fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Staða Samfylkingarinnar.

Er að hugsa um Samfylkinguna. Nú verður almennilega áhugavert að sjá hvert hún stefnir á næstu vikum. Ánægjan sem hríslaðist um Samfylkingarfólk þegar Sjálfstæðisflokknum var bolað burt úr ríkisstjórn mun að ég held gleymast fljótt.

Formaður flokksins er veikur og það í mörgum skilningi og eitt og annað bendir til þess að gamlir andstæðingar innan dyra geti vel hugsað sér stólinn. Innanflokkserjur eru ekki alveg óþekktar í þessum félagsskap.

Samfylkingin hefur eiginlega byggt alla sína tilveru á einum hlut. Inngöngunni í ESB. Öll umræða um efnahagsmál hvort sem rætt hefur verið um orsök eða afleiðingu krísunnar hefur verið afgreidd á einn veg. ESB hefði reddað okkur og mun gera það ef við bara drífum okkur í sæluna.

þetta hefur verið rauði þráðurinn í öllu sem frá flokknum hefur komið. Nú situr Samfylking pikkföst í stjórn með VG sem gerir litið annað en að ögra með daðri við norska olíukrónu. Verður áhugavert ef Steingrími tekst nú að koma á myntsamstarfi við flokksystur sína frá Noregi til þess eins að láta Samfylkinguna hafna því.

Vel getur verið að VG láti líta út fyrir að þeir geti samþykkt ákvæði um atkvæðagreiðslur en ekki er séns að þeir muni gera neitt annð en að berjast með kjafti og klóm gegn ESB þegar á hólminn er komið.

Margt bendir svo til að þeim sé að vaxa verulega fiskur um hrygg sem vilja láta sverfa til stáls gegn ESB og kröfum þeirra og annarra um að við borgum skuldir óreiðumanna erlendis eins og maðurinn sagði. Andstaðan við inngöngu mælist nú talsvert meiri en fyrir nokkrum vikum síðan og er barátta þeirra sem ekki vilja inn þó ekki hafin.

Samfylking getur varla annað en tekið slaginn þó hún hafi ítrekað sýnt nokkra aðlögunarhæfni þegar hentugt er að skipta um skoðanir. Fyrir örfáum vikum virtist flokkurinn vera með gjörunna stöðu enda var þjóðin tilbúin að gleypa ESB hrátt og án athugasemda. Nú gæti mómentið verið að snúast.

Ef flokkurinn sleppur við innri átök í ætt við þá klæki sem hann sýnir öðrum og ef andstaðan við ESB eykst ekki getur þetta orðið gott vor fyrir Samfylkinguna.

Eða alvont vor sem markast af þeirri taugaveiklun og stjórnleysi sem einkenndi flokkinn þegar hann sprengdi síðust stjórn. Væntingar flokksins eru án efa mjög miklar og allt annað en mjög góð kosning með umboði til inngöngu í ESB munu verða vonbrigði. Að ég tali nú ekki um ráðherrastólana....

Eins og staðan er í dag getur brugðið til beggja vona fyrir þennan flokk sem stundum virðist ekki vita hvort hann á að sitja eða standa fyrr en einhver hefur gáð til veðurs.

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú skilur þetta ekki Röggi.

Það er nánast ekkert til lengur sem heitir "sjálfstæðisfólk" eða "samfylkingarfólk" lengur....

Núna vill fólk bara stjórn vs spillingu og eiginhagsmunapot. Það fæst ekki með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna var honum "bolað" út af allskonar fólki

egillm sagði...

Ah ég elska hvað það er mikið ýjað að einhverju hjá þér en ekkert útskýrt.

"Formaður flokksins er veikur og það í mörgum skilningi og eitt og annað bendir til þess að gamlir andstæðingar innan dyra geti vel hugsað sér stólinn. "

Í mörgum skilningi - þú gætir kannski frætt okkur frekar um það. Hún er semsagt ekki bara líkamlega veik heldur þá hvað, andlega veik? Ég spyr. Og líka hvaða gömlu andstæðingar innandyra gætu hugsað sér að setjast í stólinn?

