miðvikudagur, 25. júní 2008

Dómarar.

Fékk til mín mann í stólinn, fótboltamann. Engin sérstök tíðindi en við fórum að tala um mál málanna í íþróttum; dómara.

Hann sagðist hafa rekist á einn slíkan nánast á förnum vegi þar sem hann var á tali við annað fólk. þar heyrði hann manninn, dómarann, ryðja út úr sér hverjum dónabrandaranum á fætur öðrum. Trúði vart sínum eigin eyrum.

Dómarar eru ekki fólk. Þeir eru dómarar! Þurfa ekki á klósett og ekki fara þeir í bíó. Eiga líklega ekki fjölskyldur. Þeir segja ekki brandara og þeir hlægja örugglega ekki að þeim.

Fór að hugsa um það hvernig fólk hugsar um dómarana sjálfa, manneskjurnar. Kannski gengur stóri meirihlutinn með gríðarlegar ranghugmyndir um þessa tegund manna eða kvenna. Stundum er sagt að dómarar séu mjög sérstök starfsstétt. Þeir séu hitt eða þetta. Þoli ekki gangrýni og standi þétt saman og svo er stundum talað um klíkur.

þeir leggi menn og jafnvel félög í einelti. Oft sjái þeir lítið en heyri allan fjandann. Stundum þykja þeir kjarklausir og svo kemur það fyrir að kjarkaðir dómarar virðast öllum óþolandi af því að þá er stutt í hrokann sem þó er talinn nauðsynlegur upp að vissu marki, stundum.

Dómarar skulu vera fullkomnir frá fyrsta verkefni og bæta sig svo jafnt og þétt upp frá því. Mistök eða yfirsjónir eru ekki til umræðu. Samt eru íþróttir sneisafullar af mistökum allra sem að leiknum koma. Leikmenn sem æfa vilt og galið allt árið um kring gera stundum mistök sem eru allt að því barnaleg.

Engum dettur í hug að á bak við þau mistök liggi illur hugur af neinu tagi eða sérstakt getuleysi. Það munu vera heiðarleg mistök. Dómarar gera bara heiðarleg mistök fullyrði ég. Engin munur er á störfum dómara og annarra sem starfa við íþróttir. Og reyndar á þetta við um öll störf. Hver vill ekki vera bestur í sínu fagi?

Dómgæsla er erfitt djobb. Það endist ekki hver sem er í því starfi. Athyglin sem sú starfstétt fær er nánast eingöngu neikvæð. Hver nennir að tala um dómara sem stendur sig vel? Var ekki ætlast til þess að viðkomandi réði við starfann? Engin frétt þó það takist.

Dómarar eru íþróttamenn. Engin eðlismunur eru á dómurum og íþróttamönnum. Hvorki á manneskjunum sjálfum eða störfunum. Ekki eru allir dagar góðir þrátt fyrir mikinn vilja og góða undirstöðu og kunnáttu. Það er nú bara þannig.

Röggi.

Engin ummæli: