föstudagur, 27. júní 2008

Álvers og virkjanafóbían.

Nú eru undarlegir tímar. það dimmir yfir og lágskýjað sem aldrei fyrr. Smátt og smátt sogast allir inn í myrkrið. Húsnæði fæst hvorki selt né keypt og bensínið hækkar og hækkar, alveg nákvæmlega eins hjá öllum, ekkert samráð þar.

Okkur er sagt að ástæðan sé í raun og veru spákaupmennska. Skil ekki bransann en finnst endilega að menn ættu að snúa sér að því að laga þetta. Hvenær verða spákaupmenn búnir að fá nóg?

Ég er ekki hagfræðingur en finnst þó að á tímum sem þessum ætti ríkisvaldið að koma sterkt inn með framkvæmdir. Skuldlaus ríkissjóðurinn eftir áratuga stjórn skynsamra manna stendur vel að vígi. Verð seint talsmaður ríkisumsvifa en nú er lag.

Álver er í hugum margra nánast viðbjóður. Stórhættulegur vírus. Ýmsir hafa þroskað með sér áunna andúð á þessum atvinnurekstri. Nálgast að mínu viti trúarofstæki. Fólk sér fyrir sér skítuga kolanámumenn í baneitruðu vinnuumhverfi. Ætli helvítis malbikunarstöðin í Hafnarfirði mengi ekki bara meira en álverið sem ekki mátti stækka?

Hvernig business er álver? Vita það margir? Sennilega ekki. Næsta fáir hafa kynnt sér um hvernig vinnustað er um að ræða. Er þörfin fyrir ál ekki stöðugt að aukast? Þurfum við ekki að sætta okkur við að ál verður að framleiða hvað sem tautar og raular. Af hverju má ekki framleiða það hér á landi?

Umhverfisverndarsinnar segjast hugsa glóbalt. Fá gæsahúð af því einu að segja það og tauta svo um Kyoto. Vilja svo ekki gufuaflsvirkjanir heima í túninu sínu. Finnst líklega betra að álver rísi í Kenýja eða Angóla. Þau verða klárlega knúin með olíu. það er svo bráðhollt, glóbalt séð.

Krampakennt ofstækið gegn stóryðju er fyrir löngu orðið hlægilegt. Algerlega er eðlilegt að skoða hvert tilvik fyrir sig en að hafna öllu slíku bara til þess að hafna því er í besta falli barnalegt. Við getum ekki öll lifað á þvi að lesa bækur og hlusta á Sigurrós og Björk.

Eða versla með bréf af hvort öðru fyrir fé sem við fengum lánað hjá bönkum sem sjálfir fengu það að láni hjá öðrum bönkum. það er ekki tilraun til þjóðarmorðs að hugleiða það að hefja rekstur álvers. Hugsanlega væri best að við lifðum í fullkomnu tómarúmi þar sem við þyrftum aldrei að snerta á neinu í kringum okkur.

Veiddum hvorki fisk né kjöt. Þyrftum ekki að leggja vegi um landið til að spilla nú ekki einhverju. Notuðum hvorki ál né aðra málma. Þyrftum ekki vinnu handa okkur. Gætum bara lifað af hvort öðru. Værum algerlega sjálfbær bara.

Hættum þessu ofstæki. Tökum ekki sjálfkrafa afstöðu gegn álverum af þvi bara, eða með þeim. Álver og virkjanir eru ekki töfralausnir en ekki heldur heimsendir. Kannski geta önnur sjónarmið en bara níðþröng umhverfis stundum haft eitthvað vægi.

Hvet svo Sigurrós og Björk til að notast ekki við ál. Hvorki í sviðsmyndinni sinni eða bílnum sínum, ekki í steikarpönnunni sinni, ekki.....

Röggi.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Dálítið svart og hvítt hjá þér. Annaðhvort erum við með álverksmiðjum eða á móti öllu? Húsum, bílum, vegum, mat, lífi, osfrv. Ég er á móti því að setja upp fleiri álverksmiðjur á Íslandi, en er ekki á móti vegum. Gengur það þá ekki upp hjá mér?
Þórður

Nafnlaus sagði...

Skilaði síðasta álverksmiðja og virkjun henni tengd okkur svona góðum hlut? Þú talar eins og ekkert hafi verið gert í þeim málum undanfarið og því sé nú kominn tími til að prófa eitthvað nýtt.

Nafnlaus sagði...

"Eitthvað nýtt"

Mér hegur alltaf fundist það hugtak bæði ódýrt og loðið. Og engan vegin brúkhæft í rökstuðningi á móti framleiðslufyrirtækjum.

Nánari skýring á hugtakinu óskast.

Vil einnig minna á að bæði Björk og Sigurrósarpiltarnir fljúga reglulega þvers og kruss um heiminn í ÁLflugvélum.

Enn og aftur, er þetta ekki bara billegur tvískinningur hjá þeim?

Nafnlaus sagði...

Að vanda skemmtileg skrif hjá þér.
Að mínu mati er þetta hárrétt hj´aþér og eins og nafnlaus komst að orði vill hann ekki álver en vill vegi Ups hvar eigum við að fá aurinn líklega frá einhverju öðru.
Og allt þetta tal um Sigur rÓS OG Björk en nú dálítið lame, halda tónleika og Reykjavíkurborg borgae eða við sem sagt. Hefði ekki verið betra að kaupa álningu fyrir aurinn

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér. Ég er sjálfur norðan af landi þar sem miklar væntingar eru til stóriðju. Hef orðið þess vafasama heiðurs aðnjótandi að horfa upp á kvótan og útgerðina hverfan héðan, Framhaldskólann grottna niður í öreind sem minnir einna helst á sýnishorn af menntastofnun. Ungt fólk flytja í burtu og félagslíf bæjarins fjara út.

Það eitt að hér sé verið að íhuga að fara í stóriðju skapar hátt i 100 störf nú þegar. Því spyr ég þá sem mótmæla þessu harðast. Hvort þau séu reiðubúin að afhenda yfir 100 launþegum hér á svæðinu uppsagnarbréfin persónulega eða bjóða þeim atvinnu í staðinn eða hvað vilja þau að þetta fólk geri. En jú atvinnuleysi er eitthvað annað sem þau geta snúið sér að.

Og já BTW samkomuhús staðarins stendur autt þannig að Björk og Sigurrós eru velkominn og geta haldið þar tónleika unplugged eða plugged.