mánudagur, 16. febrúar 2009

Ráðherraábyrgð Jóhönnu.

það er að sönnu vandlifað. Jóhanna Sigurðardóttir sýndist mér vera í talsverðum vandræðum með Helga Seljan fréttamann í sjónvarpinu mínu í kvöld. Hann var nefnilega að ræða við hana dóm héraðsdóms um að forsætisráðherra hafi brotið stjórnsýslulög.

Jóhanna var þurr í munni og vandræðaleg þegar hún reyndi að sannfæra fréttamanninn um að málsbætur hennar væru bara svo góðar að niðurstaða dómsins skiptu í raun ekki máli. Lögfræði er að vísu skrýtin skepna stundum en ekki fengi Jóhanna meistararéttindi út á þessa röksemdafærslu.

Hún taldi málið snúast um eitthvað allt annað en það snýst um. Jóhanna hafði sem betur fer fullt leyfi til að losa sig við manninn sem hún losaði sig við og skipa sinn trúnaðarmann í staðinn, það er óumdeilt og eðlilegt. Og dómurinn hafði í engu áhuga á því hvort kröfur mannsins við brottvikninguna voru réttlátar eður ei. Jóhanna braut stjórnsýslulög vegna þeirrar aðferðar sem hún notaði. Þannig liggur í þessu máli. Allar málalengingar og útúrsnúningar þrautreynds stjórnmálamannsins Jóhönnu munu ekki breyta þeirri staðreynd.

Hún unir dómnum og áfrýjar ekki. Hvað þýðir það? Segist ósammála dómnum en gerir ekkert með það. Hvurslags málatilbúnaður er þetta hjá ráðherranum? Hún hefur sjálf sagt að svona dómar myndu víða knýja menn til afsagnar. Konan hefur sjálf staglast á því að hún hafi sérstakan áhuga á löggjöf um ráðherraábyrgð.

Í því ljósi eru svör forsætisráherra nú hreinlega út í hött og engu máli skiptir þó hún reyni að draga aðra með sér til ábyrgðar. Ábyrgðin er hennar eingöngu og nú verður gaman að fylgjast hvernig hún mun axla hana og hvernig hún skilur hugtakið ráðherraábyrgð.

Ef hún gerir ekkert annað en að snúa út úr fyrir fréttamanni er ég ansi hræddur um að hún ætti hið minnsta ekki að vera flutningsmaður frumvarps um ráðherraábyrgð.

Kannski eru stjórnsýslulögin bara til óþurftar. Er ekki bara miklu betra að ráðherrar hverju sinni meti það sjálfir hvort um eðlilega stjórnsýslu er að ræða? Jóhanna hefur gert sjálfa sig vanhæfa í umræðu um bætt siðferði stjórnmálamanna. Tónninn verður holur hér eftir...

Röggi.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað finnst þér um ráðningu mannsins til fjögurra ára rétt fyrir kosningar, framkvæmd af framsóknarráðherra?

Mér dettur í hug skjóðan sem kerlingin henti inn um gullna hliðið með sálinni hans Jóns.

Nafnlaus sagði...

"Tónninn verður holur hér eftir.." er þetta ekki eitthvað sem stjórnarandstaðan er að upplifa núna, holur tónn ?
Það er eins og sumir flokkar átti sig ekki á hvenær rétt er að hætta að sletta skyrinu og fara einfaldlega í þarfa naflaskoðun.
Ég vona að útkoma naflaskoðunnarinnar verði líka til góða fyrir þjóðina ekki bara flokkinn.

Nafnlaus sagði...

Jóhanna kom vel út úr þessu viðtali og það er vandséð hvernig Ingibjörg Sólrún mun eiga endurkomu í stjórnmál úr þessu.

Nafnlaus sagði...

Þú ert ágætur Röggi minn

Nafnlaus sagði...

Sæll eigum við að tala um ráðherraábyrgð Röggi minn?
Þarf ekki að segja meira en Árni Matt og Björn Bjarna í því máli.
Er eitthvað mál sem þú getur fjallað um á hlutlausan hátt? Ótrúlegur málflutningur oft á tíðum hérna í aðra áttina.
Lífið snýst ekki um vinstri og hægri.
Mín ósk er sú að allir sem brjóta af sér beri ábyrgð líka Jóhanna.
Einnig væri landið betra ef þjóðin hætti að hugsa hægri vinstri og færi að einbeita sér að þjóðarhagsmunum en ekki einkahagsmunum eða flokkshagsmunum.
Vísa í því máli til orða Bjarna Ben um daginn "... nú er einfaldlega tími þar sem hagsmunir þjóðarinnar verða að koma á undan hagsmunum flokksins..." Þetta er sá sem talinn er mjög líklegur sem næsti formaður X-D.
Viljum við fá svona menn til að stýra "stærsta" stjórnmálaflokki landsins?
Eiga ekki þjóðarhagsmunur alltaf að vega flokkshagsmunum þyngra á metunum? Mér finnst það.
Kannski er ég bara svona barnalegur?