Hún var frábær fréttin í hádegisfréttum ríkisútvarps áðan. Nefnilega fréttin um að ríkisstjórnin hafi tekið fyrir stórmálið um slátrun villifjár sem smalað var af fjalli og fargað af opinberum aðilum. Þarna er um að ræða hvorki fleiri né færri rollur en 15 að talið er og því ekki furða að ríkisstjórnin hafi þurft að taka málið föstum tökum.
Hvorki fleiri né færri en þrjú ráðuneyti eru með málið á sinni könnu ef eitthvað er að marka fréttina. Mér er stórlega létt enda hefur þetta legið á mér og þjóðinni eins og mara og þægilegt að vita að ráðherrar skuli ekki sofa á verðinum.
Þessi stórfrétt var sett ofar en aðrar smærri eins og til dæmis stórfellt svind á atvinnuleysisbótum og þess háttar. Ef maður hefði nú bara þessar áhyggjur...
Röggi
laugardagur, 31. október 2009
Slátrun villifjár og fréttamat.
ritaði Röggi kl 13:56 1 comments
föstudagur, 30. október 2009
Ætlum við að gefa þeim Haga?
Ég veit að Hagar eru stórt fyrirtæki og það er flókið ferli að taka þá af "eigendunum". Ég veit líka að sú fjölskylda sem "á" Haga hefur alltaf haft efni á því að kaupa sér bestu lögfræðinga fáanlega til að sinna sínum málum. Ég hef mjög lengi vitað hvernig þetta fólk vinnur og hagar sér og þurft að horfast í augu við heila þjóð loka augunum fyrir því í áratug eða meira. Ég get eiginlega ekki sagt meira en ég hef sagt um það mál.
En ég neita að trúa því að við látum þessa fjölskyldu komast upp með stórglæpi og svik við okkur öll og verðlaunum þau svo með því að taka að okkur skuldirnar og lána þeim svo aðeins meira fé til að þau geti haldið gullkálfinum sínum óskertum.
Ég vill að skilanefndir þeirra banka sem eru að framkvæma akkúrat þetta núna komi fram og útskýri þetta fyrir mér. Í hvers umboði starfa þeir ríkisstarfsmenn sem þessar nefndir skipa? Hver borgar þeim laun og hver borgar þeim laun sem borgar þeim laun? Hvaða fólk er þetta?
Og af hverju þurfa skilanefndirnar eða bankastjórnir nýju bankanna ekki að réttlæta neitt sem þær gera?
Röggi
ritaði Röggi kl 13:59 3 comments
fimmtudagur, 29. október 2009
VG í stríði við verkalýðinn.
Árni Þór einn af æðstuprestum VG ræðst á Gylfa Arnbjörnsson formann ASÍ vegna þess að hann er ekki nógu hlýðinn. Vinstri menn telja sig nefnilega þinglýsta eigendur verkalyðsbaráttunnar og reiðilestur Árna Þórs er ekkert minna en hótun af hans hálfu um að Gylfi verði ekki langlífur í starfi með þessu áframhaldi.
VG er að vaxa sjálfstraust og um leið kemur eðlið í ljós. Stórfyrirtæki, fjármagn og auðvald eru óvinurinn í munni Árna Þórs. Eða í stuttu máli, atvinnulífið enda sjáum við hvaða afstöðu þessi flokkur hefur til þess geira þjóðfélagsins. Þetta eru raunar ekki ný tíðindi en margir höfðu gleymt þessu þegar þeir merktu við vinstri.
Nú verður spennandi að sjá hvort framkvæmdavaldinu tekst að beygja verkalýðinn undir sig og til hlýðni. Vinstri stjórnin hefur sagt verkalýðsbaráttunni stríð á hendur og því stríði mun hún tapa.
Gylfi Arnbjörnsson sækir nefnilega umboð sitt ekki til Árna Þórs eða annarra stjórnmálamanna. Og hver kaus Árna Þór til að skipta sér af málefnum verkafólks? Hér fer Árni fram af óvenju miklum hroka og frekju og greinilegt er að óþol stjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins er á þrotum.
Röggi
ritaði Röggi kl 18:36 3 comments
Hvernig losnar Samfylkingin við VG?
Jóhanna Sigurðardóttir segist sjá til lands og að bjart sé framundan. Vonandi hefur hún rétt fyrir sér en ég held að hér sé í besta falli um barnaskap af hennar hálfu að ræða eða óskhyggju nema hvoru tveggja sé.