"þetta hefur verið rauði þráðurinn í öllu sem frá flokknum hefur komið. Nú situr Samfylking pikkföst í stjórn með VG sem gerir litið annað en að ögra með daðri við norska olíukrónu. Verður áhugavert ef Steingrími tekst nú að koma á myntsamstarfi við flokksystur sína frá Noregi til þess eins að láta Samfylkinguna hafna því."

Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurin var svo mikið að fara samþykkja viðræður við ESB? Síðast þegar ég vissi seinkaði hann landsfundi sínum svo það var lítið að fara gerast á næstunni. Þarna gefurðu þér líka að Samfylkingin muni hafna norsku krónuninni. Það er vissulega rétt að Samfylkingin vill taka upp evru en ég hef nú hvergi séð þá segja að þeir hafna alfarið norsku krónunni. Þvert á móti eru það Norðmenn sem sjálfir hafa lítið hugnast það, allavega sá Noregsbanki ekki mikinn tilgang með því. En ef þeir hafa áhuga á myntsamstarfi þá er ég viss um að stjórnvöld hérlendis skoði málið. Nema þeir hugsi eins og þú.

"Vel getur verið að VG láti líta út fyrir að þeir geti samþykkt ákvæði um atkvæðagreiðslur en ekki er séns að þeir muni gera neitt annð en að berjast með kjafti og klóm gegn ESB þegar á hólminn er komið."

Skil ekki þennan punkt. Samfylkingin getur ekki neytt aðra flokka til ESB viðræðna - þeir verða auðvitað alltaf sjálfir að gera það upp við sig. En ég sé ekki að neinn annar flokkur nema Framsókn sé tilbúinn í þetta. Sé ekki hvernig þetta hefði verið betra með Sjálfstæðisflokknum.

"Andstaðan við inngöngu mælist nú talsvert meiri en fyrir nokkrum vikum síðan og er barátta þeirra sem ekki vilja inn þó ekki hafin."

Þetta er rétt. En meirihluti vill hefja aðildarviðræður. Eigum við að hunsa þær kannanir eða? Og þær niðurstöður hafa mælingar sýnt í mörg ár.

"Ef flokkurinn sleppur við innri átök í ætt við þá klæki sem hann sýnir öðrum og ef andstaðan við ESB eykst ekki getur þetta orðið gott vor fyrir Samfylkinguna."

Þeir breyta þá væntanlega stefnu sinni að hugmyndum almennings, þ.e. ef orð þín um Samfylkinguna eru rétt. Sem ég efast um, enda ertu slöpp áróðursmaskína fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

"Eða alvont vor sem markast af þeirri taugaveiklun og stjórnleysi sem einkenndi flokkinn þegar hann sprengdi síðust stjórn. "

Já einmitt. Þegar stærsta Samfylkingarfélagið kaus með lýðræðislegum hætti að slíta stjórnarsamstarfinu þá er það túlkað sem taugaveiklun og stjórnleysi. Merkilega lýðræðislegt stjórnleysi. Var það þá líka taugaveikli hjá Sjálfstæðisflokknum að skipa Evrópunefnd strax eftir að miklar kröfur voru um það. Eða þegar fjöldinn allur af ráðherrum Sjálfstæðismanna lýsti allt í einu vilja til þess að skoða ESB? Nei þetta kallast ekki taugaveiklun heldur að reyna hlusta á skoðanir almennings. Ekki gleyma heldur að mikill meirihluti landsmanna var fylgjandi mótmælunum. Mikill minnihluti var fylgjandi stjórninni. Og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru 52% hlynnt núverandi stjórnarsamstarfi.

Og bara svo þú farir ekki að merkja mig með neinum hætti. Ég er óflokksbundinn og kýs eftir málefnum - ekki eftir flokkalínum. Ég aðhyllist hugmyndir sem koma frá þingmönnum allra flokka. Ég get skilið þegar þingmenn kjósa eftir flokkalínum á þingi en erfiðara á ég með að skilja svona flokksblog frá mönnum eins og þér. Það er eins og engin sjálfstæð hugsun sé að baki.