hétu áfram Icelandair. Seinna át svo byltingin börnin sín..

Af hverju fannst fjármáleftirlitinu ekkert óeðlilegt við það á sínum tíma þegar heil stjórn sagði af sér með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna með þessum aðilum?



Ég get ekki gert lítið úr því að ástandið almennt í fluginu er ekki gott en bendi fólki á að gleyma því ekki hvernig þessir menn fóru með félagið.



Röggi.

Hollvinir grensás og sjóvá.

Af hverju vissi ég ekki að til væru hollvinir grensásdeildar? Samtök með stjórn og alles, og formann. Sem í dag skrifar grein í moggann. Og af því að mér er málið skylt fannst mér greinin frábær.

þar upplýsir hann að sjóvá lýsi sig reiðubúið að fjármagna og styrkja með beinum fjárframlögum byggingu viðbótarálmu við grensásdeild. Ríkið myndi svo leigja húsnæðið og taka það yfir að tilteknum tíma liðnum.

Svona á þetta að vera. Tryggingarfélögin hafa beinan hag af því að endurhæfing sjúklinga takist vel og gangi fljótt fyrir sig. Hér fer því hagur allra prýðilega saman. Enda minnir mig að eitthvert tryggingarfélagið hafi haft áhuga á að fjármagna tvöföldun vegar austur fyrir fjall af sömu grundvallarástæðum.

Geri mér grein fyrir því að VG og líklega fleiri fá hland fyrir ríkisrekna hjartað sitt að heyra minnst á að einkaaðilar komi að nokkrum sköpuðum hlutum og ekki síst því sem snýr að heilbrigðismálum.

En í þessu tilfelli getur varla verið að nokkur maður ætti að geti fundið meinbug. Þetta er einfaldlega skothelt í allar áttir og ekki eftir neinu að bíða. Enginn sem kynnir sér starfsemi grensásdeildar getur efast hversu frábært og nauðsynlegt starf þar er unnið. Eða hversu mörgum hefur tekist að ná fótfestu eftir vistina þar. Ekki fer heldur á milli mála að miklu betur þarf að búa að þessari starfsemi.

Kýla þetta góða mál í gegn takk. Þetta fellur þéttingsfast að grundvallarskoðunum núverandi heilbrigðisráðherra. Ég leyfir mér að vera bjartsýnn.

Er skapi næst að færa mín viðskipti öll til sjóvár...

Röggi.

föstudagur, 20. júní 2008

Svanur um Hannes og háskólann.

Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði skrifar pistil í fréttablaðið í dag. Hægri menn hafa aldrei og munu aldrei þola hann. Hann hefur enda aldrei þolað að hægri maðurinn Hannes Hólmsteinn kenni við hákólann. Hann hefur ræktað með sér að mér hefur fundist bæði faglega og persónulega óbeit á Hannesi. Þannig hefur díllinn verið. Hann hefur fundið Hannesi allt til foráttu og flestir eru bara hættir að nenna að hlusta á það. Nema Helga Kress auðvitað.

Hef ekki sett mig mjög nákvæmlega inn í þá sögu en hefur fundist báðir aðlilar njóta þess hanaats til fullnustu. Veit fátt um Svan en hef af honum mynd fremur óspennandi manns sem líkist mun frekar þreyttum embættismanni en leiftrandi vísinda og fræðimanni. Mjög líklega alröng mynd og vonandi allra vegna.

Og nú ryðst hann fram og heggur á báðar hendur. Talar um grundvallaratriði og trúverðugleika háskólans. Er ekki heilmikið til í því sem hann segir?

Ég hef ekki þá skoðun að rétt sé að hálshöggva Hannes af því að hann er Hannes eins og margir virðast vilja gera. Mér finnst einfaldega að um hann eigi að gilda sömu reglur og um aðra. Hvorki meira né minna.

það er skylda rektors og deildarforseta að sannfæra alla aðila um að enginn vafi leiki á að Hannes fái eðlilega meðferð eftir dóminn sem hann hlaut. Enginn afsláttur sé veittur né að á rétti hans sé traðkað.