Núna þegar búið er að ganga frá "stóru" málum þessarar ríkisstjórnar tekur ekki betra við. Samfylkingin hefur algerlega áttað sig á að hún getur ekki látið Indriða H og Félaga í VG stýra för í efnahagsmálum og þráir heitt að finna útgönguleið sem ekki rústar því litla sem eftir er af orðspori flokksins sem samstarfsaðila. Sú leið er ekki auðfundin núna en ekki skyldi neinn vanmeta Össur...
Margir eru að bíða eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði tekinn af lífi þegar rannsóknarnefnd þingsins talar í febrúar. Ég held reyndar að ekki sé mikil innistæða fyrir þeirri aftöku því að flokknum hefur fram til þessa verið kennt um allt sem aflaga hefur farið og ekki loku fyrir það skotið að niðurstöður nefndarinnar muni einmitt leiða í ljós að fleirum er um að kenna...
... og þar er allt eins víst að bæði Framsókn og Samfylking eigi eitthvað inni sem fjömiðlar og spunakarlar hafa ekki hirt um. Þessi kvíði læsist nú um Samfylkinguna ofan á allt annað og svo er stutt í sveitarstjórnarkosningar.
Sem verða haldnar í skugga skattaæðis Vinstri grænna og lamaðs atvinnulífs og fjandskapar við samtök hinna vinnandi stétta. Og hver á að taka við skútinni þegar Jóhanna fær hvíldina ef að erfðaprinsinn hans Össurar, Dagur B, vinnur ekki borgina. Situr Samfylking þá uppi með Árna Pál? Hversu grimm örlög yrðu það?
Spennandi tímar framundan í pólitíkinni og mjög verður gaman að fylgjast með því hvernig Samfylkingin losar sig frá VG því það verður hún að gera af öllum ástæðum því flokkarnir eiga litla sem enga samleið í öðru en að upplifa gamlan draum um vinstra vor.
En nú er haust og það er fimbulkalt þetta haust og það er lengst til vinstri og stefnir enn lengra þangað...
Röggi
ritaði Röggi kl 14:12 1 comments
þriðjudagur, 27. október 2009
Ríkisstjórn á eindaga.
Nú gengur maður undir manns hönd til að reyna að bjarga friðnum á vinnumarkaði. Að ríkisstjórninni undanskilinni reyndar en hún vill helst vera fyrir og mikið held ég að nú reyni á langlundargeð Samfylkingar. Þeir Sjálfstæðismenn eru til sem telja að sniðugt væri að vera í samstarfi við VG en ég tilheyri ekki þeim hópi. Efnahagspólitík þeirra er bara þannig og ósveigjanleiki.
Með efnahags og atvinnustefnu sinni er ríkisstjórnin að bíta aðila vinnumarkaðarins algerlega af sér og þá er líf hennar búið. Vel má vera að takist að halda einhverju lífi í samstarfinu út veturinn þrátt fyrir fullkomið ósætti um alla hluti ef friður helst á vinnumarkaði.
VG er í kjörstöðu núna. Leiðtogalaus Samfylking engist um í samstarfi sem hún vill ekki lengur vera í en kemst ekkert annað. Vinstri grænir ráða för eftir að þeir slepptu Samfylkingu lausri í ESB málinu og Steingrímur hefur aftur náð nokkrum tökum á flokknum sínum. það sést meðal annars á því að hann lyfti ekki fingri til varnar Svandísi fyrr en óróa deildin var orðin sátt og innri friður í VG nánast tryggður. Allt er það þó fallvalt eins við höfum séð.
Brátt mun Steingrími vaxa sjálfstraust á ný og hefja eyðileggingarstarf á aðildarumsókn okkar að ESB. það verður þó ekki fyrr en við höfum að mati VG tryggt okkur nægilega mikið af okurlánum frá ESB/AGS.
Samfylkingin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu ekki sé hægt að vinna með VG í þeirri stöðu sem við erum í en kemst bara ekkert. Takist ekki að tryggja frið á vinnumarkaði stefnir í kosningar fyrr en margan hefði grunað.
En eitt er alveg víst að það eina sem heldur þessum flokkum saman enn er löngunin til að vera í stjórn og kannski er eitthvað eftir af gamla draumnum um tandurhreina vinstri stjórn.
Sá draumur er að breytast í martröð Samfylkingar og við vitum alveg hvernig sá flokkur vinnur þegar þannig stendur á.
