þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Fjölmiðlar i silkihönskum.

Það mætti halda að sú ríkisstjórn sem nú situr snúist eingöngu um að reka Davíð Oddson. Hann er fyrsta mál á dagskrá á fundum og oft það síðasta líka. Hundslappir fjölmiðlamenn eyða löngum tíma í spurningar eins og þær hvort embættismenn ætli að fá umsamin laun greidd. Algert aukaatriði.

þetta er orðinn hreinn farsi og populismi. Þjóðinni hefur verið talin trú um að seðlabankinn sé upphaf og endir alls hér. það hentar auðvitað ónýtum stjórnmálamönnum. Ekki síst fólki sem hefur mátt heyra það undanfarnar vikur að það sé vanhæft. Hver er ástæðan fyrir því að fjölmiðlar fara svo mjúkum höndum um Samfylkinguna eins og raun ber vitni?

Eða VG með Steingrím í broddi fylkingar. Hann er búinn að mala vikum saman um að aðgerða og úrræðaleysi hafi einkennt síðustu ríkisstjórn en hefur svo ekkert fram að færa sem ekki var þegar í vinnslu. Dómsdagsþvaður hans um IMF vikum saman er nú gleymt.

Vissulega er gott að að koma með tillögur um siðferði og ábyrgð. Almennt held ég að ekki nokkur maður geti sett sig upp á móti mörgu af því sem þetta fólk hefur sett á blað. Það eru hlutirnir sem ekki eru á blaði sem vekja furðu.

Vaxtalækkanir og að koma bönkunum í starfhæft ástand eru helst nefnd. Það er nú þannig að vaxtalækkanir voru á dagskrá síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við IMF og því beinlínis magnað að heyra Steingrím muldra um að hann ætli að setjast niður með sjóðnum til að semja um þær. Ef áætlanirnar sem voru gerðar við hávær mótmæli VG ganga eftir verða vextir hér orðnir lágir í árslok og verðbólga er nú þegar á hröðu undanhaldi.

Mér sýnist úrræðaleysi annars vegar VG og hinnar vanæfu Samfylkingar í efnahagsmálum vera augljóst. Sjálfstæðismenn eru nú að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun sem dagaði uppi í þingflokki Samfylkingar sem ekki mátti vera að því að klára málið enda menn þar uppteknir í öðru.

það hlýtur að renna í gegn enda voru ráðherrar Samfylkingar búnir að samþykkja það. Ekki veit ég hvað þetta fólk ætlar að taka sér fyrir hendur þegar Davíð verður farinn úr bankanum. Þá fara fjölmiðlar kannski að beina sjónum að því sem skiptir máli.

Sem er efnahagsmál og lausnirnar sem þetta fólk hafði fyrir hálfum mánuði en eru nú ekki annað en að halda því áfram sem verið var að gera.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þó fór nú tvennum sögum af þessu frumvarpi - hvort það hafi verði svo lengi á leiðinni vegna Samfó eða Flokksins.

Eins og ég skildi þetta var frumvarpið svo lengi hjá Sjálfstæðismönnum, eða um 3 mánuði, áður en það endaði í fangi Samfylkingar. Er ekki eðlilegt að þau fái 1 - 2 vikur til að fara yfir vinnubrögð Flokksins áður en frumvarpið er svo keyrt í gegn.

Nafnlaus sagði...

Ef ég ætti að giska þá hefur þú kosið Sjálfstæðisflokkin allavega einu sinni.

Nafnlaus sagði...

Eigum við nú ekki að gefa nýju ríkisstjórninni svona viku til að sanna sig áður en við segjum að hún sé úrræðalaus?