það hef ég á tilfinningunni að ekki hafi tekist og varla verið reynt. Fisléttar yfirlýsingar rektors og almennar hafa frá mínum bæjardyrum séð ekki gert annað en að koma því að hjá mér að henni þyki málið í besta falli óþægilegt og hentugast væri að reyna að svæfa það. Vanhæfisyfirlýsingar deildarforseta þekki ég ekki en varla má vera mikil leynd yfir ástæðum þess vanhæfis.

Heiður háskólans og reyndar Hannesar er hér að veði. það verður aldrei léttvægt fundið. Þar erum við Svanur sammála.

Röggi.

laugardagur, 14. júní 2008

EM

Einhvernvegin hélt maður að rúv myndi gera í íþróttabuxurnar í umsjóninni með útsendingum frá EM í fótbolta. það hefur ekki gerst þó ég skilji ekki hvernig hægt er að komast upp með að einoka dagskránna við fótbolta.

Spjall Þorsteins Joð við Auðunn og Pétur í kringum leikina er flott. Vegna tímasleysis tekst ekki að draga þær á langinn sem er ánægjuleg tilbreyting. Auk þess eru þeir reyndir leikmenn með annan og nýjan vinkil á hlutina en þjálfararnir sem yfirleitt hafa verið fengnir til sérfræðispjalls.

Flottur fótbolti hjálpar svo til. Hollendingar og Króatar fara á kostum ásamt Spánverjum. Gaman að því en mér segir svo hugur að ekkert þessara liða vinni mótið. Blússandi sóknarleikur vinnur sjaldan mót. Króatarnir þó líklegastir þessrar þjóða. Þeir hafa drápseðlið og eru töffarar. Hollendingar eru flottir í meðbyr ef enginn fer í fýlu og ofurviðkvæmt taugakerfi Spánskra er alþekkt. það vill virkjast þegar spennan magnast. Portúgal lítur vel út en mér finnst þeir vera næstum því frábærir...

Neibb. Líklegast að einhver taktísk lið vinni mótið. Og ekki endilega lið sem eru í besta standinu akkúrat núna. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég hef margoft séð það að hreinir hæfileikar duga ekki alltaf til að vinna svona mót. Andlegi þátturinn ræður líklega jafn miklu ef ekki meiru.

Þá koma Ítalir og Þjóðverjar sterkir inn, og fleiri.

Hvað veit ég?

Röggi.

föstudagur, 6. júní 2008

Spekúlasjónir um sakleysi.

Dómur er fallinn. Hef reyndar ekki lesið hann frekar en flestir aðrir sem þó vita allt um málið. Veit það þó að Jón Ásgeir slapp vel en þó ekki alveg. Skárra væri það nú eftir alla fyrirhöfnina. Ég kemst ekki hjá þeirri hugsun að það sé ekki bara O J Simpson sem hagnast á því að hafa hæfari og dýrari lögmenn í vinnu en hið opinbera.

Glimrandi fínir hálaunalögmenn sýnast mér hafa tekið ríkisstarfsmennina í bakaríið. Árum saman komust sakborningar hjá því að svara til um efnisatriðin. Þras um tækniatriði voru aðalmálið. Af hverju ætli það hafi verið taktíkin?

Nú og svo vita allir að Davíð og vondu kallarnir settu málið af stað og ráku það sennilega líka allan tímann. Reyndar veit það alls enginn en svo oft er búið að segja það að það er fyrir löngu orðin alkunn staðreynd að málið allt var í raun pólitískt. Það er ekki bara á Ítalíu sem auðmenn gírugir telja mikilvægt að ráða yfir helstu fjölmiðlum. Af hverju ætli það sé?

Menn hrópa á afsagnir. Eitthvað hlýtur að vera bogið við embætti saksóknara sem eftir gríðar vinnu og fjárútlát tekst ekki að uppskera betur en þetta. Getur verið að sekir menn sleppi hér vegna getuleysis saksóknara?

Frá mínum bæjardyrum tókst snilldarbragðið algerlega. Efnisatriði málsins urðu fljótlega algert aukaatriði og einnig tókst frábærlega að klína pólitík á málið þó enginn hafa að mínu viti getað bent á neitt sem tengdi málið við pólitík. Það bara hentaði verjendunum og svo hentaði það líka stjórrnmálmönnum sumum á sínum tíma. Gleymir einhver bíltúrum Ingibjargar til Borgarness?