Röggi
ritaði Röggi kl 21:42 4 comments
miðvikudagur, 21. október 2009
Hvenær er starfsmaður starfsmaður?
Páll Magnússon forstjóri RÚV blandar sér í umræðuna um Egil Helgason og hlutleysi hans eða öllu heldur skort á því. Ég játa það að ég þekki ekki reglurnar um hlutleysi en mér finnst röksemdafærsla forstjórans merkileg.
Hann segist ekki bera ábyrgð á miðlinum sem Egill bloggar á og því séu reglur RÚV um hlutleysi ekki brotnar. Skilur þetta einhver? Hættir fólk sem vinnur hjá Páli að vera starfsmenn hans þegar það er ekki í útvarpshúsinu?
Reyndar rekur mig minni til þess að ráðherra einn hafi reynt að halda því fram að hann geti haft skoðanir á þjóðmálum sem manneskja en ekki sem ráðherra. það er kannski það sem Páll á við.
Skoðanir hans og afstaða sem hann hefur á Eyjunni og í andsvörum á bloggsíðum hingað og þangað eru bara þar. Þar fer ekki sjónvarpsmaðurinn heldur bloggarinn á Eyjunni. Þeir menn eru alls óskyldir....
Röggi
ritaði Röggi kl 20:18 11 comments
Illugi og klíkurnar.
Illugi Jökulsson tilheyrir engri klíku, þannig séð. Þess vegna getur hann haft hlutlausar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann þjáist að vísu af Davíðsheilkenninu og allir sem hann segir Davíðsmenn eru ekki verðir skoðana sinna.
Illugi telur að þeir sem ekki eru í skoðana samfélagi við hann megi ekki efast um hlutleysi Egils Helgasonar starfsmanns ríkisfjölmiðils. Fólk sem gékk nánast af göflunum þegar Davíð var ráðinn ritstjóri einkafjölmiðls telur nú að staða Egils sé ekki til umræðu.
Munurinn á þeim tveimur er alger. Enginn þarf að efast um hvaðan Davíð kemur og hann þarf ekki frekar en hann vill að gæta hlutleysis. Ekkert frekar en Illugi sem skrifar sínar greinar í blað sem er í eigu manna sem ekki hika við að stýra sínum fjölmiðlum með handafli eins og við vitum, þökk sé nútíma upptökutækni.
Egill Helgason er ekki í þessari stöðu og ekkert er að því að menn ræði það að maður sem hefur með jafn afgerandi hætti og hann tekið afstöðu bæði á bloggi sínu og annarra til manna og málefna sé ekki hæfasti maður landsins til að stýra hlutlausri umræðu í fjölmiðli sem á að gæta hlutleysis.
Ekki frekar en að ég gæti það, nú eða Illugi sjálfur. Óþol Illuga gagnvart þessari umræðu snýst auðvitað um pólitískan rétttrúnað og ekkert annað. Honum finnst sín sannfæring vera sú eina rétta og á meðan þáttastjórnandinn heitir Egill en ekki Hannes Hólmsteinn er allt í góðu. Dýpra ristir þetta nú ekki hjá bloggaranum.
Hún er ekkert betri klíkan sem Illugi tilheyrir. Hún er bara annarrar skoðunar.
Röggi
ritaði Röggi kl 17:49 0 comments
Hlutleysi Egils Helgasonar.
Egill Helgason er ekki og hefur aldrei verið hlutlaus þátttakandi í þjóðfélagsumræðum. Varla dettur nokkrum manni í hug að trúa því. Hann hringsnýst frá einum tíma til annars eftir vindátt í mörgum málum og velur sér vini og viðmælendur eftir hentugleika og stöðu hverju sinni.
þetta vita menn sem annað hvort lesa bloggið hans eða horfa á sjónvarpið hans. Ég reyndar veit ekki hvernig nokkur maður getur verið alveg hlutlaus í dag en Egill gerir hið minnsta ekki tilraun til þess heldur ræðst með látum að þeim sem benda á. Aðferðin sem hann notar er gamalkunnug.
Hann sleppir því að ræða málefnalega um málið heldur lætur sér nægja að benda á hvaða stjórnmálaflokki og skoðanir þeir hafa sem gagnrýna. Ekki veit ég hvort hann telur að ekki megi neinir gagnrýna hann aðrir en þeir sem hafa sömu skoðanir og hann en mér sýnist handónýt nálgun hans á faglega gagnrýni fara langt með að staðfesta gruninn.
