föstudagur, 5. júní 2009

Bakari fyrir smið?

Hvurslags fyrirtæki er þessi seðlabanki eiginlega? Engu skiptir hvort þar ríkir Davíð eða norskur. Eða að Jóhanna skipi nefnd valinkunnra til að ráða ferðinni. Alltaf skal þessi banki komast að ómögulegri niðurstöðu. Og alltaf hefst sami söngur hagsmunaaðila sem helst vilja telja okkur trú um það að í þessum banka vinni helst bjánar sem ekkert hafa vit og vilja okkur alls ekki gott.

Hvernig stendur á þessu? Er ekkert hægt að lesa í ákvarðanir bankans? Stendur kannski upp á ríkisstjórnina að gera sitt? Ráðherrar og þingmenn meirihlutans skammast bæði út í seðlabanka og gjaldeyrissjóð seint og snemma og telja flestan vanda þaðan. það kaupi ég ekki.

Hvernig væri að þessi ríkisstjórn færi að hysja upp um sig buxur og hætta að lýsa yfir áhyggjum á milli þess sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að vandinn sé ekki eins mikill og allir vita að hann er. Aðgerða og úrræðaleysið er algert og yfirþyrmandi en samræðu pólitíkin lifir góðu lífi en hún er létt í maga núna og ekki fá atvinnulausir störf í kringum það spjall heldur.

Auðvitað má gagnrýna seðlabanka og gjaldeyrissjóðinn en ég bíð eftir þvi að fjölmiðlamenn afklæðist silkihönskum sínum og fari að berja aðeins á aðgerðaleysisríkisstjórninni og láti hana ekki komast upp með það ítrekað að kenna öðrum um eigin getu og úrræðaleysi.

Kannski eru háir vextir afleiðing en ekki orsök í okkar stöðu í dag. Svo bið ég þá sem telja ósanngjarnt af seðlabanka að krefja ríkisstjórn um aðgerðir í fjármálum áður en stórar ákvarðanir eru teknar í vaxtamálum að rétta upp hönd.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Norskur er skrifað með litlum staf; Hér er það gamla góða sk-reglan
sem gildir.

Maður réttir upp hönd, ekki hendi.

Sbr. Hvað (Hönd) réttir maður upp?

en ekki

Hverju (Hendi) réttir maður upp.


Góðar stundir.

Röggi sagði...

Takk fyrir.

Var í vandræðum með þetta og geri nauðsynlegar endurbætur snarlega og treysti þínum ráðum.

Unknown sagði...

Er með báðar hendur niðri. Jóhanna hlýtur að vera svo áhyggjufull vegna ástandsins að hún kemur engu í verk nema að koma okkur í skuldafjötra til frambúðar.

Kv.
Gummi