Persónulegar árásir á starfsmenn lögreglu og dómstóla urðu siður og regla. Nýtt fyrir mér að það sé haldgóð vörn en hér tókst það vel. Allt vegna þess að stór hluti þjóðarinnar hélt að þetta snérist um stjórnmál. Sorglegt.

Ákæruvaldið ákvað svo eftir ótrúlegan þrýsting að ákæra aðalavitnið í málinu. Frábær skilaboð til þeirra sem gætu í framtíðinni hugsað sér að koma upp um svindl og svínarí sem þeir standa í með risafyrirtækjum. Loka endilega fyrir þann kanal..

Þeir eru saklausir þessir menn. Að vísu dæmdir en samt saklausir af því þeir voru sýknaðir af svo mörgu! Þeir eru líka saklausir af því sem þeir eru sekir um en verður ekki gerð refsing vegna þess að málið er fyrnt. það er vissulega ein tegund sakleysis.

Þeir eru líka saklausir af því að hafa brotið hlutafélagalög af því að allir eru að því. Jónatan þórmundsson seldi fræðimannsheiður sinn með þessari fullyrðingu í skýrslu sem hann gerði fyrir baug. Síðan þá er það orðin venja hér að telja það sanna sakleysi að geta bent á að aðrir séu líka sekir eða að lágmarki jafn lítið saklausir.

Ég er hundóánægður með þetta mál allt. Er eins og margir aðrir sannfærður um fullkomið getuleysi ákæruvaldsiins. Fleiri stór mál undanfarin ár styrkja mig í trúnni. Ég hef mun sterkari sannfæringu fyrir þvi en sakleysi sakborninga í málinu. Saklausir menn hefðu varla eytt fleiri hundruð milljónum í að reyna að komast undan þvi að sanna sakleysi sitt. Eða hvað?

Röggi.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Hvað er mannsal?

Jón Trausti Reynisson var dæmdur til greiðslu skaðabóta vegna ummæla um Geira á goldfinger. Jón Trausti var ritstjóri Ísafoldar. Hef ekki kynnt mér dóminn en sá vörn ritstjórans á stöð 2 í kvöld.

Mannsal og mafíustarfsemi eru orðin tvö sem hann er hankaður á ef ég skildi manninn rétt. Hann telur dóminn gamaldags og túlkun réttarins þrönga. Væntanlega notast hann sjálfur þá við víða túlkun orðsins mannsal. Hér reynir drengurinn sig við orðhengilshátt. Að saka einhvern um mannsal er bara að saka einhvern um mannsal. Vítt eða þröngt er aukaatriði, sér í lagi fyrir þann sem fyrir klípunni verður.

Engin ástæða er fyrir ritstjórann að tala af léttúð hvorki um orðið sjálft eða slíkan gjörning. það er grafalvarlegt að bera slíkt á menn. Treysti hann sér ekki til að rökstyðja það öðruvísi en honum hafi verið sagt það þá verður hann að eiga á hættu kröfu um ómerkingu og skaðabætur.

Margir verða mér ósammála núna. Aðallega vegna þess að þá langar að trúa þessu upp á Geira. Dugar það? Hvað ef einhver vill smyrja svona hlutum á einhvern sem ekki er auðvelt að trúa þessu upp á? Á að taka öðruvísi á því í þeim tilfellum.

Nei. Höfum þetta einfalt og alla jafna. Sættum okkur aldrei við að einhver geti veist að æru okkar án þess að geta bakkað það upp. Fjölmiðlar geta ekki fengið afslátt af þessari sjálfsögðu kröfu frekar en aðrir.

Röggi.

mánudagur, 2. júní 2008

Fúll með mína menn.

Þá vitum við það. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er í ferlegum málum. Skoðanakannanir segja það. Gísli Marteinn telur að nú verði menn að bretta upp ermar og sýna kjósendum fram á að meirihlutinn vinni vel og að góðum málum. Minnti mig óneitanlega á málflutning framsóknarmanna. Þeir telja sig ekki heldur njóta sannmælis. það er einföldun.