Röggi
ritaði Röggi kl 10:53 8 comments
mánudagur, 19. október 2009
VG og Samfylking finna flöt.
Þá er það ákveðið.
Við göngumst inn á allt sem að okkur er rétt í Icesave og þrek forystumanna okkar á þrotum. Eða ætti ég kannski að segja forystumanns okkar því Steingrímur hefur staðið einn í stafni og ekki að undra að af honum sé dregið.
Fátt kemur mér orðið á óvart í pólitík en ég er þó gersamlega bit yfir þanþoli ginsins á Ögmundi og félögum. Engu skiptir hversu stór bitinn er, öllu er hægt að kyngja til að halda í stólana.
En díllinn er er ljós. Samfylking fær að spila sóló í sínu sem er skilyrðislaus undangjöf og hlýðni svo við getum gengið í ESB, sem þjóðin vil reyndar ekki, og VG fær að sinna sínum sérmálum sem er að tefja fyrir atvinnuuppbyggingu og mögulegum virkjunum og álversframkvæmdum.
Kannski hef ég rangt fyrir mér í spádómum minum um endalok þessara stjórnar. Flokkarnir virðast hafa fundið fínt jafnvægi sín á milli og geta dundað sér við áhugamál sín án þess að hinn sé að fetta fingur.
þetta er að sönnu gleiðiefni fyrir þá sem fá þá að halda stólum sínum en býsna sorglegt fyrir okkur hin því sagan er rétt að hefjast því nú tekur við herfðbundin efnahagsstjórn vinstri manna. Hún nefnist einu nafni, skattahækkanir.
Ballið er rétt að byrja því miður.
Röggi
ritaði Röggi kl 11:07 4 comments
laugardagur, 17. október 2009
Hvenær á prestur söfnuð?
Prestar eru merkileg starfstétt. þeir eru venjulegt fólk sem er fer í háskóla og les guðfræði og ef allt gengur upp fá þeir svo brauð og söfnuð sem þeim er ætlað að þjóna. þetta er ágætt system í sjálfu sér ég ber fulla virðingu fyrir guðfræðingum hvort sem þeir enda sem prestar eða eitthvað annað.
En stundum gerist það að þessum riddurum Guðs semur ekki við söfnuð sinn og þá er úr vöndu að ráða. Þessi starfsstétt virðist ekki lúta sömu lögmálum og aðrar og eru allt að þvi eins og heilagar kýr sem ekki má hreyfa við. þetta höfum við séð ítrekað nánast frá upphafi vega.
Nú er Gunnar Björnsson enn einu sinni kominn í vandræði í sínum störfum fyrir almættið. Guðsmaðurinn stóð af sér kæru um einhversskonar kynferðislegt áreiti og ég hef enga skoðun á þeirri niðurstöðu. Söfnuðurinn hans Gunnars er og hefur eðlilega verið með böggum hildar vegna þess máls og sýkna í dómsmáli hans skiptir þar ekki öllu.
Biskup tekur einu réttu ákvörðunina þegar hann ákveður að færa Gunnar til í starfi. það er ekki til marks um að hann telji niðurstöðu dómstóla ranga eins og stuðningsmenn Gunnars virðast telja kjarna málsins. Hér er hugsað stórt og langt og um heildarhagsmuni safnaðarins. þeir hagsmunir eru Gunnari ekki ofarlega í huga.
Hann bara "á" þetta fína djobb! Söfnuðurinn er til fyrir hann en ekki öfugt. Hugsanlega mun klerkurinn reyna að kæra sig aftur til starfans af því að hann var ekki hnepptur í fangelsi.
Er það nógu góð ástæða? Prestar eru að vinna með manneskjur við merkilegustu augnablik lífsins í sorg og gleði. Þeir eru ekki í pólitík þar sem reglurnar eru að þeir sem geta sýnt fram á að að meirihluti atkvæðisbærra manna styðji þá tryggi yfirráð. Þessu gleyma prestar of oft.
Ég skil vel þau prinsipp að ekki er gott að fólk geti bara komið með ásakanir út í loftið til að losna við prest úr starfi og aldrei má gefa afslátt af sönnunarbyrði þeirra sem ákæra. Þetta mál snýst bara alls ekki um þessi gildi.
Æra Gunnars er hrein og enginn biskup getur breytt þvi en Gunnar Björnsson þarf að sætta sig við að sýknudómurinn dugar bara ekki til að um hans starf skapist sá friður sem nauðsynlegur er. Um þetta snýst málið og ekki annað.
Ég skil ekki það hugarfar að vilja starfa í óþökk umbjóðenda sinna. Menn geta hugsanlega kært sig til vinnu sem lagerstjórar séu þeirra ranglega bornir sökum en um preststarfið gilda allt önnur lögmál.
Prestur sem ekki nýtur trausts eða trúnaðar safnaðar verður aldrei sá sálusorgari sem hann var ráðinn til að vera. Sumir prestar virðast láta slíka smámuni í léttu rúmi liggja.
Röggi
ritaði Röggi kl 20:52 4 comments
mánudagur, 12. október 2009
Ofbeldi Haga og fjölmiðlun.
Kastljós fjallaði í kvöld um markaðsofbeldi Haga gagnvart öðrum á Íslandi eins og um glænýja stórfrétt væri að ræða. Og meira að segja Egill Helgason var með mætan mann í settinu um helgina sem fór yfir þessu sögu sem hefur varað í mörg ár en sumir ekki mátt heyrast minnst á, fyrr en nú.
Hvernig ætli standi nú á þessu? það er ekkert nýtt í þessu og þetta hefur blasað við lengi. það er heldur ekkert nýtt í því að þeir sem eiga þetta fyrirtæki hafa vaðið yfir allt og alla sem hafa haft eitthvað um þeirri einveldi að segja í fjölmiðlum sínum árum saman.
Fjölmiðlamenn eru duglegir að draga stjórnmálamenn og gerendur á fjármálamarkaði til ábyrgðar eftir hrunið mikla það vantar ekki en hver er ábygrgð fjölmiðla? Vissulega hafa sumir fjölmiðlar ekki getað fjallað um eigendur sína eins og þeir hefðu bæði þurft og átt að gera en það á ekki við um alla fjölmiðla. Ábyrgð fjölmiðla er mikil það held ég að enginn efi og þeir sem ekki spyrja sig alvarlegra spurninga um örlög fjölmiðlafrumvarpsins í ljósi sögunnar eru úti á þekju eða þá Samfylkingarmenn.
Vonandi er umfjöllun um ofbeldi þeirra sem eiga og reka Haga til marks um að hreðjatök þessa fólks fara dvínandi. Eitt virðist alveg ljóst og það er að fjölmiðlamenn með bein í nefi virðast ekki vaxa í hópum hér.
Núna þegar almenningsálitið hefur snúist gegn þessum aðilum þá fara sumir fjölmiðlar af stað en ekki fyrr. Það er umhugsunarefni mikið en gefur okkur hugmynd um hvað fær menn eins og Baugsfólkið til að tapa stórfé árum saman á rekstri fjölmiðla. Fyrir mér er þetta allt samhangandi og sú blessun sem eigendur Haga fengu þegar þeir völdu sér pólitíska vini tryggði þeim líka áframhaldandi yfirburðavöld á matarmarkaði og þar voru og eru meðölin ekki skárri en á fjármála.
En betra er þó seint en aldrei sagði einhver og ekki er vafi í mínum huga að þegar við loksins verðum laus undan eignarhaldi þessa fólks á nánast öllu hér nema skuldum sínum þá mun margt áhugavert koma upp úr dúrnum og fleiri en Sigmundur Ernir munu þá opna munninn lausir undan okinu.
Þessi saga er rétt að byrja...
Röggi
ritaði Röggi kl 20:59 2 comments
sunnudagur, 11. október 2009
Ónýt ríkisstjórn
Ég hef lengi velt því mér fyrir af hverju ofnæmi vinstri manna fyrir öllu sem heitir iðnaður er svona almennt og sterkt. Núna sitjum við uppi með stjórnvöld sem gera hvað þau geta til að ekki verði til fleiri störf í iðnaði.
Álver eru niðadimmar kolanámur í augum vinstri manna en ekki vel borgandi vinnustaðir í iðnaði. Vatnsaflsvirkjanir eru af einhverjum ástæðum sérlega ógeðfelld aðferð til að beisla orku. Vinstri menn á Íslandi eru miklu hrifnari af þvi að ál sé framleitt þar sem notuð eru kol. Kyoto hvað...
Núna er fólkið sem kom í veg fyrir stækkun álversins í Straumsvík í ríkisstjórn. Í dag skilur eiginlega enginn hvers vegna þeirri stækkun var hafnað. Eins og staðan er núna sitjum við upp með ríkisstjórn sem gerir í því að vinna gegn hagsmunum dagsins að ég tali ekki um morgundagsins.