Allavega í tilfelli sjálfstæðismanna í borginni. Þeir lögðu í það að ná stjórn borgarinnar aftur til baka. það gerðu þeir eins og alltaf er gert þegar einn meirihluti hættir og nýr tekur við. Tóku saman við einn óánægjugemling úr gamla meirihlutanum,

þetta gerist mánaðarlega um land allt en þótti stórmál í höfuðborginni. Boðaföllin gengu yfir flokkinn úr öllum áttum. Fjölmiðlar sem ekki höfðu séð neitt að því að Dagur tæki höndum saman við spilltasta stjórnmálamann sögunnar, svo notuð séu hans eigin orð um Björn Inga, tóku nú að hamast á sjálfstæðisflokknum fyrir nákvæmlega það sama. Það er önnur saga..

Við erum svo sem ekki óvanir því að standa í stafni með vindinn blýstífann í smettið. það fylgir því að vera í forsvari. Menn með djúpa sannfæringu og málstað ættu að fara langt með að standa élið af sér. En það eitt dugir ekki. Ekki ef forystumennirnir ráða ekki við sitt.

Kjósendur eru nefnilegu stundum furðu naskir og þefvísir á pólitískan rolugang. Forysta flokksins hefur verið helaum alveg, grútmáttlaus. Mér er til efs að sá góði maður Vilhjálmur gæti varið nokkurn málsstað sama hversu pottþéttur hann væri. Samt virðist augljós ákvörðunin um að skipta um andlit flokksins standa í forystunni.

Ég fullyrði að lúsaleit er að þeim manni sem veit ekki að Hanna Birna verður næsti borgarstjóri. Almenn sátt virðist ríkja um það utan borgarstjórnarflokksins sem er eins eins og stjórnlaust rekald að sjá. Af hveru Gísli Marteinn og hinir vonlausu vonbiðlarnir taka ekki af skarið og styðja hana opinberlega er furðulegt og skaðlegt fyrir flokkinn.

Og ekki veit ég hvað þarf til að vekja Geir og Þorgerði. Hvað þarf að ganga á til þess að þau bretti upp ermar og sýni í eitt skipti fyrir öll að þau séu með pólitískt bein í nefinu.

Hvað er það sem veldur því að ekki er hægt að lina þjáningar okkar sjálfstæðismanna og ákveða að nú verði ekki lengur unað við að stjórnmálamenn sem eru komnir yfir síðasta neysludag fari fyrir?

Það er bara ekki öllum gefið að leiða og hafa forystu, jafnvel þó um öndvegis fólk sé að ræða eins og hér er tvímælalaust. Frá mínum bæjardyrum séð er þar enginn undanskilinn.....

Röggi.

Flottir Svíar.

Við erum kátir núna. Komnir á ólympíuleika í handbolta eftir frábæran sigur á Svíum. Allt gékk upp hjá okkur og tóm gleði. Sænski þjálfarinn er jafnvel enn verri en Íslenski þjálfarinn. Hann skiptir bara alls ekki inn á. það kom vel út fyrir okkur í gær.

Nú sé ég það að Svíaofnæmið er í algleymi hjá bloggurum mörgum. Menn pirrast yfir því að Svíarnir kvarti yfir því að hafa verið snuðaðir um eitt mark. Þetta kalla menn að sumir séu tapsárir. Margir geta orðið sárir yfir minna en þessu.

Hvernig ætli við myndum bregðast við svona ótrúlegum mistökum ef þau bitnuðu á okkur? Hér færi allt á annan endann eða jafnvel báða. Myndum líklega tala um alþjóðlegt samsæri gegn okkur. Hugsanlega kæra til allra stofnana sem þekktar eru. Og víðar...

Svíar taka á þessu af reisn sýnist mér. Hafa greinilega kynnt sér reglur og komist að því að mistök af þessu tagi verða ekki leiðrétt og því ákveðið að berja ekki grautfúlum hausnum við steininn heldur andæfa eingöngu. Það er stíll yfir þannig framgöngu.

Er ekki viss um að við búum yfir þannig stíl ef eitthvað er að marka suma alvitra bloggara landsins...

Röggi