Annar flokkurinn liggur marflatur fyrir ESB og tekur alla afstöðu út frá hagsmunum þess apparats. Við vitum ekki enn hversu dýrkeypt það mun verða okkur en við vitum þó að það verður dýrt að treysta sér ekki til að verja hagsmuni okkar. Hjá þessum flokki eru flokkshagsmunir einu hagsmunirnir.
Hinn flokkurinn leggur nú nótt við nýtan dag í viðleitni sinni til að bregða fæti fyrir þá sem eru að reyna að búa til störf í iðnaði af vel þekktu og kunnu ofstæki undir forsæti umhverfisráðherra.
Fyrir mér er vinstri stjórn afleit hugmynd yfirleitt en ég held að sú sem nú starfar sé jafnvel verri en almennt gerist um slíkar stjórnir. Þar er hver höndin upp í móti annarri og ekkert samkomulag um neitt og því hafa flokkarnir rokið til síðustu daga og vasast nú hver í sínu horni í einkaflippi þvers og kruss og smámál eins og stöðugleikasáttmáli nýundirritaður af skælbrosandi forsætisráðherra léttvægur fundinn.
Sem betur fer hafa vinstri stjórnir ekki verið langlífar og þessi stefnir í verða mjög skammlíf. Við verðum bara að vona að skaðinn sem tekst að vinna ýmist með algeru aðgerðaleysi eða aðgerðum verði ekki óbætanlegur því í dag veit ég hreinlega ekki hvort mér finnst verra, aðgerðaleysið eða þær aðgerðir sem gripið er til.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:12 6 comments
föstudagur, 9. október 2009
Milljarður er vont orð.
....og auk þess legg ég aftur til að við hendum orðinu milljarður út úr Íslensku máli. þetta annars nokkuð þjála orð ruglar ruglaða þjóð meira en gott er og brenglar skilning manna á tölum og upphæðum.
Vissulega er upphæðin sem Jón Ásgeir og hans líkir eru að stela af okkur 1 000 milljarðar eða 1 000 000 000 000 00..... milljónir.....ég bara kann ekki að setja saman öll núllin aftan við svona tölu þegar við hættum að nota styttinguna sem við höfum notað fyrir 1 000 milljónir
Vita ekki örugglega allir að milljarður eru 1 000 milljónir?
Röggi
ritaði Röggi kl 09:41 3 comments
fimmtudagur, 8. október 2009
Eldarnir loga nú samt.
Fréttirnar af þingflokksfundi VG í gær og yfirlýsingar í kjölfarið minna mig á það þegar þjálfari fótboltaliðs fær traustyfirlýsingu stjórnar. Þá er stutt í brottreksturinn. Auðvitað vilja allir vera vinir á mannamótum og menn taka ekki á móti fornum vinum og samferðamönnum úr langferðum til að vega þá á staðnum og það jafnvel þó þeir hafi týnt lífsstefnunni í ferðinni.
En það er samt það sem er að gerast. Steingrímur hefur umpólast í þingmann Samfylkingar á meðan sannfærðir VG þurfa að hlusta á formann Framsóknarflokksins flyta ræðuna sem Steingrímur flutti sjálfur af innlifun og þrótti fyrir ári siðan. Við borgum ekki og burt með AGS og ESB og svo framvegis. það er búið að stela málsstaðnum fyrir framan nefið á VG.
Steingrímur er í gríðarlega erfiðri stöðu og situr pikkfastur í gildru sem Ögmundur og hans fólk neyddist til að egna enda mikilvægt fyrir flokkinn að ná að halda í sérkenni sín. Hann getur sig í raun hvergi hrært og allsendis óvíst að Ögmundur taki nokkurt tillit til áberandi löngunar Steingríms til að vera ráðherra. Ég get ekki séð hvernig VG ætlar sér að smyrja þessum ólíku skoðunum saman í einum flokki. Þó Ögmundi hafi ekki tekist að losna við óbragðið eftir að hafa kynngt sannfæringu sinni síðast er ekki hægt að útiloka að mönnum takist trixið öðru sinni þó ótemjan láti sýnu verr nú en þá.
Síendurteknar tilraunir Steingríms til að fá fé að láni framhjá AGS hljóta að fara mikið í taugarnar á Samfylkingu sem veit að með því fer allt ESB ferlið í uppnám og þar með eina mál flokksins.
Á meðan á þessu öllu stendur brennur Róm og þá sjaldan forystumenn stjórnarinnar mega vera að því líta upp frá innanflokksátökum og gagnkvæmri tortryggni þá er það til að spilla fyrir áframhaldandi uppbyggingu með skattaofbeldi á allt og alla.
Allt ber þetta að sama brunni og einungis spurning hvort en ekki hvenær. Standandi andspænis mjög erfiðum ákvörðunum og verkefnum verða menn að vera samhentir en það er þessi stjórn fráleitt. það er öllum ljóst þó ég geri mér grein fyrir þvi að hún muni hanga á stólunum á meðan einhvernveginn er sætt. Augljóst er þó að þolinmæði beggja er á þrotum og.....
....því kæmi mér ekki á óvart að klækjameistari Samfylkingar félagi Össur væri nú þegar farinn að þreifa á öðrum aðilum til að vera með eitthvert forskot þegar allt fer úr böndunum, það er hans stíll. Þar verður honum þó ekki kápan úr klæðinu því Samfylking er vinalaus flokkur sem hefur brennt allar brýr að baki sér með vinnubrögðum sínum.
Röggi
ritaði Röggi kl 16:34 3 comments
mánudagur, 5. október 2009
Silfur Árna Páls.
Aldrei þessu vant horfði ég að hluta á silfur Egils í gær. Magnaður panell í upphafi og minn maður Tryggvi Þór frábær. Áhugaverðast var þó að fylgjast með félagsmálaráðherra sem reyndi án afláts að láta eins og Guðfríður Lílja væri ekki þarna og væri ekki að segja það sem hún var að segja.
Árni Páll er að verða sérfræðingur í að segja ekki neitt. Draumur hans um leiðtogasæti Samfykingar fjarlægist með hverju viðtalinu sem hann gengur glaðbeittur til og Dagur og Össur fagna óspart.
Í gær kepptist hann við að ræða stöðu stjórnarandstöðunnar. Fyrir okkur flest er staða ríkisstjórnarinnar verulegt áhyggjuefni þó mér finnst fremur undarlegt að einhverjir hafi búist við öðru en þeir fengu þegar merkt var við vinstri.
Ef ekki hefði verið fyrir öfluga stjórnarandstöðu bæði innan ríkisstjórnar og utan hefði félagsmálaráðherra tekist að samþykkja Icesave samninginn ólesinn og óbreyttan í sumar. Árni Páll er hins vegar upptekinn af þvi að menn sem ekki gerðu samninginn skuli ekki greiða honum atkvæði. Vissulega tókst stjórnaradstöðunni að lágmarka skaðann með ærinni fyrirhöfn en að ætlast til þess að hún beri ábyrgð á samningnum sjálfum er hreinlega barnalegt.
Ef maður hefði nú bara áhyggjurnar hans Árna Páls segi ég. Ég held að hann ætti að snúa sér að öðru en að benda á stjórnarandstöðuna og vinda sér að hinum erfiðu verkefnum sem fyrir liggja því ekki verður betur heyrt á honum en að lausnir séu í hendi.
þetta er maðurinn sem sagði í sigurvímu hér fyrr á árinu að allt yrði hér í blóma ef við bara sendum inn umsóknaraðild að ESB. Nú er það frá og við siglum á sjálfstýringu þaðan í gegnum IMF en ekkert bólar á bjargráðum og skjaldborgum sem lofað var.
Af því ætti hæstvirtur félagsmálaráðherra að hafa áhyggjur en ekki heilsufari stjórnarandstöðunnar.
Röggi
ritaði Röggi kl 13:17 3 comments
Jóhanna átti ekkert val.
Er hægt að ætlast til þess að forsætisráðherra sé með ráðherra í ríkisstjórn sem ekki vill vinna í takt við það sem ákveðið hefur verið? Ég svara hér fyrir mig og segi nei. það er ekki nokkur leið og hvorki sanngjarnt eða eðlilegt. Þetta er grundvallaratriði sem við kunnum ekki að umgangast af því að við erum óvön því að menn standi og falli með prinsippum.
Hvað er eðlilegt við að Jón Bjarnason sitji í ríkisstjórn hafandi lýst því yfir að hann styðji ekki eitt helsta mál stjórnarinnar? Ístöðuleysi þess manns og prinsippleysi er sennilega heimsmet þó honum sé hampað sem sterkum einstaklingi sem gefur ekki sitt eftir. Hann tekur ráðherrastólinn fram yfir skoðanir sínar og það er engin reisn yfir slíku.
Allt ber þetta að sama brunni. Við verðum að aðskilja löggjafar og framkvæmdavald. Og þá dugir alls ekki að vera með æfingar í þinginu og reyna að búa til brunaveggi. það þarf að kjósa í tvennu lagi og koma framkvæmdavaldinu út úr þinginu. Hringlandahátturinn og vesenið sem við horfum upp á núna er fyrir neðan allar hellur.
Þingið er lamað og ónýtt vegna þess að framkvæmdavaldið virkar ekki. Af því fyrst og fremst að þetta er sama fólkið. Mér finnst þetta vera kennslubókardæmi um að þetta kerfi okkar er ekki nógu gott.
Ekkert er óeðlilegt í því að Jóhanna geti ekki verið með ráðherra sen ekki rær í sömu átt og ákveðið er að róa. Við fáum fréttir af svona löguðu daglega erlendis frá og ráðherrar fjúka af minna tilefni en því að geta ekki fylgt stefnu stjórnar sem þeir sitja í!
Ögmundur er kosinn til að fylgja sannfæringu sinni eftir og það má hann gera af festu og styrk. Og þá sem löggjafi en ekki framkvæmdavald. Ríkisstjórnir eru rekstraraðili fyrirtækis sem lýtur lögum sem þingmenn setja. Hér er þessu öllu blandað saman og útkoman fullkomið kaos þar sem menn móðgast fyrir misskilning og framkvæmdavaldið situr og vélar um löggjöf framhjá þinginu seint og snemma og heimtar trúnað í leiðinni bæði fyrir þjóð og þingi.
Ef allt væri eðilegt væri réttkjörinn forsætisráðherra með fólk í kringum sig sem vill vinna saman að stefnu sem hefði hlotið brautargengi í kosningum. Löggjafinn er svo valinn til að setja leikreglur.
Hjá okkur er þetta ekki þannig. Hér er valið í ríkisstjórn eftir allskonar furðuleiðum innan flokka og þar geta klíkur þurft að fá sinn fulltrúa svo ekki springi allt í loft. Svo fara menn í það síðar að ganga úr skugga um hvort viðkomandi passi inn í starfið og stefnuna.
Þetta er ónýtt og mér finnst Jóhanna hafa gert það eina rétta í stöðunni og við eigum að læra af þessu. Framkvæmdavald og löggjafarvald eiga ekki samleið og því fyrr sem við sjáum það því betra.
Röggi
ritaði Röggi kl 12:13 0 comments
föstudagur, 2. október 2009
Væringar innan VG.
Ég get varla varist þeirri hugsun að það styttist í stórtíðindi hjá vinstri grænum. Óánægjan með framgöngu formannsins kraumar greinilega þó á yfirborðinu virðist allt slétt og fellt og óánægjuseggir barðir til hlýðni.
Nú hefur Ögmundur tekið af skarið og stillt sér upp sem valkosti til forystu undir gömlum formerkjum VG sem Steingrímur virðist hafa gleymt í látunum. Svandís Svavarsdóttir hefur ekki sést mánuðum saman en loks þegar hún birtist er það til að tefja fyrir uppbyggingu atvinnulífs nú á þessum krepputímum. Fáum dylst að þetta er fjármálaráðherra ekki til skemmtunar í miðju baslinu.
Stjórnarflokkarnir virðast algerlega sannfærðir um að engin leið sé fær önnur en að ganga að skilyrðum viðsemjenda okkar í Icesave deilunni undir hótunum ESB. Mikið vildi ég að þeim tækist að sannfæra mig og restina af þjóðinni en þar er langur vegur frá og Steingrimur virðist alls ekki hafa sannfært hjörð sína um annað en að gott sé að vera í ríkisstjórn og það sem dugi til þess sé eftirgjöf og aðeins meiri eftirgjöf hvort sem það er gagnvart viðsemjendum eða eigin prinsippum.
Allt bendir þá til þess að samninganefnd okkar geti ekki komið með neinn samning heim sem þessi kvalda þjóð mun samþykkja og þá er undir hælinn lagt að Steingrímur eigi pólitískan möguleika lengur. Hesturinn sem hann hefur veðjað öllu á er nefnilega ekki líklegur núna til þess að draga i mark.
Og mér finnst eins og sumir í VG séu að gera sig gildandi fyrir þann tímapunkt núna....
Röggi
ritaði Röggi kl 14:23 1 comments